Öldrunarmál
Ráðherra félagsmála fer með yfirstjórn öldrunarmála samkvæmt lögum um málefni aldraðra. Í því felst stefnumótun og áætlanagerð um málefni aldraðra fyrir landið í heild. og eftirlit með framkvæmd laga um málefni aldraðra og reglugerðum settum á grundvelli þeirra laga. Ákvæði laga um málefni aldraðra sem varða hjúkrunarheimili, dagdvöl aldraðra og Framkvæmdasjóð aldraðra eru á ábyrgð heilbrigðisráðherra.
Markmið laga um málefni aldraðra er að tryggja að aldraðir eigi völ á þeirri heilbrigðis- og félagsþjónustu sem þeir þurfa á að halda og að hún sé veitt á því þjónustustigi sem er eðlilegast miðað við þarfir hvers og eins. Einnig er markmið laganna að aldraðir geti eins lengi og unnt er búið við eðlilegt heimilislíf en sé jafnframt tryggð stofnanaþjónusta þegar hennar er þörf. Við framkvæmd laganna skal þess gætt að aldraðir njóti jafnréttis á við aðra þjóðfélagsþegna og að sjálfsákvörðunarréttur þeirra sé virtur.
Samstarfsnefnd um málefni aldraðra
Ráðherra skipar fimm manna samstarfsnefnd um málefni aldraðra. Hlutverk hennar er að vera ráðherra og ríkisstjórn til ráðgjafar um málefni aldraðra og vera tengiliður milli ráðuneyta, stofnana og samtaka sem starfa að málefnum aldraðra.
Framkvæmdasjóður aldraðra
Framkvæmdasjóður aldraðra fær tekjur af sérstöku gjaldi sem skattstjórar leggja á alla sem eru skattskyldir, að undanskildum börnum yngri en 16 ára, þeim sem eru 70 ára og eldri og þeim sem hafa tekjur undir ákveðnum tekjumörkum sem skilgreind eru í lögum um málefni aldraðra. Fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra skal varið til uppbyggingar þjónustumiðstöðva, dagdvala og stofnana fyrir aldraða og til breytinga og endurbóta á slíku húsnæði. Sjóðurinn fjármagnar viðhald á húsnæði dagdvala, dvalar- og hjúkrunarheimila og fé úr honum er einnig varið til ýmissa annarra verkefna sem stuðla að uppbyggingu öldrunarþjónustu.
Færni- og heilsumatsnefndir
Í hverju heilbrigðisumdæmi starfar færni- og heilsumatsnefnd sem leggur mat á þörf fólks fyrir búsetu í dvalar- og hjúkrunarrými eða tímabundna hvíldarinnlögn. Hver nefnd skal skipuð lækni með sérmenntun í öldrunar- eða heimilislækningum eða langvinnum sjúkdómum, hjúkrunarfræðingi með þekkingu á öldrunarþjónustu eða hjúkrun langveikra og félagsráðgjafa, sálfræðingi eða öldrunarfræðingi með þekkingu á félagsþjónustu við aldraða eða langveikt fólk.
Færni- og heilsumatsnefndir skulu í störfum sínum hafa að leiðarljósi það markmið að fólki skuli gert kleift að búa á eigin heimili utan stofnana eins lengi og unnt er með viðeigandi heilbrigðis- og félagsþjónustu og öðrum raunhæfum úrræðum.
Embætti landlæknis hefur yfirumsjón með framkvæmd færni- og heilsumats og má sjá nánari upplýsingar um matið, aðsetur nefnda og umsóknareyðublöð á vef embættisins.
Öldrunarþjónusta
Helstu þættir þjónustu við aldraða eru heimaþjónusta og þjónusta í þjónustumiðstöðvum aldraðra á vegum sveitarfélaga, heimahjúkrun á vegum heilsugæslustöðva, dagdvala, endurhæfingar- og hvíldarinnlagnir eða búseta í dvalarrými eða hjúkrunarrými á stofnunum aldraðra.
Öldrunarmál
Sjá einnig:
Lög
Reglugerðir
Af vef TR
Stofnanir
Áhugavert
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.