Hoppa yfir valmynd

Heilsugæslustöðvar

Í lögum um heilbrigðisþjónustu er áhersla lögð á að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og eftirlit með henni. Einnig er lögð áhersla á að almenn heilbrigðisþjónusta sé veitt í heimabyggð og að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Samkvæmt lögunum er landinu skipt upp í heilbrigðisumdæmi sem nánar er kveðið á um í reglugerð en sjúklingar skulu þó „jafnan eiga rétt á að leita til þeirrar heilsugæslustöðvar eða heilbrigðisstofnunar sem þeir eiga auðveldast með að ná til hverju sinni“.

Í reglugerð um heilbrigðisumdæmi er jafnframt kveðið á um hlutverk, starfsemi og þjónustu heilsugæslustöðva og þá þjónustu sem þeim ber að veita. Á heilsugæslustöðvum skal veitt almenn læknisþjónusta, hjúkrunarþjónusta, mæðravernd og ungbarnavernd. Heilsugæslustöðvar skulu einnig annast heilsugæslu í grunnskólum og forvarnir í heilsuvernd s.s. heilsuvernd aldraðra og unglinga, slysavarnir, tóbaksvarnir o.fl.

Í kröfulýsingu um heilsugæsluþjónustu er nánar kveðið á um þá þjónustu sem veitt skal á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu.

Markmið með rekstri heilsugæslustöðva er að tryggja öllum landsmönnum fullnægjandi heilsugæslu í heimabyggð. Í reglugerð er mælt fyrir um rétt hvers einstaklings til að fá skráningu á heilsugæslustöð. Enn fremur er kveðið á um að hver einstaklingur skuli að jafnaði skráður sem skjólstæðingur tiltekins heilsugæslulæknis á heilsugæslustöð og að heilbrigðisstofnun sem viðkomandi heilsugæslustöð tilheyrir skuli leitast við að tryggja það.

Árið 2017 var tekið í notkun fjármögnunarlíkan sem reiknar fjármagn til heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu á staðlaðan og samræmdan hátt. Í því eru gerðar skýrar og samræmdar kröfur til þjónustuveitenda og þannig leitast við að gæta jafnræðis milli rekstraraðila og gagnvart notendum. Notaðar eru fyrirfram skilgreindar stýribreytur sem hafa á einn eða annan hátt áhrif á framleiðni og eftirspurn í heilsugæslunni. Tilgangur kerfisins er að gæta jafnræðis við úthlutun fjármagns og auka gæði og skilvirkni með það að markmiði að grunnheilbrigðisþjónusta sé í meira mæli veitt á heilsugæslustöðvum. Sambærilegt fjármögnunarlíkan fyrir heilsugæslu á landsbyggðinni var tekið í notkun árið 2021.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 18.10.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum