Hoppa yfir valmynd

Fjármögnunarlíkan heilsugæslu á landsbyggðinni

Árið 2021 var tekið í notkun fjármögnunarlíkan sem reiknar fjármagn til heilsugæslustöðva á landsbyggðinni á staðlaðan og samræmdan hátt. Í því eru gerðar skýrar og samræmdar kröfur til þjónustuveitenda og þannig leitast við að gæta jafnræðis milli rekstraraðila og gagnvart notendum. Notaðar eru fyrirfram skilgreindar stýribreytur sem hafa á einn eða annan hátt áhrif á framleiðni og eftirspurn í heilsugæslunni. Tilgangur kerfisins er að gæta jafnræðis við úthlutun fjármagns og auka gæði og skilvirkni með það að markmiði að grunnheilbrigðisþjónusta sé í meira mæli veitt á heilsugæslustöðvum.

Í fjármögnunarlíkaninu er stuðst við aðferðafræði sem er m.a. notuð í Vestra Gautalandi í Svíþjóð og hefur verið löguð að íslenskum aðstæðum. Aðferðafræðin byggist á því að fjármagn til rekstrar hverrar heilsugæslustöðvar endurspegli þann sjúklingahóp sem viðkomandi stöð þjónar. Allir sjúkratryggðir íbúar landsins eru skráðir á heilsugæslustöð eða hjá sjálfstætt starfandi heimilislækni nema þeir óski sérstaklega eftir að vera ekki skráðir. Þeir sjúkratryggðir einstaklingar sem ekki eru skráðir eru settir á heilsugæslustöð samkvæmt búsetu. Fjármögnun stöðvanna byggir helst á  áætluðu þjónustumagni á hvern einstakling út frá aldri, kyni og sjúkdómsbyrði. Einnig tekur kerfið tillit til félagslegra aðstæðna þeirra einstaklinga sem skráðir eru á stöðina og fleiri þátta s.s. nýtingu á rafrænni þjónustu í  Heilsuveru. Ýmis gæðaviðmið eru byggð inn í kerfið t.d. viðmið tengd lyfjagjöf eldra fólks, bólusetningum o.fl., en einnig eru gæðaviðmið sem snúa að skráningum, mælingum og verklagi. Heilsugæslustöðvar fá til viðbótar greiðslur fyrir skólahjúkrun, túlkaþjónustu, sálfræði- og aðra geðheilbrigðisþjónustu og leghálsskimanir.

Í fjármögnunarlíkani heilsugæslu á landsbyggðinni eru 33 heilsugæslustöðvar (uppgjörsstöðvar) sem heyra undir 6 heilbrigðisstofnanir. Margar heilsugæslustöðvar eru síðan með fleiri en eina starfsstöð (sel) og í heild eru 58 starfsstöðvar á landsbyggðinni.

Nánari umfjöllun um fjármögnunarlíkanið má sjá í lýsingu líkansins.  Í ársbyrjun 2017 tók  í gildi samskonar fjármögnunarlíkan fyrir heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu.

Kostnaðarvísitala byggist annars vegar á kostnaðarvog sem skilgreinir mismunandi upphæð fyrir komur á stöðvar og vitjun fyrir hvern aldurshóp og kyn og hins vegar fjölda samskipta við starfsmenn heilsugæslustöðva. Kostnaðarvísitala heilsugæslustöðvar ræðst af fjölda einstaklinga sem skráðir eru á hverja stöð, kyni þeirra og aldri en meðaleinstaklingur fær þyngdina 1. Heilsugæslustöðvar sem eru með hlutfallslega fleiri einstaklinga yfir 65 ára aldri og ungbörn fá gildi hærra en 1. Þær sem eru með hlutfallslega fleiri einstaklinga á miðjum aldri fá gildi lægra en 1.

Þarfavísitala endurspeglar áætlað umfang þjónustu sem rekja má til sjúkdómsbyrði skráðra einstaklinga. Sjúkdómsgreiningar einstaklinga eru skráðar í samskiptaskrá heilsugæslustöðva sem haldið er utan um hjá embætti landlæknis. Þær fá ICD-10 kóða sem svo eru flokkaðir í ACG-flokka (e. Adjusted Clinical Groups). ACG-þyngd heilsugæslustöðvar ræðst af skráðum sjúkdómsgreiningum einstaklinga stöðvarinnar en meðaleinstaklingur fær þyngdina 1. Skráning sjúkdómsgreiningar hefur áhrif á greiðslur í 15 mánuði. ACG flokkunarkerfið og hugbúnaður til flokkunar var þróað af Johns Hopkins háskólanum í Baltimore í Bandaríkjunum og byggir á rannsóknum á sambandinu á milli sjúkómabyrði og notkunar á heilbrigðisþjónustu. Kerfið er víða notað til grundvallar útdeilingu fjármuna til heilsugæslu. Sjá nánari umfjöllun um þarfavísitölu í kafla 2.3 í lýsingu.

Þarfavísitala er reiknuð út frá þyngdarstuðli heilsugæslustöðvar og er hann byggður á meðaltali sjúkdómsbyrðar þeirra einstaklinga sem skráðir eru á stöðina. Þar sem þyngdarstuðullinn byggir á þeim sjúkdómsgreiningum sem skráðar eru fyrir hvern einstakling sem tilheyrir viðkomandi heilsugæslustöð  getur hann hækkað eða lækkað í samræmi við skráðar sjúkdómsgreiningar hvers tímabils. Því gefur þyngdarstuðull vísbendingu um breytingu á sjúkdómabyrði þeirra einstaklinga sem tilheyra hverri heilsugæslustöð. Áður en þyngdarstuðull heilsugæslustöðvar er notaður í fjármögnunarlíkaninu er hann jafnaður með þeim hætti að honum er deilt með meðaltalsstuðli einstaklinga á höfuðborgarsvæðinu og til verður þarfavísitala hverrar stöðvar.

Rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl milli lýðfræðilegra aðstæðna og notkunar heilbrigðisþjónustu. Reiknuð er félagsþarfavísitala fyrir hverja heilsugæslustöð, byggð á lýðfræðilegum einkennum einstaklinga sem skráðir eru á stöðina. Sjö lýðfræðilegar breytur eru notaðar.

Breyta

Vigt

Hlutfall eldri en 65 ára sem búa einir

6,15

Hlutfall barna undir fimm ára

3,23

Hlutfall nýrra íbúa á síðasta ári

4,19

Hlutfall örorkulífeyrisþega

6,15

Hlutfall atvinnulausra

5,13

Hlutfall einstæðra foreldra

4,19

Hlutfall einstaklinga sem fæddir eru erlendis

5,72

Fjöldi skráðra einstaklinga, sem fellur undir hverja lýðfræðilega breytu, er margfaldaður með vigt hennar. Margfeldi allra breytanna er lögð saman og deilt í útkomuna með fjölda skráðra einstaklinga til að fá félagsþarfavísitölu stöðvarinnar.

Stefnt er að því að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Markmiðið er að sú heilsugæslustöð sem einstaklingurinn er skráður á sé jafnan fyrsti viðkomustaður hans og sinni sem stærstum hluta af grunnheilbrigðisþjónustunni. 

Greidd er umbun fyrir ákveðið hlutfall koma á heilsugæslustöð af skilgreindri grunnheilbrigðis­þjónustu, þ.e. ákveðin krónutala fyrir hvert prósentustig umfram 50% upp að 90% hlutdeild. Skilgreind grunnheilbrigðisþjónusta eru komur í eftirtalin úrræði:

  • á heilsugæslustöðvar, til sjálfstætt starfandi heilsugæslulækna og á Læknavakt,
  • á bráðamóttöku
  • til barnalækna,
  • til geðlækna,
  • til hjartalækna.

Útreikningur á hlutdeild veittrar þjónustu heilsugæslustöðva er fundin með því að deila fjölda koma skráðra á eigin heilsugæslu með fjölda koma samtals á skilgreinda grunnheilbrigðisþjónustu.. Þær komur til sérgreinalækna sem eru með tilvísun frá heimilislækni eru ekki taldar með í lækkun á hlutdeild heilsugæslustöðva.

Fjöldi koma skráðra á heilsugæslustöð

Fjöldi koma á aðrar stöðvar á landsbyggðinni

Fjöldi koma á aðrar stöðvar á höfuðborgarsvæðinu

Fjöldi koma til sjálfstætt starfandi sérgreinalækna

Fjöldi koma á Læknavaktina í Reykjavík

 

Fjöldi koma skráðra samtals á skilgreinda grunnheilbrigðisþjónustu

Fjöldi koma annarra skjólstæðinga sýnir hversu mikið skráðir skjólstæðingar stöðvanna sækja þjónustu á aðrar stöðvar en þeir eru skráðir á.

Fyrsti flipinn sýnir fjölda koma annarra en skráðra á heilsugæslu og geta þær komur verið frá einstaklingum sem eru skráðir hvar sem er á landinu eða hjá sjálfstætt starfandi heimilislækni.

Annar og þriðji flipinn sýna fjölda koma skráðra á aðrar stöðvar á landinu. Annars vegar þegar þeir sækja þjónustu á aðrar heilsugæslustöðvar á landsbyggðinni og hins vegar þegar þeir sækja þjónustu á heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðið.

Fjórði og síðasti flipinn sýnir nettó fjölda koma annarra skjólstæðinga. Þegar heildarfjöldi koma annarra skjólstæðinga fyrir allar heilsugæslustöðvar á landsbyggðinni er talinn er hann jákvæður þar sem skjólstæðingar skráðir á heilsugæslu á landsbyggðinni eru í minna mæli að sækja þjónustu á heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðið en öfugt.

Yfirferð lyfjalista hjá 60 ára og eldri einu sinni á ári

Lögð er áhersla á umsjá með lyfjanotkun og að farið sé einu sinni á ári yfir lyfjalista einstaklinga 60 ára og eldri. Skoðað er hvort farið hafi verið yfir lyfjalista, lyfjaávísanir endurmetnar og listarnir prentaðir út og afhentir sjúklingi á staðnum. Yfirferð lyfjalista skal fara fram í viðtali við lækni á heilsugæslustöð viðkomandi sjúklings.

Til að byrja með voru taldir yfirfarnir lyfjalistar hjá 70 ára og eldri en í ársbyrjun 2020 var aldurinn lækkaður í 60 ára og eldri. Myndirnar sýna uppsafnaðan fjölda til 12 mánaða.

Ávísun sýklalyfja til kvenna sem almennt er ávísað vegna þvagfærasýkinga.

Talinn er fjöldi kvenna 18 ára og eldri með ávísanir á Kínolonar sem hlutfall allra ávísana á sýklalyf sem almennt er ávísað vegna þvagfærasýkinga meðal kvenna.

Viðmið: Undir 10% ávísana til kvenna. Notkun Ciprofloxacin verði minnkuð.

Greiðslur: 100% fjármögnun fyrir 10% hlutfall og lægra.

Hópar: Konur 18 ára og eldri.

Skráðar inflúensubólusetningar þeirra sem tilheyra ákveðnum áhættuhópum

Talinn er fjöldi einstaklinga 60 ára og eldri og einstaklingar með skráðar sjúkdómsgreiningar í tilteknum sjúkdómaflokkum sem fengið hafa inflúensubólusetningu, sem hlutfall af einstaklingum sem tilheyra ákveðnum viðmiðunarhóp.

Viðmið: Áhættuhópar bólusettir gegn inflúensu á a.m.k. 15 mánaða fresti.

Greiðslur: Vaxandi í tveimur þrepum; 50% fjármögnun fyrir 40-50% hlutfall skráninga og 100% fjármögnun fyrir yfir 50% hlutfall.

Hópar: 60 ára og eldri ásamt sjúklingum með astma, COPD, blóðþurrðarsjúkdóm í hjarta eða sykursýki.

Blóðþrýstingur skráður hjá einstaklingum í ákveðnum áhættuhópum

Talinn er fjöldi einstaklinga með skráðan blóðþrýsting og virkar ICD-10 greiningar í tilteknum sjúkdómaflokkum sem hlutfall af heildarfjölda einstaklinga sem tilheyra þessum hópum.

Viðmið: Blóðþrýstingur skráður á a.m.k. 15 mánaða fresti hjá einstaklingum í ákveðnum áhættuhópum.

Greiðslur:  Vaxandi í þremur stigum; 50% fjármögnun fyrir 40-60% skráningu, 75% fjármögnun fyrir 60-75% skráningu og 100% fjármögnun fyrir yfir 75% skráningu.

Hópar: Sjúklingar með COPD, háþrýsting, blóðþurrðarsjúkdóm í hjarta eða sykursýki.

Spirometriur framkvæmdar á heilsugæslustöð.

Talinn er fjöldi Spirometria sem framkvæmdar eru á heilsugæslustöð.

Viðmið: Spirometria framkvæmd á að minnsta kosti þriggja ára fresti.

Greiðslur: Fjármagni dreift hlutfallslega á milli stöðva eftir fjölda mælinga.

Hópar: Allir sem eru með undirliggjandi áhættuþætti. Til að mynda nú- eða fyrrverandi reykingafólk  (F17) og einstaklingar með COPD, astma og önnur einkenni sem benda til langvinns lungnasjúkdóms.

Bólusetningar barna.

Viðmið: Efla og viðhalda góðri bólusetningastöðu barna í heilsuvernd.

Greiðslur: Full greiðsla fyrir 95% hlutfall og yfir.

Nánari afmörkun: Reiknað er vegið meðaltal af 12 mánaða bólusetningu, 18 mánaða bólusetningu og 4 ára bólusetningu. 

Hópar:

12 mánaða: Fæðingárgangur sem verður 2 ára á árinu (árgangur 2019).

18 mánaða: Fæðingaárgangur sem verður 3 ára á árinu (árgangur 2018).

4 ára. Fæðingarárgangur sem verður 5 ára á árinu (árgangur 2016).

Greiðslur eru reiknaðar þannig að talinn er fjöldi tímabókana, lyfjaendurnýjana og samskipta í hverjum mánuði og dreifist fjármagnið hlutfallslega miðað við það.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum