Sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir

Í lögum um heilbrigðisþjónustu er kveðið á um grunnskipulag heilbrigðisþjónustu á Íslandi og skiptingu landsins heilbrigðisumdæmi sem nánar er kveðið á um í reglugerð.
Í lögum um heilbrigðisþjónustu er áhersla lögð á að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og eftirlit með henni. Einnig er lögð áhersla á að almenn heilbrigðisþjónusta sé veitt í heimabyggð og að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Þrátt fyrir skiptingu landsins í heilbrigðisumdæmi skulu sjúklingar „jafnan eiga rétt á að leita til þeirrar heilsugæslustöðvar eða heilbrigðisstofnunar sem þeir eiga auðveldast með að ná til hverju sinni“.
Í hverju heilbrigðisumdæmi er starfrækt heilbrigðisstofnun eða heilbrigðisstofnanir sem veita almenna heilbrigðisþjónustu í hverju umdæmi. Þær skulu eiga með sér samstarf um skipulag heilbrigðisþjónustu á viðkomandi svæði.
Á sjúkrasviðum heilbrigðisstofnana skal veita almenna sjúkrahúsþjónustu, meðal annars á göngu- og dagdeildum eftir því sem við á. Í tengslum við þau skulu vera hjúkrunarrými og fæðingarhjálp að uppfylltum faglegum kröfum og önnur heilbrigðisþjónusta sem heilbrigðisstofnuninni er falið að veita eða samið hefur verið um.
Sérhæfð heilbrigðisþjónusta er veitt á Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri og öðrum heilbrigðisstofnunum samkvæmt samningum eða ákvörðun heilbrigðisráðherra.
Landspítali er aðalsjúkrahús landsins og háskólasjúkrahús. Hann veitir sérhæfða sjúkrahúsþjónustu, m.a. á göngu- og dagdeildum, fyrir alla landsmenn og almenna sjúkrahúsþjónustu fyrir íbúa heilbrigðisumdæmis höfuðborgarsvæðisins.
Sjúkrahúsið á Akureyri er kennslusjúkrahús og sérhæft sjúkrahús. Það veitir sérhæfða sjúkrahúsþjónustu, m.a. á göngu- og dagdeildum, og almenna sjúkrahúsþjónustu fyrir íbúa í sínu heilbrigðisumdæmi.
Sjá einnig:
Lög og reglugerðir
Heilbrigðisstofnanir
Heilbrigðisstefna
Heilbrigðismál
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.