Hoppa yfir valmynd
9. apríl 2019 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Formennska Íslands í norrænu menntamálaráðherranefndinni: Málefni kennara í brennidepli

Lone Nukaaraq Møller ráðuneytisstjóri á Grænlandi, Tony Asumaa menntamálaráðherra Álandseyja, Anna Ekström menntamálaráðherra Svíþjóðar, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Jan Tore Sanner ráðherra mennta- og aðlögunarmála í Noregi, Paula Lehtomäki framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Merete Riisager menntamálaráðherra Danmerkur og Paavo-Petri Ahonen skrifstofustjóri í finnska menntamálaráðuneytinu.  - mynd
Málefni kennara voru meginviðfangsefni fundar norrænu menntamálaráðherranna sem funduðu í Norræna húsinu í Reykjavík í dag. Hlutverk kennara í samfélagi örra breytinga, starfsumhverfi og viðurkenning á störfum kennara voru meðal þeirra viðfangsefna sem ráðherrarnir ræddu en á Norðurlöndunum öllum fer nú fram mikil umræða um þróun kennarastarfsins.

Það er umtalsverð kennaraþörf á öllum Norðurlöndunum, að Finnlandi frátöldu. Því hefur verið gripið til ýmissa ráðstafana, m.a. til að efla kennaramenntun og auka nýliðun í kennarastétt. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra kynnti á fundinum aðgerðir íslenskra stjórnvalda í þessu tilliti en þær felast meðal annars í því að frá og með næsta hausti býðst nemendum á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi bæði launað starfsnám og námsstyrkur.

„Kennarar gegna mikilvægasta starfinu í okkar samfélagi. Þeir móta framtíðina á hverjum einasta degi. Það er forgangsmál íslenskra stjórnvalda að stuðla að betra starfsumhverfi fyrir kennara og efla kennaramenntun og að því vinnum við nú. Þetta er spennandi og brýnt verkefni þar sem Norðurlöndin geta lært margt hvert af öðru og því er afar gagnlegt að fundur okkar í dag hafi verið helgaður þessu mikilvæga málefni,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Efling tungumálsins
Á fundi ráðherranna var einnig fjallað um tungumál og tungumálasamstarf Norðurlandanna. Það er viðvarandi verkefni Norrænu ráðherranefndarinnar að bæta gagnkvæman málskilning á Norðurlöndunum, enda greiðir hann fyrir hreyfingu fólks milli landa og eflir samkennd íbúa á svæðinu.

Ísland fer nú með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Í formennskuáætlun Íslands eru lagðar fram þrjár áherslur sem lúta að ungu fólki, sjálfbærri ferðamennsku og málefnum hafsins, með sérstakri áherslu á bláa lífhagkerfið. Fjölmargir viðburðir eru skipulagðir í tengslum við formennskuáætlunina en nánari upplýsingar um þá má nálgast hér á vef Stjórnarráðsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira