Hoppa yfir valmynd

Öldrunarstofnanir

Í lögum um málefni aldraðra eru stofnanir fyrir aldraða skilgreindar, aðstöðu lýst og grein gerð fyrir þjónustunni sem þar skal veitt. Annars vegar er um að ræða dvalarrými, þ.e. dvalarheimili, sambýli og íbúðir, sérhannað fyrir þarfir aldraðra sem ekki eru færir um að annast heimilishald þrátt fyrir heimaþjónustu. Hins vegar er um að ræða hjúkrunarrými, þ.e. hjúkrunarheimili eða hjúkrunarrými á öldrunarstofnunum fyrir aldraða einstaklinga sem eru of lasburða til að dveljast á dvalarheimilum, sambýlum eða í sérhönnuðum íbúðum. 

Dvalarheimili

Dvalarrými eru í húsnæði sem er sérhannað fyrir þarfir aldraðra sem ekki eru færir um að annast heimilishald þrátt fyrir heimaþjónustu. Skilgreint er í lögum um málefni aldraðra og reglugerð um stofnanaþjónustu aldraðra hvaða þjónusta skuli vera fyrir hendi í dvalarrýmum, en þar á meðal annars að vera varsla allan sólarhringinn, öryggiskerfi í hverri íbúð og völ á fjölbreyttri þjónustu, svo sem mat, þvotti, þrifum og félags- og tómstundastarfi.

Hjúkrunarheimili

Hjúkrunarrými eru á hjúkrunarheimilum og heilbrigðisstofnunum, ætluð öldruðu fólki sem er of lasburða til að geta búið heima með þeim stuðningi sem er í boði, svo sem heimaþjónustu, heimahjúkrun, dagdvöl, hvíldarinnlögn eða búsetu í dvalarrými. Í hjúkrunarrými skal veitt hjúkrunar- og læknisþjónusta auk endurhæfingar og annarrar þjónustu sem skilgreind er í lögum um málefni aldraðra og reglugerð um stofnanaþjónustu aldraðra.

Hvíldar-/endurhæfingarinnlögn

Víða á hjúkrunarheimilum og heilbrigðisstofnunum er boðið upp á hvíldar- eða endurhæfingarinnlagnir fyrir aldraða. Slík innlögn getur hentað öldruðum sem hafa lagst inn á spítala og þurfa tímabundna umönnun og endurhæfingu áður en þeir geta farið heim. Eins er þessu úrræði ætlað að styðja við sjálfstæða búsetu aldraðra þegar tímabundin hvíld og endurhæfing getur haft jákvæð áhrif á getu hins aldraða til að búa heima, samhliða því að vera stuðningur við aðstandendur sem oft gegna mikilvægu hlutverki í stuðningsneti aldraðra. Í hverju heilbrigðisumdæmi starfar sérstök færni- og heilsufarsnefnd sem metur þörf fólks fyrir tímabundna hvíldarinnlögn. Nánari upplýsingar um færni- og heilsumatsnefndir eru á vef Embættis landlæknis.

Færni- og heilsumat fyrir búsetu í dvalar- eða hjúkrunarrými

Færni- og heilsumat er faglegt, einstaklingsbundið mat á þörfum einstaklinga fyrir varanlega búsetu á hjúkrunar- og dvalarheimilum. Í hverju heilbrigðisumdæmi starfar færni- og heilsumatsnefnd sem metur þörf fólks fyrir þessi úrræði. Embætti landlæknis hefur yfirumsjón með framkvæmd færni- og heilsumats fyrir hjúkrunar- og dvalarrými. Allar upplýsingar um framkvæmd matsins, eyðublöð til að sækja um slíkt mat og upplýsingar um aðsetur færni- og heilsumatsnefnda í hverju heilbrigðisumdæmi eru á vef Embættis landlæknis.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 27.12.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum