Hoppa yfir valmynd

Heilbrigðismál

Landspítali í FossvogiÍ lögum um heilbrigðisþjónustu er kveðið á um grunnskipulag heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Markmið laganna er að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði í samræmi við þau lög, lög um almannatryggingar, lög um réttindi sjúklinga og önnur lög eftir því sem við á.

Lögin eiga að tryggja stefnumótunarhlutverk ráðherra sem og fullnægjandi valdheimildir hans á hverjum tíma til að framfylgja stefnu sinni um skipulag heilbrigðisþjónustu, forgangsröðun verkefna innan hennar, hagkvæmni, gæði og öryggi þjónustunnar og aðgengi að henni.

Heilbrigðisþjónusta skal veitt á viðeigandi þjónustustigi og heilsugæslan skal að jafnaði vera fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Landinu er skipt upp í heilbrigðisumdæmi samkvæmt reglugerð um heilbrigðisumdæmi. Í hverju heilbrigðisumdæmi er starfrækt heilbrigðisstofnun eða heilbrigðisstofnanir sem veita almenna heilbrigðisþjónustu í umdæminu. Þrátt fyrir skiptingu landsins í heilbrigðisumdæmi skulu sjúklingar jafnan eiga rétt á að leita til þeirrar heilsugæslustöðvar eða heilbrigðisstofnunar sem þeir eiga auðveldast með að ná til hverju sinni.

Heilbrigðisstofnanir sem veita almenna heilbrigðisþjónustu í hverju umdæmi eiga samkvæmt lögunum að hafa með sér samstarf um skipulag heilbrigðisþjónustu á viðkomandi svæði og skal í hverju heilbrigðisumdæmi starfrækt ein heilbrigðisstofnun eða fleiri.

Samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu er embætti landlæknis starfrækt með það að markmiði að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og stuðla að heilbrigði landsmanna. Landlæknir skal hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu í landinu, vinna að gæðaþróun innan heilbrigðisþjónustu, safna og vinna upplýsingar um heilsufar og heilbrigðisþjónustu og sinna kvörtunum almennings vegna heilbrigðisþjónustunnar. 

Í gildi er heilbrigðisstefna til ársins 2030 sem samþykkt var sem þingsályktun frá Alþingi í júní árið 2019.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 22.2.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum