Hoppa yfir valmynd
23. september 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Opnun heimasíðu um styrki til atvinnumála kvenna

Góðir gestir.

Það gleður mig mikið að vera hér í dag í tengslum við gamalt verkefni sem ég ýtti úr vör í fyrri ráðherratíð minni sem félagsmálaráðherra árið 1991. Þetta verkefni var þarft í upphafi og enn er það í góðu gildi eins og sést af öllum þeim fjölda styrkumsókna sem berast árlega.

Í upphafi þegar til þessa var stofnað var atvinnuleysi töluvert meðal kvenna og voru styrkirnir ætlaðir sem mótvægisaðgerð og tækifæri fyrir konur til að stunda viðskipti með því að bæta aðgang þeirra að fjármunum.

Það má þó kannski segja að ánægjan með þetta sé tvíbent. Það sýnir sig að konur njóta ekki almennra styrkja til atvinnusköpunar til jafns við karla. Skipting slíkra styrkja skilst mér vera sú að karlar fái um 70–80% þeirra en konur 20–30%. Konur sækja ekki um þá í sama mæli og karlar af einhverjum ástæðum og þær virðast heldur ekki sækja fé jafn greiðlega til lánastofnana og karlar.

Ég held að það sé óhætt að segja að konur séu varfærnari í fjármálum en karlar. Þær veigri sér frekar við að stofna til skulda, fari rólegar af stað í upphafi viðskipta og leggi fremur áherslu á rekstur lítilla fyrirtækja en stórra. Þær leggja líka minna upp úr yfirbyggingu í rekstrinum og sýna oft meiri hagsýni en karlar.

Nýlegar niðurstöður sem Creditinfo á Íslandi kynntu staðfesta þetta einnig, en þar kom fram að minni líkur eru á að þau fyrirtæki þar sem konur eru í stjórn lendi í alvarlegum vanskilum og jafnframt að fyrirtæki eru alltaf líklegri til að lenda í vanskilum þar sem engar konur eru í stjórn.

Fjölbreytni í atvinnulífinu er af hinu góða og ég tel smárekstur nokkuð sem ber að rækta. Frá árinu 1991 hafa tæplega 330 konur fengið styrki úr þessu verkefni um atvinnumál kvenna, samtals 160 milljónir, og er þá ekki um að ræða framreiknaða upphæð.

Mikil ásókn er í styrkina og fyrir ráðgjafarnefndina sem úthlutar styrkjunum hlýtur þetta að vera mikill höfuðverkur í hvert sinn að velja og hafna. Ýmis konar hönnun, menningartengd ferðaþjónusta, matvælaframleiðsla, snyrtivöruframleiðsla, allt eru þetta dæmi um verkefni sem fengið hafa styrki með góðum árangri.

Hugmyndaríki og útsjónarsemi í því að nýta sér staðbundnar aðstæður eru meðal einkenna á mörgum umsóknum, en þess má geta að um helmingur styrkja hefur runnið til kvenna á landsbyggðinni og um helmingur til kvenna á höfuðborgarsvæðinu.

Opnun heimasíðunnar hér í dag er til þess fallin að vekja betur athygli á þessu verkefni og sömuleiðis getur síðan verið ágæt leið til að koma á framfæri upplýsingum og fræðslu. Ráðgjöf og fræðsla fær nú aukinn sess, enda hefur öflugur starfsmaður verið ráðinn til að halda utan um verkefnið. Ráðgjöf og fræðsla er ekki einungis ætluð styrkþegum heldur einnig konum með viðskiptahugmyndir sem vilja gjarna ráðgjöf og kennslu til að útfæra þær.

Ég veit að verkefnið er ekki eyland, heldur er gott samstarf við atvinnuþróunarfélög um allt land og eins við Impru sem líka stuðlar að uppbyggingu atvinnureksturs kvenna. Allt slíkt samstarf er af hinu góða því hér gildir eins og oftast áður að saman erum við sterkari.

Það hefur sýnt sig að stuðningur við konur í atvinnulífinu skilar árangri og góðum verkefnum. Hingað til hefur árlega verið úthlutað um 15–20 milljónum króna en ég lagði áherslu á að stórauka upphæðina og eru 50 milljónir króna til ráðstöfunar á þessu ári.

Það er ánægjulegt að verkefnið hafi eignast heimasíðu. Vonandi mun hún koma að góðum notum og efla verkefnið enn frekar til stuðnings atvinnulífinu og aukinnar fjölbreytni.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta