Hoppa yfir valmynd

Sjálfbær ferðamennska í norðri

Náttúra Norðurlandanna einkennist af líffræðilegri og jarðfræðilegri fjölbreytni en verulegur munur er á náttúru og landslagi frá norðri til suðurs og austri til vesturs. Stórar borgir og þéttbýli eru dæmigerð fyrir syðri og eystri hluta svæðisins en í norðri og vestri er að finna viðkvæma náttúru, stór óbyggð svæði, strjálbýli og víðerni. Útivera og samneyti við náttúruna, ásamt gamalgróinni gestrisni, er samofin sjálfsmynd og menningu Norðurlandabúa. Nokkur vel þekkt kennileiti og náttúruundur finnast á Norðurlöndunum og löndin þykja góð heim að sækja af mörgum ástæðum. Þéttbýlisvæðing síðustu áratuga hefur aðeins aukið þörfina og áhugann á að njóta einstæðrar náttúru. Á sama tíma eykst fjöldi þeirra sem hafa ráð á því að ferðast um heiminn og þó margir leiti helst uppi eftirsótta áfangastaði fjölgar þeim stöðugt sem vilja njóta náttúrunnar fjarri alfaraleið.

Ferðamennska á Norðurlöndunum hefur verið í örum vexti undanfarin ár. Samspil náttúru, menningar og sögu, ásamt fjárfestingu í innviðum og aukinni þekkingu hefur búið ferðaþjónustunni hagstætt umhverfi til vaxtar. Sívaxandi fjöldi ferðamanna felur í sér margar nýjar áskoranir. Álag á viðkvæma náttúru, nauðsynleg fjárfesting í bættum innviðum og öryggismál ferðamanna jafnt á landi sem sjó eru dæmi um stór, sameiginleg viðfangsefni ríkis og sveitarfélaga, sem og fyrirtækja og almennings í ferðaþjónustu.

Mikilvægt er fyrir Norðurlöndin að læra af reynslu og miðla lausnum hvers annars í því skyni að fanga þann ávinning sem felst í hröðum vexti ferðamennsku meðal annars fyrir atvinnuuppbyggingu í dreifðum byggðum. Það er sameiginlegt markmið allra Norðurlandanna að vernda þau náttúru- og samfélagsgæði sem eru grundvöllur ferðamennsku í norðri og styrkja þannig stöðu og samkeppnishæfni greinarinnar. Of margir ferðamenn á litlu svæði á sama tíma geta í senn skaðað umhverfi og náttúru og skapað neikvæða upplifun hjá gestunum. Það viljum við ekki.

Áherslan felur í sér samvinnu Norðurlanda um  jafnvægi milli vaxtar og verndar við uppbyggingu sjálfbærrar ferðaþjónustu. Stefnt er að því að ná yfirsýn yfir sameiginlegar áskoranir og stefnumótun landanna á þessu sviði. Aukin áhersla á náttúruvernd, sjálfbærni, nýsköpun og félagslega ábyrgð ferðaþjónustunnar mun til lengri tíma styrkja greinina, gefa heimamönnum tækifæri til virkrar þátttöku og stuðla að jákvæðu viðhorfi heimafólks til ferðaþjónustu. Greindar verða helstu áskoranir og tækifæri sem felast í vaxandi ferðaþjónustu á norðlægum slóðum. Lögð er áhersla á þátttöku allra Norðurlandanna með það fyrir augum að nýta sem best samlegðaráhrif samstarfs landanna.

Formennskuverkefnin á sviði sjálfbærrar ferðamennsku í norðri snúast um ferðamennsku og náttúruvernd, þar sem fyrst og fremst er litið er til náttúruverndar, loftslagsmála, hönnunar og gæða innviða ekki síst með tilliti til upplifunar gesta; stafræna væðingu ferðaþjónustunnar til aukinnar sjálfbærni og samkeppnishæfni; og staðbundinn mat í norrænni ferðaþjónustu byggða á matarhefðum og matarmenningu, ásamt nýsköpun í anda hins nýja norræna eldhúss. Lögð verður áhersla á að kynna ungu fólki þá möguleika sem felast í sjálfbærri ferðamennsku.

Stefnt er að því að virkja unga frumkvöðla í því skyni að þróa nýjar lausnir á völdum viðfangsefnum er snerta áhersluna um sjálfbæra ferðamennsku, í samstarfi við norræna nýsköpunarumhverfið og Norrænu nýsköpunarmiðstöðina.

Ferðamennska og náttúruvernd

Verkefnið um ferðamennsku og náttúruvernd miðar að því að auka þekkingu og deila reynslu um tengsl ferðamennsku og þjóðgarða og annarra náttúruverndarsvæða á Norðurlöndunum, einkum á norðlægum slóðum. Litið verður til stefnumótunar, skipulags varðandi fjöldastýringu, upplýsingagjafar til ferðamanna, uppbyggingar innviða þar á meðal innleiðingu endurnýjanlegrar orku í samgöngum, vottunar og reksturs, og annars fyrirkomulags í þjóðgörðum.

Stafræn væðing ferðaþjónustunnar

Stafræn væðing ferðaþjónustunnar hefur að markmiði að auka getu smærri ferðaþjónustufyrirtækja til að nýta sér kosti stafrænnar tækni við daglegan rekstur og markaðssetningu. Gerð verður þarfagreining er snýr að þekkingu og getu lítilla fyrirtækja til að nýta sér stafræna væðingu til dæmis til að stýra fjölda ferðamanna inn á tiltekin svæði. Dæmi frá Norðurlöndunum um vel heppnaða notkun stafrænnar tækni í ferðaþjónustu verða nýtt til að breiða út þekkingu um besta mögulega verklag.

Staðbundinn matur

Staðbundinn matur í ferðaþjónustu snýr að því að undirbúa ferðaþjónustuna undir þær breytingar sem má vænta í matvælaframleiðslu á Norðurlöndum vegna loftslagsbreytinga, breytinga á neysluhegðun ferðamanna og væntinga gesta til staðbundinna matvæla. Í verkefninu verður skoðað hvernig aukin áhersla á gæði og fjölbreytileika matvæla í heimabyggð, samfara nýsköpun í matvælaframleiðslu, getur stuðlað að  sjálfbærri nýtingu matarauðlindarinnar, nýjum atvinnutækifærum og verðmætasköpun í heimabyggð.

Síðast uppfært: 4.3.2019 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum