Hoppa yfir valmynd

Hafið - blár vöxtur í norðri

Hafið hefur bundið Norðurlöndin saman í tímans rás. Hafið er þjóðbraut fólks og hugmynda, flutninganet vöru og þjónustu, og sjálfbær uppspretta velferðar og verðmæta. Mikilvægi hafsins er því ótvírætt í menningu, viðskiptum og náttúru Norðurlandanna allra. Sum Norðurlandanna reiða sig að stórum hluta á auðlindir hafsins og heilbrigð hafsvæði eru undirstaða velmegunar þeirra. Sjálfbærni hafsins, auðlinda þess og vistkerfa er órjúfanlegur hluti af sjálfsmynd okkar.

Sjálfbær nýting og verndun lifandi auðlinda hafsins hefur lengi verið sameiginlegt markmið Norðurlandanna á alþjóðavettvangi. Ísland og Noregur tóku virkan þátt í þróun hafréttar og mótun alþjóðareglna um fiskveiðar. Svíþjóð hefur farið fremst í flokki við að sinna fjórtánda heimsmarkmiðinu um hafið, með dyggum stuðningi allra Norðurlandanna. Danmörk, Svíþjóð og Finnland hafa verið óþreytandi í að taka frumkvæði og styðja við stefnumótun og aðgerðir sem beinast að því að draga úr mengun og byggja upp lífvænleg vistkerfi í Eystrasaltinu. Grænland, Færeyjar og Álandseyjar eru eyjasamfélög þar sem sérhvert mannsbarn býr í návígi við hafið, skynjar það og skilur mikilvægi þess. 

Ísland byggir áherslu sína um „Hafið – blár vöxtur í norðri“ á þeirri forystu sem Norðurlöndin hafa tekið í málaflokknum bæði heimafyrir, svæðisbundið og alþjóðlega. Stefnumótun einstakra ráðherranefnda og norrænnar samvinnu í heild um sjálfbæra nýtingu og verndun auðlinda hafsins, þar með talið um plast og lífhagkerfið, er einnig lögð til grundvallar. Síðast en ekki síst er fylgt eftir áherslum fyrri formennsku Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um hafið og auðlindir þess.

Flestar þeirra áskorana sem snerta norræn hafsvæði verða einungis leystar með samstarfi þjóða. Mengun virðir engin landamæri - sjálfbær nýting auðlinda er samvinnuverkefni. Undir áherslunni um hafið eru skilgreind þrjú verkefni sem Ísland leggur sérstaka áherslu á í þessari formennskuáætlun. Verkefnin endurspegla áskoranir sem eru ofarlega á baugi á Norðurlöndunum og alþjóðlega, og byggjast á þeirri grundvallarreglu norrænnar samvinnu að fela í sér aukið virði umfram það sem hvert og eitt landanna hefur fram að færa. 

Verkefnin eru um hafnir sem miðstöðvar nýsköpunar og orkuskipta, NordMar Hafnir; um lausnir við þeirri ógn sem plast í höfunum er fyrir lífríkið og afkomu okkar, NordMar Plast; og um þá möguleika sem felast í fullnýtingu hráefnis og vinnslu sífellt verðmætari vara úr auðlindum sjávar, NordMar Biorefine.

Ungir frumkvöðlar verða virkjaðir í því skyni að þróa nýjar lausnir á völdum viðfangsefnum er snerta áherslurnar um hafið í samstarfi við norræna nýsköpunarumhverfið og Norrænu nýsköpunarmiðstöðina.

NordMar - hafnir 

NordMar - hafnir mun byggja upp samstarf hafna við Norður-Atlantshafið, þ.m.t. við nágranna í vestri í Skotlandi, Kanada og Bandaríkjunum og í austri við Eystrasaltið, þar sem markmiðið er að finna þær áherslur í nýsköpun sem mest þörf er á að hlúa að. Sem dæmi má nefna að hafnir geta gegnt lykilhlutverki í að stuðla að orkuskiptum haftengdrar starfsemi með því að veita aðgengi að vistvænni orku. Stutt verður við hafnir sem athafnasvæði sem tengir saman rannsóknir og menntun, sjávarútveg og ferðaþjónustu, fólk og fyrirtæki. Unnið verður með hverja áherslu í samstarfi haghafa, þ.m.t. hafna, sveitarfélaga, nýsköpunarumhverfisins, opinberra stofnana og fyrirtækja eftir því sem við á.

NordMar - plast 

NordMar - plasttekst á við plastmengun í höfunum sem er ein af stóru áskorunum samtímans. Meðal annars verður unnið að því að þróa sameiginlega aðferðafræði um hvernig meta megi umfang plasts í umhverfi hafsins. Einnig verður almenningur og sérstaklega ungt fólk upplýst um áskorunina og staðið fyrir viðburðum sem styðja við þá vitundarvakningu sem er víða um heim um skaðsemi plasts. Verkefnið verður unnið í samvinnu norrænna rannsóknarstofnana en einnig verða frjáls félagasamtök virkjuð til þátttöku í viðburðum.

NordMar - lífiðjuver

NordMar - lífiðjuver fylgir eftir áherslu norrænnar stefnumótunar um lífhagkerfið sem snýst um sjálfbæra og betri nýtingu lífrænna auðlinda og verðmætasköpun úr auðlindum sem hafa verið van- eða ónýttar. Sérstaklega verður metin hagkvæmni og möguleikar blárra lífiðjuvera. Verkefnið verður unnið í samvinnu haghafa á Norðurlöndum og við Eystrasaltið. Lögð verður áhersla á að kynna almenningi og sérstaklega ungu fólki þá möguleika sem felast í bláa lífhagkerfinu.

Hafið er ekki einungis ofarlega á baugi á Norðurlöndunum heldur hafa málefni þess hlotið verðskuldaða alþjóðlega athygli að undanförnu. Í samræmi við forystuhlutverk Norðurlandanna á alþjóðavettvangi mun formennskan kynna áherslu sína um málefni hafsins á norrænum og alþjóðlegum viðburðum á formennskuárinu þar með talið á Our Oceans ráðstefnunni í Osló 2019. Einnig verður hin árlega samnorræna sýning í Fælleshus norrænu sendiráðanna í Berlín haustið 2019 tileinkuð hafinu. 

Hafið er sameiginleg áhersla formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og Norðurskautsráðinu sem hefst í maí 2019. Málefnaáherslur og áætlanir um viðburði, greiningar og úttektir hafa verið unnar í nánu samráði þessara tveggja formennska og efnt verður til sameiginlegra viðburða sem tengjast málefnum hafsins.

Síðast uppfært: 4.3.2019 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum