Hoppa yfir valmynd
19. september 2023 Dómsmálaráðuneytið

Norrænir dómsmálaráðherrar funduðu í Reykjavík

Bjarni Kárason Petersen dómsmálaráðherra Færeyja, Ivalu Nørreslet Rex skrifstofustjóri frá Grænlandi, Karen Elleman framkvæmdastjóri norrænu ráðherranefndarinnar, Teija Makkonen frá dómsmálaráðuneyti Finnlands, Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra, Peter Hummelgaard, dómsmálaráðherra Danmerkur, Gunnar Strömmer dómsmálaráðherra Svíþjóðar, Emilie Enger Mehl dómsmálaráðherra Noregs. - mynd

Á fundi sínum í Reykjavík þann 18. september 2023 ræddu dómsmálaráðherrar Norðurlanda nokkur málefni, þar á meðal ofbeldi í nánum samböndum, ofbeldi hjá ungu fólki og erfðafræði í sakamálarannsóknum. 

Norðurlönd hafa löngum verið í fararbroddi þegar kemur að jafnréttismálum. Engu að síður er ofbeldi í nánum samböndum vandamál í öllum norrænu löndunum. Með því að geta betur komið í veg fyrir ofbeldi í nánum samböndum mætti bjarga fleiri mannslífum og vernda fleiri einstaklinga fyrir hörmulegum afleiðingum ofbeldis. Á fundinum var fjallað um reynslu norrænu landanna af aðferðum til að stöðva heimilisofbeldi snemma.

Einnig var það rætt á fundinum hvað hægt sé að gera á Norðurlöndum til þess að tryggja að ofbeldismál njóti þess forgangs sem nauðsynlegur er allan feril málsins í réttarkerfinu og einnig hvernig Norðurlönd geti uppfyllt tilmæli Istnabúl-samningsins. Istanbúl-samningurinn er alþjóðlegur samningur um vernd barna og kvenna gegn ofbeldi sem öll norrænu löndin hafa skrifað undir.

Þekkingarmiðlun stuðlar að öruggari Norðurlöndum

Mikilvægt er að Norðurlönd skiptist á upplýsingum og reynslu af réttarfarslegum aðgerðum og aðferðum til þess að byggja upp þekkingu. Norrænu dómsmálaráðherrarnir skiptust á reynslu og ræddu fleiri málefni á fundinum, svo sem aðgerðir gegn glæpastarfsemi ungmenna og möguleikann á að nota erfðafræðirannsóknir við rannsókn grófra brota og ofbeldis.

„Við þurfum að geta gripið fyrr og betur inn þegar kemur að því að skapa öryggi innan veggja heimilisins eða koma í veg fyrir glæpi ungs fólks. Það felst mikið norrænt gildi í því að löndin miðli af reynslu sinni hvert til annars. Saman erum við fljótari skapa þekkingargrunn sem byggja má aðgerðir á,“ segir Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Norrænt samstarf um dómsmál

Norrænu dómsmálaráðherrarnir funda einu sinni á ári vegna norræns samstarfs. Embættismannanefnd skipuð fulltrúum frá dómsmálaráðuneytum norrænu landanna undirbýr fundina. Nefndin ber jafnframt ábyrgð á því að hrinda ákvörðunum ráðherranna í framkvæmd og fylgja þeim eftir. Alla jafna kemur embættismannanefndin saman til fundar þrisvar sinnum á ári.

Nánar um norrænt samstarf um dómsmál

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum