Hoppa yfir valmynd

Ungt fólk á Norðurlöndunum

Á formennskuári Íslands 2019 verður kynslóðin sem fædd er um síðustu aldamót að ljúka menntaskóla- eða verknámi, fara í háskóla eða út á vinnumarkaðinn, flytja að heiman og stíga inn í samfélagið. Þeirra er framtíðin. Á formennskuárinu verður sjónum beint að ungu fólki með formennskuverkefnum á sviði menntunar, menningar og heilbrigðis, þar sem áhersla er lögð á virka þátttöku og samtal við fulltrúa ungs fólks.

Það er stefna Norrænu ráðherranefndarinnar að Norðurlöndin verði besti staður í heimi fyrir börn og ungmenni. Það er verðug áskorun og um leið tækifæri til þess að skapa börnum og ungu fólki aukið rými til þess að vaxa og dafna sem virkir einstaklingar. Í stefnu um norrænt menningarsamstarf fyrir árin 2013 til 2020 er einnig lögð sérstök áhersla á ungt fólk á Norðurlöndunum og markmiðið er að börn og ungmenni skapi, njóti og hafi áhrif á listir og menningu.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru leiðarljós formennskuáætlunar Íslands en ungt fólk gegnir lykilhlutverki í að ná fram heimsmarkmiðunum. Til þess að það sé hægt þarf að hvetja ungt fólk til virkrar þátttöku í samfélaginu og gera ráð fyrir aðkomu unga fólksins að mikilvægum ákvörðunum. Þannig veitum við þeim hlutdeild í samfélagi okkar allra.

Menntastofnanir leika stórt hlutverk við innleiðingu heimsmarkmiðanna. Með menntun öðlast ungt fólk þá færni og kunnáttu sem þarf til að auka virkni og þátttöku þeirra í samfélaginu og þróun þess. 

Norðurlöndin hafa tekið á móti hópum af ungu fólki og börnum sem þurfa að eignast nýtt líf í nýju landi. Það er mikil áskorun að láta þessum nýju borgurum líða vel og finna að framlag þeirra sé mikilvægt norrænum samfélögum. Vinna þarf markvisst gegn útskúfun og einangrun þessa hóps.

Verkefnið Ungt fólk á Norðurlöndunum er þríþætt líkt og önnur formennskuverkefni Íslands og allir verkþættirnir eiga það sameiginlegt að börn og ungt fólk eru í fararbroddi. Sérstök áhersla er lögð á jafnrétti, hreyfanleika og sýnileika.

Menntun fyrir alla

Markmið verkefnisins um menntun fyrir alla er að Norðurlöndin verði í fararbroddi við innleiðingu á fjórða heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna með sérstaka áherslu á undirmarkmið 4.7. Það nær til allra skólastiga og lýtur að því að þjónusta og stuðningur við menntakerfi landanna verði í fremstu röð og að einstaklingar hafi tækifæri til fjölbreytts náms og starfa, án aðgreiningar. Til að efla lýðræðissamfélagið þarf að leggja þarf grunn að virkri þátttöku á öllum skólastigum og veita börnum og ungmennum viðeigandi undirbúning og fjölbreytt tækifæri fyrir frekara nám eða störf. Verkefnið er þríþætt og felst í samnorrænni kortlagningu á innleiðingu heimsmarkmiðs 4.7, samræðu ungs fólks um markmiðið og kennsluefni með gæðavísum til framtíðar um innleiðingu þess.

Platform GÁTT

Platform GÁTT er vettvangur sem sameinar nokkrar af sterkustu listahátíðum Norðurlanda í verkefnum sem hafa það að markmiði að veita ungu listafólki af svæðinu tækifæri til þess að tengjast innbyrðis og koma listsköpun sinni á framfæri. Hröð þróun á alþjóðavettvangi og fjölgun íbúa frá öðrum menningarsvæðum kalla á breytingar í norrænu samstarfi sem fela í sér áskorun til aðlögunar og um leið tækifæri til menningarlegrar nýsköpunar. Mikilvægt er að styrkja og þróa menningar- og listalíf á Norðurlöndum með því að stuðla að nýsköpun og auknum tengslum listamanna sín á milli og tengslum þeirra við norrænar listahátíðir og listviðburði.

Fyrstu þúsund dagar barnsins

Fyrstu þúsund dagar barnsins ná frá meðgöngu fram að tveggja ára aldri. Á þessu mikilvæga tímabili mótast barnið sem einstaklingur og það hefur áhrif á geðheilsu þess síðar á lífsleiðinni svo sem á unglingsárum. Markmið verkefnisins er að finna bestu leiðir til að efla geðheilsu og vellíðan á fyrstu árum lífsins þannig að öll börn á Norðurlöndunum hljóti besta mögulega upphaf í lífinu. Gerð verður greining á núverandi stöðu og söfnun góðra aðferða hvað varðar geðheilsu mæðra á meðgöngu, eflingu tilfinningatengsla milli barna og foreldra, snemmtæka íhlutun við áhættuþáttum í lífi ung- og smábarna, og vellíðan yngstu barnanna í leikskólum. 

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum