Hoppa yfir valmynd
3. júlí 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Hálfleikur í norrænu formennskunni

Hálfleikur í norrænu formennskunni - myndJohannes Jansson/norden.org

Ísland gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2019. Nú er formennskuárið rúmlega hálfnað og hefur það verið viðburðaríkt.

Fyrr á árinu voru haldnir nokkrir viðburðir undir forystu Íslands sem tengjast Norrænu ráðherranefndinni sem fer með félags- og heilbrigðismál. Má þar nefna tvo fjölsótta viðburði. Annars vegar norræna ráðstefnu um geðheilbrigði barna og hins vegar norræna ráðstefnu um jöfnuð, heilsu og vellíðan. Þær voru báðar haldnar af félagsmálaráðuneytinu og heilbrigðisráðuneytinu í samstarfi við Norrænu ráðherranefndina. Fram undan á formennskuárinu má svo nefna opna alþjóðlega ráðstefnu um #MeToo en hún verður haldin í Hörpu dagana 17.-19. september.

Bætt geðheilbrigði barna
Norræna ráðstefnan um geðheilbrigði barna fór fram á Grand hóteli 28. mars. Hún var haldin á ensku og bar titilinn Emotional wellbeing of children: School as the venue for mental health promotion, prevention and early intervention. Hana sóttu um 350  manns þar af nokkrir norrænir ráðherrar sem tóku þátt í pallborði.

Þrír íslenskir ráðherrar; þau Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra tóku til máls á ráðstefnunni. Lögðu þau öll áherslu á geðrækt, forvarnir og snemmtæka íhlutun og hvernig nýta megi skólakerfið betur til að efla geðheilbrigði barna. Þá var mikil áhersla lögð á þátttöku ungmenna í ráðstefnunni. Eins var boðið upp á vinnustofu um hagnýtar leiðir fyrir kennara og aðra sem vinna með börnum til að efla félags- og tilfinningafærni barna. Sömuleiðis málstofu um jaðarsett börn og mikilvægi samráðs við börn og málstofu um heilbrigði skólabarna. 

Rýnt í samspil jöfnuðar og heilsu 
Norræn ráðstefna um jöfnuð, heilsu og vellíðan fór fram á Icelandair Hótel Reykjavík Natura 29. maí. Hún var einnig haldin á ensku og bar titilinn Equity in Health and Wellbeing-Challenges in the Nordic Region. Hana sóttu um 170 manns.

Á ráðstefnunni var rýnt í samspil jöfnuðar og heilsu á Norðurlöndum. Sérstaklega var horft á hið flókna samspil tekna, heilsu og menntunar og leitað svara við því hvaða áhrif heilsa hefur á fjárhagslega og félagslega stöðu fólks. Eins hvernig slæm fjárhagsstaða og litlar bjargir geta haft áhrif á heilsuna. Fjallað var um að þó flestar alþjóðlegar kannanir gefi til kynna að lífsskilyrði á Norðurlöndum séu með besta móti og almenningur hafi jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu sé heilsufar breytilegt eftir félagslegri stöðu. Jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu virðist þannig ekki nægja til þess að tryggja heilsufarslegan jöfnuð  heldur er bætt félagsleg staða jafnframt mikilvæg forsenda hans. Um þetta var fjallað út frá ýmsum hliðum af mörgum af færustu sérfræðingum heims.

Tvö ár frá #MeToo í haust
Haustið 2019 verða tvö ár liðin frá því að #MeToo-bylgjan hófst og konur um allan heim greindu frá kynferðislegu ofbeldi og kynbundinni og kynferðislegri áreitni. Af því tilefni verður sem fyrr segir efnt til alþjóðlegrar ráðstefnu í Hörpu um áhrif #MeToo-hreyfingarinnar. Ráðstefna mun fara fram á ensku og ber heitið #METOO Moving forward. Ráðstefnan er enn einn liður í formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og nýtur stuðnings ríkisstjórnar Íslands. 

Undirbúningur ráðstefnunnar er í höndum stýrihóps um heildstæðar úrbætur í kynferðisofbeldismálum í samvinnu við norræn fagsvið jafnréttismála, félags- og heilbrigðismála, vinnumarkaðsmála, menntamála og menningarmála ásamt RIKK-rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands. Á ráðstefnunni verður fjallað um #MeToo í alþjóðlegu ljósi. Fjallað verður um hvers vegna bylgjan náði þessum hæðum árið 2017 og hvers vegna áhrifin voru ólík eftir samfélagshópum, samfélögum og löndum. Eins hvaða lærdóm má draga af #MeToo hvað varðar fjölþætta mismunun svo sem vegna kyns, þjóðernis, stéttar, trúarbragða, uppruna, aldurs, fötlunar og kynhneigðar. Þá verður fjallað um það hvaða áhrif bylgjan muni hafa á stöðu og þróun jafnréttismála á Norðurlöndunum og í öðrum löndum.

Ráðstefnan verður bæði almenns og fræðilegs eðlis. Nánari dagskrá má nálgast á heimasíðu ráðstefnunnar en þar er líka hægt að skrá sig til þátttöku.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum