Hoppa yfir valmynd
31. desember 2018 Forsætisráðuneytið

Áramótaávarp forsætisráðherra 2018

Kæru landsmenn!

Ég átti því láni að fagna í sumar að heimsækja slóðir Íslendinga í Kanada og Bandaríkjunum. Það Ísland sem ég geymdi í hjarta mínu eftir þessa heimsókn reyndist mun stærra en það sem ég hafði áður þekkt. Þarna leynist stór hluti sögu okkar, stór hluti af Íslandi.

Og tilfinningin fyrir þau sem þangað fóru undir lok 19. aldar. Að koma að ströndum ókunnugs lands þar sem slétturnar teygja sig svo langt sem augað eygir. Þar sem ýmist var kaldara eða heitara en á Íslandi, flugurnar stærri, farsóttirnar öðruvísi, tungumálið framandi. En aldrei gleymdu þau rótunum heima á Íslandi.

Ekki var alltaf talað af virðingu um „fólkið sem fór“ eins og það var kallað. En þetta var þeirra val; það var jafn mikilvægt og val hinna sem ekki fóru. Fólkið sem fór á jafn mikla virðingu skilda og það sem eftir varð. Eitt af mikilvægustu verkefnum komandi ára er að vinna gegn eyðandi lítilsvirðingu gagnvart þeim sem eru skilgreindir öðruvísi og annars konar. Við eigum að taka undir einarða baráttu fólks sem hefur mátt þola margs konar lítilsvirðingu og neitar að þola hana lengur.

Hinir miklu þjóðflutningar vestur um haf minna okkur einnig á hve erfitt gat verið að búa á Íslandi á 19. öld. Þeir minna á þá sáru fátækt sem ríkti hjá mörgum og hversu smá þjóðin gat oft virst gagnvart óblíðri náttúrunni. Þessir flutningar urðu í aðdraganda þess að Íslendingar urðu frjáls og fullvalda þjóð. Vestur-Íslendingar byggðu nýtt samfélag vestan hafs og hér byggðum við samfélagið sem við eigum nú saman á Íslandi.

Fullveldissagan er saga framfara, raunar er allt svo gjörbreytt að stundum er eins og 19. öldin hafi aldrei verið. En íslenska samfélagið hefur þó aldrei aðeins snúist um efnahagslega velferð eingöngu heldur almenna velferð og jöfnuð. Ísland trónir nú á toppi ýmissa þeirra lista sem mæla hagsæld og velferð. Samfélagið hefur breyst, uppruni landsmanna er nú fjölbreyttari en árið 1918 og þeir eiga ólíka sögu og bakgrunn. Það er ekki nokkur vafi á því að fullveldið hefur verið aflgjafi til að ná öllum þessum árangri.

Ágætu landsmenn

Á örfáum árum hefur ferðaþjónusta orðið stærsta útflutningsgrein Íslendinga. Sjávarútvegur sem áður gnæfði yfir aðrar atvinnugreinar í útflutningstekjum og stóriðja koma þar á eftir. Sviptingar seinustu mánaða í flugrekstri sýna hins vegar glöggt að veður geta skipast skjótt í lofti og minna okkur á að fyrir lítið hagkerfi eins og hið íslenska skiptir öllu að byggja á fjölbreyttum stoðum. Hið mikla álag þessarar nýju útflutningsgreinar á innviði og náttúru minnir líka á að hröð uppbygging ferðaþjónustu er vandaverk sem krefst virðingar fyrir náttúru og samfélagi. Hingað kemur fólk til að berja einstaka náttúru augum. Hluti af sjálfbærri ferðaþjónustu er að vernda þessa sömu náttúru fyrir utan þá skyldu sem á okkur hvílir að vernda náttúruna og víðernin þeirra fyrir komandi kynslóðir.

Vegna þess að sala náttúruauðlinda er og verður hverful atvinnugrein hefur aldrei verið mikilvægara að við Íslendingar horfum til hugvits og nýsköpunar til lengri tíma. Þráin til að komast lengra og vita meira, þekkingarleit þekkingarinnar vegna er ein mikilvægasta undirstaða framfara. Við eigum að leggja rækt við umhverfi þekkingarleitarinnar, halda áfram að byggja upp menntun og rannsóknir, við eigum að taka völdin í tæknibyltingunni og styrkja innviði þannig að fólk geti skapað sín eigin tækifæri á ólíkum sviðum. Stjórnvöld munu áfram leggja sérstaka áherslu á menntun, rannsóknir og nýsköpun, meðal annars með nýjum Þjóðarsjóði. Við lifum þá tíma að öllu skiptir að við horfum til lengri tíma en ekki einungis umræðna augnabliksins og líðandi stundar.

Loftslagsbreytingar eru ein þeirra samfélagslegu áskorana sem við munum þurfa að takast á við. Stjórnvöld kynntu sína fyrstu aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í haust í Austurbæjarskóla sem var fyrsta byggingin sem tengdist hitaveitu 1930. Lykiláherslur aðgerðaáætlunarinnar eru orkuskipti í samgöngum og aukin kolefnisbinding með landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis. Orkuskipti í samgöngum munu geta haft sömu áhrif og hitaveitan hafði; bæði í þágu umhverfis og til að bæta lífskjör okkar allra.

Áhrif loftslagsbreytinga á hafið mun skipta sérstöku máli fyrir okkur sem fiskveiðiþjóð, ekki síst súrnun sjávar sem þarf að vinna gegn með öllum ráðum. Mun fleiri áskoranir blasa við tengdar loftslagsmálum; það þarf að móta nýja framtíðarsýn um matvælaframleiðslu og tæknibreytingar í öllum geirum samfélagsins þarf að nýta til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga.


Góðir landsmenn

Upp úr áramótum blasir það vandasama verk við samtökum atvinnurekenda og launafólks að ná samningum á vinnumarkaði sem stuðla að bættum kjörum og tryggja hagsæld og velferð. Verkalýðshreyfingin hefur talað fyrir ýmsum félagslegum umbótum eins og hún hefur ávallt gert en hún hefur haft mikil áhrif á íslenskt samfélag alla fullveldissöguna. Réttindi hafa batnað stórkostlega, velferðarkerfi hefur verið byggt upp, heilbrigðiskerfið tekið stakkaskiptum og almenn menntun tekið stórstígum framförum. Um leið eru risastór viðfangsefni framundan; að draga úr kostnaði sjúklinga, byggja upp nýtt félagslegt húsnæðiskerfi, lengja fæðingarorlof og endurskoða skatt- og bótakerfi til að tryggja tekjulægri hópum bætt lífskjör.

Þó að samningar á almennum markaði séu á milli samtaka launafólks og atvinnurekenda munu stjórnvöld leggja sitt af mörkum til að greiða fyrir kjarasamningum. Þar hefur þegar hefur verið ráðist í ýmsar umbætur fyrir almenning í landinu með uppbyggingu samfélagslegra innviða.

Unnið er að heilbrigðisstefnu til lengri tíma en nú þegar hefur verið sett í forgang að draga úr kostnaði þeirra sem þurfa að leita sér lækninga. Þar hefur sérstök áhersla verið lögð á að draga úr kostnaði aldraðra og öryrkja. Unnið er að kerfisbreytingum sem bæta kjör örorkulífeyrisþega og koma sérstaklega til móts við hina tekjulægstu í hópi eldri borgara.

Á árinu sem er að líða hef ég átt frumkvæði að því að halda reglulega samráðsfundi aðila vinnumarkaðarins. Ég er sannfærð um að það hafi skipt miklu máli fyrir okkur öll að koma saman á slíkum fundum, fundum sem eru ekki samningafundir heldur vettvangur til að viðra ólíkar skoðanir og leita sameiginlegra leiða. Við verðum öll að nálgast viðfangsefnið af virðingu fyrir þeirri ábyrgð sem við berum en í komandi kjarasamningum felst tækifæri til að stíga nauðsynleg skref að því sameiginlega markmiði að halda áfram að bæta lífskjör alls almennings í samfélagi okkar.

Ríkisstjórnin mun þar leggja sitt af mörkum til þess að tryggja kjarabætur fyrir almenning. Nauðsynlegt er að ráðast í stórátak í húsnæðismálum til að tryggja nægjanlegt framboð af góðu húsnæði á viðunandi verði. Þá eru allir aðilar sammála um að breyta þurfi tekjuskattskerfinu til að koma sérstaklega til móts við lægri og millitekjuhópa.

Kæru landsmenn

Ísland tók sæti í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna á árinu og mun sitja þar til loka árs 2019. Meðal áherslumála Íslands eru jafnrétti kynjanna, réttindi hinsegin fólks og réttindi barna. Þegar kemur að jafnrétti kynjanna fagnar Ísland góðum árangri á alþjóðavísu, árangri sem ekki síst náðist vegna baráttu kvennahreyfingarinnar þar sem konur ruddu brautina, oft við litlar vinsældir, en með ótrúlegum árangri. Þar megum við hins vegar ekki slaka á, enda jafnrétti kynjanna hvergi nærri náð eins og við vitum öll. Þá eru stór verkefni framundan við að bæta réttindi hinsegin fólks þar sem Ísland hefur alla burði til að skipa sér í fremstu röð.

Í ár eru 70 ár liðin síðan Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt þar sem sú grundvallarákvörðun var tekin að mannréttindi væru algild. Ef til vill væri flóknara að ná saman um slíka yfirlýsingu í nútímanum – í öllu falli var þetta mikið afrek og sjálfsagt stærsta skrefið sem stigið var á seinustu öld til að efla virðingu manna hvers fyrir öðrum og vinna gegn hatri og tortryggni. Það eru þó blikur á lofti í heimsmálum, meðal annars vegna loftslagsbreytinga og átaka. Nýjar áskoranir á alþjóðasviðinu krefjast þess að við stöndum styrkari vörð um mannréttindi en nokkru sinni fyrr í anda Mannréttindayfirlýsingarinnar.

Góðir landsmenn

Í bók sinni Bókasafn föður míns sem kom út nú fyrir jólin spáir Ragnar Helgi Ólafsson því að lestur langra texta verði varla hversdagsíþrótt í framtíðinni. „Líklega verði slík iðja skilgreind sem einhvers konar sérfræðihæfni eða sniðugt hobbí, svona eins og að kunna að slá tún með orfi og ljá,“ segir hann. Þetta er umhugsunarefni, hvort tæknin og breytt miðlun upplýsinga, listar og afþreyingar sé að breyta okkur, hvernig við horfum, hvernig við lesum, hvernig við upplifum, hvernig við erum.

Bókaútgáfa hefur dregist verulega saman undanfarin tíu ár og það er meðal annars ástæða þess að nú fyrir jól samþykkti Alþingi sérstakt stuðningskerfi við hana. Það er undirstaða þess að við höldum áfram að nota íslensku að við getum hugsað um allt á íslensku. Og skáldskapur og önnur skrif eru birtingarmynd þess sem við hugsum. En alveg eins og frumkvöðlar tókust á við ný form skáldsögunnar á sínum tíma þarf skapandi fólk að takast á við ný form tölvuleikja og snjallforrita á íslensku og við þurfum að gera vel við skapandi fólk, hvort sem það fæst við hefðbundna eða óhefðbundna listsköpun.

Góðir landsmenn

Eins og ég nefndi í upphafi er það merkilegt að heimsækja slóðir Vestur-Íslendinga. Í Þingvallakirkjugarði í Norður-Dakóta bera flestir legsteinar íslensk nöfn. Þau sem þangað fóru, tóku með sér mikið ríkidæmi sem var menningin og samfélagsgerðin. Legsteinarnir minna okkur á að hvert og eitt eigum við stuttan tíma hér á þessari jörð en saman myndum við menningu og samfélag sem hefur langtum meiri áhrif en hvert og eitt okkar getur haft.

Um leið getur hver og einn haft áþreifanleg áhrif. Það sést þegar á bjátar, slys henda eða náttúruhamfarir verða, og við erum minnt á hversu mörg eru reiðubúin til að sinna því mikilvæga hlutverki að koma öðrum til bjargar. Það er einstakt að eiga þúsundir sjálfboðaliða sem eru reiðubúnir nótt og dag til að bregðast við og hjálpa öðrum þegar eitthvað gerist. Hver og einn getur gert sitt.

Á árinu hitti ég lækni frá Kongó, Denis Mukwege, sem hefur helgað líf sitt því að hjálpa konum sem hefur verið nauðgað og þær limlestar í stríðsátökum í Kongó. Fyrir þetta verk hlaut hann Friðarverðlaun Nóbels. Það er svona fólk, fólk sem lætur sig varða um mennskuna og hag annarra, sem er ekki aðeins dýrmætasta eign hvers samfélags heldur heimsins alls.

Við verðum ekki öll friðarverðlaunahafar Nóbels en við, sem eigum því láni að fagna að búa í einu friðsælasta landi heims, getum öll lagt okkar af mörkum, munað hvert eftir öðru, hlúð hvert að öðru og lagt okkar lóð á vogarskálarnar til að gera samfélagið aðeins betra; heiminn aðeins fallegri.

Kæru landsmenn. Gleðilegt ár.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira