Hoppa yfir valmynd

Flug og flugvellir

Innanlandsflug og millilandaflug eru mikilvægar atvinnugreinar sem tryggja flugsamgöngur um landið og við umheiminn.

Í samgönguáætlun koma fram markmið stjórnvalda um öruggar, greiðar, hagkvæmar og umhverfisvænar samgöngur. Stuðlað er að því að flugrekendur sjái hag sinn í því að stunda starfsemi sína bæði á Íslandi og út um heim. Einnig að innleiddar séu hér á landi bestu aðferðir til að stunda flugrekstur með hagkvæmum og öruggum hætti.

Samgöngustofa fer með daglega stjórnsýslu á sviði flugmála. Íslenskir flugrekendur og áhafnir starfa um allan heim á grundvelli skírteina sem Samgöngustofa gefur út. Hefur hún eftirlit með því að kröfur um öryggi séu uppfylltar. Jafnframt ber Samgöngustofa ábyrgð á að úrskurða í málefnum er varða réttindi flugfarþega og fleira.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa annast rannsóknir á slysum og atvikum í flugi. Nefndin gegnir mikilvægu hlutverki þegar kemur að því að meta hvort og hvernig draga má lærdóm af alvarlegum atvikum eða slysum og stuðlar að auknu öryggi í samgöngum með því að setja fram tillögur í öryggisátt.

Alþjóðlegt samstarf

Íslensk stjórnvöld taka þátt í margvíslegu alþjóðlegu samstarfi á sviði flugmála. Ísland er meðal stofnþjóða Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, tekur virkan þátt í verkefnum þar og innleiðir viðauka við Chicago-samninginn í íslenskan rétt. Jafnframt eru innleiddar hér á landi margvíslegar skuldbindingar sem leiða af EES-samningnum sem snertir flest svið flugmála og veitir m.a. íslenskum flugrekendum rétt til að starfa á Evrópska efnahagssvæðinu og tryggir samræmda neytendavernd, óháð flugrekanda.

Íslensk stjórnvöld hafa tryggt íslenskum flugrekendum gagnkvæm réttindi til reglubundins áætlunarflugs til yfir hundrað ríkja víðsvegar um heiminn. Með loftferðasamningum er stuðlað að því að íslenskir flugrekendur geti fært út kvíarnar og fjölgað áfangastöðum í beinu flugi, útvíkkað flugrekstur á erlendri grund og bætt samkeppnisstöðu sína.

Ráðherra er heimilt samkvæmt lögum um loftferðir að setja skipulagsreglur fyrir flugvelli sem ætlaðir eru til almennrar notkunar. Segir meðal annars  í lögunum að skipulagsreglur skuli hafa að geyma fyrirmæli um skipulag innan flugvallarsvæðis, starfsheimildir, starfsemi og umferð innan svæðisins.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 12.12.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum