Hoppa yfir valmynd

Lýðheilsa og forvarnir

Með lýðheilsu er átt við aðgerðir hins opinbera og annarra sem miða að því að viðhalda og bæta heilbrigði, líðan og aðstæður einstaklinga, þjóðfélagshópa og þjóðarinnar í heild með heilsueflingu, forvörnum og heilbrigðisþjónustu. Markmiðið er að efla og bæta lýðheilsu.

Mikilvægt er að skapa fólki aðstæður í samfélaginu sem auðvelda því að stunda heilbrigða lífshætti og efla vitund fólks og vitneskju um mikilvægi þess. Heilsuefling krefst samræmdra, þverfaglegra aðgerða á samfélagslegum grunni og nær til þátta utan hefðbundinnar heilbrigðisþjónustu.

Forvarnir eru aðgerðir sem beinast að samfélaginu öllu, hópum eða einstaklingum. Þær miða að því að efla heilbrigði, fyrirbyggja sjúkdóma og beita viðeigandi aðgerðum til að greina frávik svo beita megi snemmtækri íhlutun og hindra sjúkdómsþróun og fylgikvilla sjúkdóma sem þegar eru til staðar. Ráðuneytið fer með stefnumótun og reglusetningu á sviði lýðheilsu og forvarna og tekur þátt í samstarfi á því sviði innan lands og utan. 

Embætti landlæknis annast meðal annars verkefni á sviði forvarna og heilsueflingar í þágu lýðheilsu, samanber lög um landlækni og lýðheilsu og veitir ráðherra og öðrum stjórnvöldum, fagfólki og almenningi ráðgjöf og fræðslu um málefni á þessu sviði.

Embætti landlæknis ber ábyrgð á sóttvörnum undir yfirstjórn ráðherra og þar starfar sóttvarnalæknir samkvæmt sóttvarnalögum. Sóttvarnarráð er skipað af ráðherra og mótar stefnu í sóttvörnum og skal vera heilbrigðisyfirvöldum til ráðgjafar um aðgerðir til varnar útbreiðslu smitsjúkdóma.

Geislavarnir ríkisins er stofnun undir yfirstjórn ráðherra sem hefur það hlutverk að annast öryggisráðstafanir gegn geislun frá geislavirkum efnum og geislatækjum, samanber lög um geislavarnir.

Áfengis- og vímuvarnir

Heilbrigðisráðuneytið annast stefnumótun í áfengis- og vímuvörnum. Embætti  landlæknis annast meðal annars verkefni á sviði áfengis- og vímuvarna í þágu lýðheilsu, samanber lög um landlækni og lýðheilsu og veitir  ráðherra  og öðrum stjórnvöldum, fagfólki og almenningi  fræðslu  um  málefni á þessu sviði.

Starfsemi Embættis landlæknis á sviði áfengis- og vímuvarna skiptist í öflun og miðlun upplýsinga, heilsueflingarverkefni og rannsóknir auk styrkveitinga úr Lýðheilsusjóði.

Embætti landlæknis er miðstöð vímuvarna í landinu og veitir sem slík faglega ráðgjöf um stefnumótun, rannsóknir og önnur málefni er varða áfengis- og vímuvarnir. Einnig stuðlar embættið að samvinnu og samræmingu starfa á meðal þeirra sem vinna að vímuvörnum. Á vegum embættisins er unnið fræðsluefni um áfengi og önnur vímuefni fyrir fagfólk og almenning.

Bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum

Misnotkun vissra frammistöðubætandi efna og lyfja getur haft neikvæð áhrif á heilsu neytandans. Meðal þekktra áhrifa eru til dæmis sina- og vöðvaskaði, aukin hætta á hjarta- og æðasjúkdómum, aukin tíðni krabbameina og lifrarskaði. Það er einnig þekkt að fylgikvillar slíkrar misnotkunar hafa leitt fólk til dauða. Með sérstakri löggjöf um bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum er unnið að því markmiði að koma í veg fyrir að tiltekin efni og lyf séu notuð til að bæta líkamlega frammistöðu, fyrirbyggja heilsutjón vegna notkunar þeirra og koma í veg fyrir ólögmæta markaðssetningu þeirra.

Geislavarnir

Lögum um geislavarnir er ætlað að tryggja nauðsynlegar öryggisráðstafanir gegn geislun frá geislavirkum efnum og geislatækjum í því skyni að takmarka skaðleg áhrif hennar. Markmiði laganna skal náð með markvissum aðgerðum, m.a. eftirliti með allri meðferð geislavirkra efna og geislatækja, athugunum og rannsóknum, vöktun á geislavirkum efnum í umhverfi, viðbúnaði við geislavá og fræðslu og leiðbeiningum um geislavarnir.

Geislavarnir ríkisins hafa það hlutverk að annast öryggisráðstafanir gegn geislun frá geislavirkum efnum og geislatækjum. Jafnframt snýr hlutverk stofnunarinnar að leyfisveitingum vegna geislavirkra efna, mati á áhættu við notkun geislunar og eftirliti með geislatækjum og geislavirkum efnum.

Heilsuefling

Stefnumótun á sviði heilsueflingar fellur undir verkefni  ráðuneytis heilbrigðismála. Embætti landlæknis annast meðal annars verkefni á sviði forvarna og heilsueflingar í þágu lýðheilsu, samanber lög um landlækni og lýðheilsu og veitir ráðherra og öðrum stjórnvöldum, fagfólki og almenningi fræðslu um málefni á þessu sviði.

Heilsuefling miðar að því að hafa áhrif á lifnaðarhætti fólks og gera því kleift að lifa heilsusamlegu lífi við heilnæmar aðstæðurMeð heilsueflingu er leitast við að efla heilbrigði með því að skapa fólki félagslegar, menningarlegar og efnahagslegar aðstæður og umhverfi sem gera einstaklingum og samfélaginu kleift að auka hreysti og efla vitund og vilja til að viðhalda heilbrigði. 

Niktótínvörur, rafrettur og áfyllingar

Sérstök lög gilda um nikótínvörur, rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur þar sem fjallað er um innflutning, markaðssetningu, notkun og öryggi þessa varnings og ráðstafanir til að sporna við notkun  barna og ungmenna á þessum vörum. Neytendastofa fer með markaðseftirlit með rafrettum og áfyllingum fyrir þær.

Slysavarnir

Ráðuneyti heilbrigðismála fer með framkvæmd laga og reglugerða sem tengjast slysavörnum ásamt stefnumótun. Í því skyni er Embætti landlæknis meðal annars falið að gegna hlutverki miðstöðvar ofbeldis- og slysaforvarna á Íslandi og að vera faglegur ráðgjafi stjórnvalda á því sviði. Embættið stuðlar að samvinnu meðal þeirra sem vinna að ofbeldis- og slysaforvörnum. Á vegum embættisins er jafnframt unnið að fræðsluefni um ofbeldis- og slysaforvarnir fyrir fagfólk og almenning til notkunar í skólum, á heilsugæslustöðvum, í íþróttamiðstöðvum og víðar. Meginmarkmiðið með starfinu er að draga úr tíðni slysa og ofbeldis hér á landi.

Vinnueftirlitið er miðstöð vinnuverndarstarfs í landinu og byggir starf sitt á samþættingu eftirlits, fræðslu og rannsókna. Samkvæmt lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum ber atvinnurekandi ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað sem byggir á áhættumati. Markmiðið er að stuðla að öryggi og heilbrigði starfsfólks og koma í veg fyrir heilsutjón vegna vinnunnar eða vinnuumhverfisins. Jafnframt kemur fram í lögunum að tilgangur þeirra sé að tryggja skilyrði fyrir því, að innan vinnustaðanna sjálfra sé hægt að leysa öryggis- og heilbrigðisvandamál, í samræmi við gildandi lög og reglur, í samræmi við ráðleggingar aðila vinnumarkaðarins og í samræmi við ráðleggingar og fyrirmæli Vinnueftirlits ríkisins.

Sóttvarnir

Samkvæmt sóttvarnalögum ber Embætti landlæknis ábyrgð á framkvæmd sóttvarna undir yfirstjórn ráðherra heilbrigðismála. Við Embætti landlæknis skal starfa sóttvarnalæknir sem ber ábyrgð á sóttvörnum. Sóttvarnalæknir skal hafa þekkingu á smitsjúkdómum og faraldsfræði þeirra. Jafnframt skal hann hafa samvinnu við yfirlækna heilsugæslu, aðra starfsmenn og stofnanir heilbrigðisþjónustunnar sem og heilbrigðisnefndir og Matvælastofnun eftir því sem við á.

Tannvernd

Embætti landlæknis hefur umsjón með ýmsum forvarna- og heilsueflingarverkefnum fyrir alla aldurshópa. Markmið starfsins er að stuðla að betri tannheilsu landsmanna með ráðgjöf, leiðbeiningum og útgáfu fræðsluefnis.

Tóbaksvarnir

Íslendingar hafa um árabil staðið framarlega í tóbaksvörnum og um þær gilda sérstök lög. Markmið tóbaksvarnalaga er að draga úr heilsutjóni og dauðsföllum af völdum tóbaks með því að minnka tóbaksneyslu og vernda fólk fyrir áhrifum tóbaksreyks. Heilbrigðisráðuneytið hefur tóbaksvarnir á sínu málefnasviði en fjármála- og efnahagsráðuneyti sinnir verkefnum á sviði verslunar með tóbak.

Embætti landlæknis hefur umsjón með málaflokknum í umboði ráðuneytisins. Starfsemi Embættis landlæknis á sviði tóbaksvarna lýtur að forvörnum og heilsueflingu og felur meðal annars í sér gerð fræðsluefnis, ráðgjöf, rannsóknir og stefnumótun. Megináherslur í starfinu eru að koma í veg fyrir að ungt fólk hefji neyslu tóbaks og að veita aukna aðstoð þeim sem vilja hætta að nota það.

Ísland fullgilti rammasamning Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um tóbaksvarnir árið 2005 og taka ráðuneytið og Embætti landlæknis þátt í alþjóðasamstarfi þar um.

Í gegnum EES-samninginn hefur löggjöf Evrópusambandsins á sviði tóbaksvarna verið innleidd hér á landi og taka ráðuneytið og Embætti landlæknis þátt í samstarfi á þeim vettvangi.

Efni og efnavörur

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið annast stefnumótun í efnamálum, með það að markmiði að tryggja að meðferð á efnum valdi ekki tjóni á heilsu manna. Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefndir (heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga) hafa m.a. það hlutverk að upplýsa almenning um hættu tengda notkun á efnum þegar þörf er á til verndar heilsu eða umhverfi. Eitrunarmiðstöð Landspítala er opin allan sólarhringinn og hefur það hlutverk að veita upplýsingar um eiturefni og ráðgjöf um viðbrögð við meðferð þegar eitranir verða.

Hollustuhættir

Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefndir fara einnig með hollustuhætti með það að markmiði að tryggja öruggt nærumhverfi og forvarnir, með áherslu á að vernda og viðhalda lýðheilsu og heilnæmum lífsgæðum viðkvæmra hópa og almennings. Umhverfisstofnun hefur m.a. gefið út leiðbeiningar fyrir almenning – Inniloft, raki og mygla í híbýlum.

 

Síðast uppfært: 26.10.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum