Hoppa yfir valmynd

Um formennskuárið

Ísland gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2019. Yfirskrift formennskuársins er „Gagnvegir góðir“, sem vísar til þeirra beinu og stuttu samskiptaleiða sem eru innan svæðisins. Í sameiginlegum inngangi forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, og samstarfsráðherra Norðurlandanna, Sigurðar Inga Jóhannssonar, að formennskuáætluninni segir: „Þannig liggja sannarlega gagnvegir á milli Norðurlandanna, milli Reykjavíkur og Helsinki, Oslóar og Nuuk, Þórshafnar og Stokkhólms, Kaupmannahafnar og Maríuhafnar. Norðurlandabúar geta nánast óhindrað fært sig á milli landa, stundað nám, starfað eða stofnað fyrirtæki. Við erum aufúsugestir hvert hjá öðru og þessi hreyfanleiki gerir Norðurlöndin að samþættasta svæði heims sem býr yfir miklum efnahagsstyrk og ríkum félagsauði.“

Yfirskrift formennskunnar vísar til vináttu Norðurlandanna sem birtist meðal annars í hreyfanleika og öflugu innbyrðis samstarfi. Gagnvegir liggja líka út í heim þar sem Norðurlöndin kynna sig sameiginlega og leggja sitt af mörkum til alþjóðasamstarfs í þágu friðar, öryggis og umhverfisverndar. Gagnvegir framtíðar liggja um stafræna veröld. Norrænt samstarf hefur sýnt að það er betra að byggja brýr en reisa múra. 

Ungt fólk, sjálfbær ferðamennska og málefni hafsins

Í formennskuáætluninni eru lagðar fram þrjár áherslur sem lúta að ungu fólki, sjálfbærri ferðamennsku og málefnum hafsins, með sérstakri áherslu á bláa lífhagkerfið. Norrænar áherslur á jafnrétti, stafræna væðingu og sjálfbæra þróun fléttast inn í formennskuverkefnin, sem og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Í fyrsta lagi beinir formennskuáætlun Íslands sjónum að málefnum ungs fólks á Norðurlöndum – kynslóðarinnar sem fæddist í kringum aldamótin og er að hefja vegferð sína út í lífið. Við viljum hlusta á ungt fólk og standa fyrir verkefnum sem efla menntun, menningu og heilbrigði.

Í öðru lagi verður formennskuverkefnum á sviði sjálfbærrar ferðamennsku hleypt af stokkunum en þar standa Norðurlöndin frammi fyrir sambærilegum áskorunum. Við þurfum að finna jafnvægið milli vaxtar og verndar, taka vel á móti gestum en gæta um leið að því að ekki sé gengið á viðkvæma náttúru.

Í þriðja lagi verða málefni hafsins og bláa lífhagkerfið í forgrunni á formennskutímabili Íslands. Hafið tengir Norðurlöndin saman, skapar vinnu og verðmæti. Málefni hafsins eru líka brýnt umhverfismál og efnt verður til umfangsmikillar samvinnu til að hreinsa og vernda höfin, ekki síst gegn plastmengun.

Formennska Íslands mun einnig leggja áherslu á að fylgja úr hlaði og tryggja framgang tillagna sem unnar hafa verið um framtíð norræns samstarfs á sviði velferðarmála og umhverfismála, um bætt nýsköpunarumhverfi fyrirtækja og aukinn hreyfanleika innan Norðurlandanna.

Norðurlöndin eiga erindi á alþjóðavettvangi

Samvinna Íslendinga við aðrar þjóðir á Norðurlöndum skiptir máli. Norðurlöndin vinna náið saman á alþjóðavettvangi og hafa ávallt verið í hópi þeirra ríkja sem talað hafa fyrir mannréttindum og marghliða alþjóðasamvinnu. Þrátt fyrir að vera hvorki stór né fjölmenn hafa norrænu ríkin haft umtalsverð áhrif og voru til dæmis í hópi þeirra sem á sínum tíma ruddu brautina í alþjóðlegum umhverfismálum, friðar- og afvopnunarmálum.

Norðurlöndin sem vörumerki hafa fengið aukna athygli á síðustu árum og er horft til svæðisins þegar kemur að nýsköpun, heilnæmum mat og tækniþróun. Norðurlöndin hafa sýnt að jafnrétti er ekki bara sjálfsagt réttlætismál heldur líka snjöll efnahagsstefna.

Í yfirlýsingu ráðherranna segir enn fremur: „Norðurlöndin verða áfram að vera kröftugur málsvari friðar, mannréttinda og mannúðar á grundvelli alþjóðalaga og alþjóðastofnana. Ekkert af þessu er sjálfgefið. Norræn samvinna er ekki einu sinni sjálfgefin. Hún er niðurstaða sameiginlegra ákvarðana Norðurlandanna um að samtal, virðing og vinátta séu sterkustu stoðirnar fyrir svæðisbundna samvinnu.“

Hvað er norrænt samstarf?

Norræna samstarfið er eitt umfangsmesta svæðissamstarf í heimi. Að samstarfinu koma Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands. Norræna samstarfið er pólitískt, efnahagslegt og menningarlegt og lætur muna um sig í evrópsku og alþjóðlegu samstarfi. Löndin stuðla sameiginlega að öflugum Norðurlöndum í öflugri Evrópu.

Með norrænu samstarfi er hagsmuna svæðisins gætt og norræn gildi efld í hnattrænu samhengi. Sameiginleg gildi landanna styrkja stöðu Norðurlanda og skipa þeim meðal þeirra svæða í heiminum þar sem nýsköpun og samkeppnishæfni er mest.

Nánar um formennsku Íslands:

Síðast uppfært: 25.1.2019
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum