Hoppa yfir valmynd
29.07. 2021 Utanríkisráðuneytið

Sýndarferðalag um Sahel-svæðið

Sýndarferðalag um Sahel-svæðið - myndVincent Tremeau, World Bank

Alþjóðaframfarastofnun Alþjóðabankans kynnti í tilefni alþjóðadags eyðimerkurmyndunar nýja vefsíðu, þar sem boðið er upp á ferðalag í gegnum sýndarveruleika um Sahel-svæðið í Afríku. Á vefsíðunni gefst ferðalöngum kostur á að kynnast svæðinu í gegnum 360-gráðu sjónarhorn. Þar er sýnt frá íbúum þess, langvarandi áskorunum og þeim fjölbreyttu verkefnum sem ólíkir aðilar taka þátt í til að bæta umhverfi, innviði og líf og velferð íbúa svæðisins. Verkefnin leggja þá til að mynda áherslu á valdeflingu kvenna og stúlkna, varðveitingu vistkerfa og uppbyggingu skilvirkra innviða. 

Sahel-svæðið býr yfir einstökum menningararfi og ríku mannlífi en stendur frammi fyrir margvíslegum áskorunum. Loftslagsbreytingar hafa til að mynda haft djúpstæð áhrif á svæðið, en hitastig hækkar þar 1,5 sinnum hraðar en meðaltal á heimsvísu. Nýleg frétt í Heimsljósi greinir frá ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra að verja 25 milljónum króna til að bregðast við neyðarástandi sem ríkir í þremur löndum Mið-Sahel svæðisins, en þörf fyrir alþjóðlega aðstoð fer þar stigvaxandi.

Fjöldi verkefna mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu hafa reynst afgerandi við eflingu farsældar, friðar og viðnámsþróttar á svæðinu, en stofnanir Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaframfarastofnun Alþjóðabankans gegna til að mynda lykilhlutverki í bættum lífskjörum milljóna íbúa svæðisins. Þá vekur vefsíðan einkum athygli á mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu í því að hlúa að viðkvæmustu hópum svæðisins og mæta áskorunum þess með áhrifaríkum og sjálfbærum lausnum.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum