Hoppa yfir valmynd

Netöryggi

Stefna ríkisins um net- og upplýsingaöryggi birtist í netöryggisstefnu Íslands 2021-2036 (útg. nóvember 2021). Netöryggisráð, skipað fulltrúum opinberra aðila, hefur umsjón með innleiðingu hennar og er vettvangur miðlunar upplýsinga og samhæfingar aðgerða á sviði net- og upplýsingaöryggis. 

Alþingi samþykkti á vorþingi 2019 lög um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða og tóku þau gildi 1. september 2020.

 

Netglæpir eru glæpir eða afbrot samkvæmt hegningarlögum eða sérrefsilögum sem framin eru með tilstuðlan netsins. Netglæpir eru í örum vexti og æ meiri áhersla er lögð á það á alþjóða vísu að bregðast við slíkri brotastarfsemi, enda eru þeir ekki vandamál eins lands vegna alþjóðlegs eðlis netsins. Alþjóðlegt samstarf um aðgerðir gegn netglæpum fer fram á grunni samnings Evrópuráðsins um tölvubrot og á vettvangi Evrópulögreglunnar EUROPOL.

Með gildistöku nýrrar netöryggisstefnu Evrópusambandsins, 27. júní 2019, var Evrópsku netöryggisstofnuninni ENISA gefið nýtt og aukið hlutverk. Jafnframt var ensku heiti stofnunarinnar breytt úr European Union Agency for Network and Information Security í European Union Agency for Cybersecurity. Ísland á fulltrúa í stjórn og tenglahópi ENISA.

Eitt meginverkefna stofnunarinnar verður uppbygging vottun samræmds vottunarkerfis fyrir Hlutanetið, IoT, sem er ein meginstoð fjórðu iðnbyltingarinnar.

ENISA hefur gefið út margar skýrslur um netöryggi, t.d. mat netöryggisógna og hvar sé helst þörf á aukinni áherslu í rannsóknum og þróun:

CERT-ÍS er netöryggissveit á vegum Póst- og fjarskiptastofnunar. Hún starfar samkvæmt 47 gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003 og reglugerð nr. 475/2013.  Sveitin hóf formlega starfsemi árið 2013.

Með lögum um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða, nr. 78/2019 sem samþykkt voru á Alþingi í júní 2019 og tóku gildi 1. september 2020 er netöryggissveitinni ætlað víðtækt hlutverk, annars vegar að vera miðlægur samhæfingaraðili innanlands og hins vegar formlegur tengiliður Íslands í evrópsku netöryggissamstarfi. 

lög um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða, nr. 78/2019, voru samþykkt af Alþingi í júní 2019 og tóku gildi 1. september 2020. Þau taka m.a. mið af svokallaðari NIS-tilskipun Evrópusambandsins um sameiginlegar kröfur til öryggis net- og upplýsingakerfa innan sambandsins. Tilskipuninni er ætlað að auka hæfni aðilarríkja til að bæta netöryggi og bregðast við aðstæðum þar sem netöryggi er raskað. Henni er einnig ætlað að stuðla að meiri samhæfingu á milli aðildarríkja og eru þar gerðar kröfur um miðlun netöryggisupplýsinga, bæði innan lands og milli bandalagsríkja. Áhersla er einkum á rekstraraðila mikilvægra innviða samfélagsins og í tilskipuninni er tilgreint hvers konar starfsemi beri að vera í þeim flokki.

 

 

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur í samvinnu við þjónustuaðila og sérstaka úttektaraðila gengist fyrir mismunandi úttektum á netöryggi kerfa hjá ýmsum opinberum aðilum, bæði á þjónustu sem hefur verið í rekstri og á þjónustu sem hefur átt að taka í gagnið. Úttektir hafa verið með ýmsum hætti, fyrirspurnum, skimunum og ítarlegri könnunum. Almenn niðurstaða allra þessara kannana er að full þörf er á því að gera úttektir og helst fá þá annan aðila til verksins en þann sem sá um hönnun eða sér um rekstur viðkomandi kerfis. Þannig eru meiri líkur á að óvæntar veilur uppgötvist eða keðjuverkunarveilur, þar sem veila hjá þjónustuaðila eða viðskiptavini getur haft alvarleg áhrif.

Öryggisúttektir á opinberum vefjum hafa verið gerðar á undanförnum árum, fyrst árið 2015. Sú úttekt náði til 265 vefja ríkis og sveitarfélaga og var henni fylgt eftir m.a. með því að bjóða þeim stofnunum, sem fengu lakasta niðurstöðu, beina aðstoð við að bæta öryggi vefjanna. Allar ríkisstofnanir og sveitarfélög fengu í hendur stutta skýrslu um öryggi sinna vefja og ábendingar um hvað þyrfti að bæta. Öryggisúttekt var gerð aftur á árinu 2017 og var fylgt eftir haustið 2018 hjá tæplega 40 stofnunum þar sem úrbóta var þörf samkvæmt fyrri úttekt. Hjá rúmlega helmingi var þörf úrbóta (þeirra sömu eða nýrra). Fundir voru haldnir með hverri stofnun til að (a) leiðbeina um úrbætur og til að (b) kanna hvort einhverjir kerfislægir þættir standi í vegi fyrir úrbótum.

Á vegum Netöryggisráðs hefur verið útbúið umræðuskjal varðandi upplýsingaöryggi sem opinberir aðilar gætu haft hliðsjón af/notað við samningagerð. Einnig hafa verið mótaðar leiðbeiningar um gerð áhættumats og öryggisráðstafanir ásamt viðeigandi eyðublöðum, sjá nánar hér.

Ýmis alþjóðleg fyrirtæki skima netið, greina veikleika, flokka þá og meta. Slíkt mat getur verið fyrir ríki í heild, einstakar greinar, fyrirtæki og jafnvel einstaka tölvur. Aðgangur að slíku greiningarmati fyrir Ísland hefur verið keyptur á grunni samnings Netöryggissveitar og stjórnvalda. Netöryggissveitin fær jafnframt mikilvægar greiningarupplýsingar frá erlendum og innlendum samstarfsaðilum. Ástandsmat Netöryggissveitarinnar nýtist stjórnvöldum við mat á tæknilegu öryggisstigi og sveitinni við að veita aðstoð til að vinna bug á þeim veikleikum sem finnast.

 

Ný tilkynningagátt um öryggisatvik oryggisatvik.island.is var opnuð 14. maí 2020 en gáttin auðveldar stofnunum og fyrirtækjum að tilkynna um öryggisatvik sem upp kunna að koma í rekstri þeirra. Öryggisatvikin geta verið netatvik tengd netárásum eða netglæpum, en geta einnig orðið með öðrum hætti hvað varðar vernd persónuupplýsinga.

Í tilkynningagáttinni er á einum stað og með samræmdum hætti hægt að tilkynna um öll öryggisatvik og öryggisbresti. Það er mikils hagræðis fyrir fyrirtæki og stofnanir, sem t.d. kunna að þurfa að tilkynna að stór netinnrás sé hafin, að þurfa ekki að margskrá sömu upplýsingar í mismunandi kerfi.

Tilkynningagáttinni er ætlað að bæta þjónustu við þá aðila sem er skylt að tilkynna öryggisatvik samkvæmt lögum hvort sem þau heyra undir Persónuvernd eða netöryggissveitina CERT-IS sem Póst- og fjarskiptastofnun rekur. Einnig er hægt að tilkynna atvikin til Lögreglunnar. 

Gáttin er samvinnuverkefni Persónuverndar, Póst- og fjarskiptastofnunar/CERT-IS og Lögreglunnar undir forystu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Tilkynningagáttin var smíðuð af fyrirtækinu Advania með stuðningi ráðuneytisins en hún er rekin sameiginlega af Póst- og fjarskiptastofnun og Persónuvernd. Öryggisúttekt fór fram á gáttinni áður en hún var tekin í notkun – og var hún einnig prófuð af hópi hagsmunaaðila.

Gáttin er vistuð á Ísland.is – oryggisbrestur.island.is – og nota þarf rafræn skilríki til að skrá sig inn.

Oxford-háskóli var fenginn í júní 2017 til að gera úttekt á stöðu netöryggis í íslensku samfélagi og skilaði ítarlegri úttekt. Þar er að finna ráðleggingar til úrbóta sem ráðuneyti og stofnanir hafa þegar tekið til skoðunar og ákvörðunar varðandi skipulag næstu skrefa. Mikilvægt er að þeim sé fylgt vel eftir því flestir innviðir nútímasamfélags byggja beint eða óbeint á fjarskipta- og upplýsingatækni.

Norski tækniháskólinn, NTNU

Mikil eftirspurn er fyrirsjáanleg eftir sérfræðingum með menntun í netöryggisfræðum á komandi árum. Komið hefur verið á tengslum við norska tækniháskólann NTNU, en háskólinn býður upp á framhaldsnám í netöryggisfræðum sem hentar vel sem framhald fyrir þá sem hafa lokið BS-prófi í tölvunarfræði eða skyldum greinum. Vorið 2018 kom hópur frá NTNU til landsins í samvinnu við ráðuneytið og kynnti rannsóknir og nám við skólann og frekara samstarf er fyrirhugað.

Sjá nánari upplýsingar um námið og frest til skráningar í meistaranám á vef skólans.
(Sigurður Emil Pálsson,  [email protected], getur einnig veitt nánari upplýsingar um námið)

Háskólinn í Oxford

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Netöryggisráð hafa einnig verið í samstarfi við Háskólann í Oxford og stóðu í sameiningu að námskeiði í netöryggisfræðum í ágúst 2018 og janúar 2019. Fyrirlesari á námskeiðinu er Dr. Jassim Happa, vísindamaður og kennari við tölvunarfræðideild Háskólann í Oxford.
Áhersla var lögð á að gefa fræðilega yfirsýn út frá áherslum sem eru í doktorsnámi við Háskólann í Oxford, fremur en að þjálfa fólk til að beita ákveðnum tæknilegum aðferðum. Miðað var við að námskeiðið gæti jafnt nýst fólki með tæknilegan bakgrunn, sem vildi kynna sér þróun á þessu sviði, og ýmsum stjórnendum með tæknilegt læsi, sem vildi öðlast skilning á þróun netöryggismála og ýmsum þeim þáttum sem eru á döfinni í netöryggisfræðum. Námskeiðunum var vel tekið, enda var hér einstakt tækifæri til að kynnast hversu breitt svið netöryggisfræðin spanna í reynd.

 

Öryggi Hlutanetsins (IoT):

Leiðbeiningar um örugga notkun snjalltækja á heimilum

 

 

Dæmi um einföld snjalltæki á heimilum sem þessar leiðbeiningar ná til eru ljósaperur, reykskynjarar, hitastillar, öryggiskerfi, eftirlitsmyndavélar og læsingar.

Val

Öryggissjónarmið við val á snjalltæki fyrir heimilið

 • Er þörf á eiginleikum snjalltækis eða myndi venjulegt tæki duga?
 • Sýnið varkárni við kaup á notuðum snjalltækjum, það er erfitt að tryggja að ekki hafi verið átt við þau.
 • Kannið öryggisráðstafanir sem sölu- eða þjónustuaðili býður upp á varðandi snjalltæki.
 • Ef snjalltæki er knúið rafhlöðu, er rétt að velja tæki sem einnig er hægt að knýja eða hlaða með öðrum hætti í neyð.

Notkun

Örugg notkun snjalltækis á heimili

 • Breytið upphaflegu lykilorði Wi-Fi neta og notið trausta dulritun (t.d. WPA2, leitið leiðbeininga hjá þjónustuaðila)
 • Breytið upphaflegu lykilorði snjalltækis.
 • Þegar ekki er þörf á fjaraðgangi að snjalltæki er rétt að aftengja eða loka fyrir aðgang. 
 • Notið víratengingar í stað þráðlausra þegar unnt er.
 • Breytið persónuverndar- og öryggisstillingum tækis miðað við þarfir ykkar (e. privacy and security settings).
 • Gerið þá eiginleika óvirka sem ekki á að nota.
 • Setjið inn uppfærslur um leið og þær eru fáanlegar.
 • Hafið snjalltæki á sérneti ef unnt er.
 • Tryggið að ekki komi upp alvarlegt ástand þótt snjalltæki hætti að virka (t.d. vegna bilunar á nettengingu).

Netþjónusta

Örugg notkun netþjónustu vegna snjalltækja á heimili

 • Notið lykilorðaforrit (e. password manager).
 • Notið ólík lykilorð fyrir mismunandi þjónustu (þ.e. ekki sama lykilorð).
 • Athugið vel hvaða gagnaskipti farið er fram á (eru þau í samræmi við þá þjónustu sem á að veita?)

 

*Ath. Leiðbeiningarnar eru byggðar á bæklingi Evrópsku netöryggisstofnunarinnar, ENISA: 
Securing the IoT / IoT Security: User awareness (ekki er um beina þýðingu að ræða).

Á komandi árum er fyrirsjáanleg brýn þörf á ýmiss konar leiðbeiningum fyrir söluaðila og framleiðendur snjalltækja og annars búnaðar tengdum Hlutanetinu.
Hér er tilvísun í tvær heimildir sem geta nýst:

- Evrópska netöryggisstofnunin, ENISA, hefur sett upp vefsetur þar sem unnt er að nálgast með einföldum hætti margs konar gögn, jafnt leiðbeiningar sem staðla, sem hafa ber hliðsjón af þegar þjónusta byggð á hlutanetinu er þróuð.

- Leiðbeiningarit breskra stjórnvalda, Code of Practice for Consumer IoT Security (október 2018, 24 bls.) þar sem ráð eru gefin til seljenda og framleiðenda margs konar snjalltækja til að geta veitt neytendum sem besta þjónustu.

Það er mikilvægt fyrir stjórnendur að geta kynnt sér undirstöðuatriði varðandi netöryggi. Ýmis rit eru fáanleg, eitt þeirra er Cyber Security Guide for Boardroom Members (hollenskt leiðbeiningarrit á ensku fyrir stjórnendur). World Economic Forum hefur m.a. gefið út: Advancing Cyber Resilience: Principles and Tools for Boards.

Það hefur ekki tekist að skapa alþjóðlega samstöðu um formlegan lagaramma um Netið. Nokkuð góð samstaða er um að almennt skuli lög í raunheimi einnig gilda þar. Samsvörunin er þó ekki alltaf einföld vegna alþjóðlegs eðlis Netsins og t.d. skýjaþjónustu. Áleitnar spurningar um fullveldi og lögsögu á Netinu hafa því vaknað og meðan ekki er almennt samkomulag um túlkun alþjóðalaga hefur annarra leiða verið leitað. Tallinn-handbókin svokallaða er rit sem var tekið saman af fjölþjóðlegum hópi sérfræðinga að beiðni öndvegisseturs NATO um netvarnir (NATO Cooperative Cyber Defence Centre of Excellence), sem hefur aðsetur í Tallinn í Eistlandi. Markmiðið með ritinu var að taka saman álit helstu sérfræðinga á því hvernig rétt væri að túlka alþjóðalög þegar kæmi að hugsanlegum átökum ríkja á Netinu.

Fyrsta útgáfa handbókarinnar var gefin út 2013 og önnur útgáfa (2.0) var gefin út vorið 2017). Heiti fyrstu útgáfu var ("Tallinn Manual on the International Law Applicable to Cyber Warfare", feitletrun okkar), en hún varð formlega séð úrelt þegar útgáfa númer 2.0 kom út ("Tallinn Manual 2.0 on the International Law Applicable to Cyber Operations"). Breyting á heiti ritsins í annarri útgáfu endurspeglar einmitt þá breytingu að í því eru tekin með tilvik á því gráa svæði sem liggur fyrir neðan það sem flokkast sem „stríðsaðgerðir“ að alþjóðalögum. Þar eru tekin með ýmis tilvik misbeitingar netsins, sem geta verið í hernaðarlegum tilgangi en að viðkomandi aðgerð(ir) sé einungis hluti af fleiri aðgerðum þannig að hver aðgerð nái því ekki að teljast til „stríðsaðgerðar“ og um margs konar ólíkar aðgerðir sé að ræða. Þótt Tallinn-handbókin hafi ekki formlegt gildi við túlkun alþjóðalaga, þá hefur hún haft veruleg áhrif og til hennar er litið á meðan formlegan alþjóðlegan lagaramma skortir á þessu sviði.

Í vefhandbókinni, handbók um opinbera vefi er m.a. að finna umfjöllun um netöryggismál. Fjallað er um öryggi opinberra vefja, s.s. áhættumat, öryggi veflausna og grunnkerfa auk öryggis við flokkun gagna. Þá er þar að finna hjálpargögn og orðskýringar.

Huga þarf vel að öryggistengdum þáttum við gerð samninga um þjónustu er byggjast á notkun Netsins. Í vefhandbókinni er að finna drög að samningsviðauka vegna upplýsingaöryggis sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið lét taka saman í samvinnu við Netöryggisráð og hægt er að hafa til hliðsjónar varðandi öryggiskröfur við gerð þjónustusamninga við hýsingaraðila, þjónustuaðila og hugbúnaðarhús. Markmiðið er skerpa á þeim öryggiskröfum sem gerðar eru í slíkum samningum og stuðla þannig að því að koma í veg fyrir öryggisbresti, sem m.a. geta komið upp vegna misskilnings. Dæmi eru um að verkkaupar hafi talið ýmsa öryggistengda þætti vera inni í samningi þegar svo var í reynd ekki.

Drög að samningsviðauka vegna upplýsingaöryggis er umræðuskjal og eru allar ábendingar um það sem betur mætti fara afar vel þegnar. Ábendingar sendist til Sigurðar Emils Pálssonar, [email protected].

 

Október – mánuður netöryggis

 

Evrópski netöryggismánuðurinn

Október er á hverju ári helgaður netöryggismálum í mörgum löndum Evrópu. Markmiðið er að vekja athygli á mikilvægi málaflokksins og hvetja til þess að viðburðir á sviði netöryggismála yrðu haldnir í mánuðinum. 

 

Netöryggismánuðurinn 2021

Hér að neðan eru ýmsir atburðir tengdir netöryggismánuðinum 2021 og eins og í fyrra mun vakningarátakið halda áfram fram í nóvember. Aðilum sem standa að viðburðum (einnig þeim sem eru liðnir en tengdir mánuðinum) er velkomið að senda inn upplýsingar um þá svo afrakstur þeirra verði sem sýnilegastur og geymist ásamt upplýsingum um aðra skylda viðburði.

 • 27. október
  Hádegisfundur Ský: Gagnagíslataka – Ógn sem er komin til að vera. Fundur á Grand hótel, kl. 12:00–14:00.
  - Upplýsingar og skráning 
 • 28. október
  Vefráðstefna ITU: Women in Cyber: A year laterÞetta er framhald vefráðstefnunnar Empowering Women In Cybersecurity sem haldin var 6. október í fyrra. Ráðstefnan var kynnt sérstaklega sem hluti netöryggismánaðar og veffundur haldinn (Tækifæri kvenna tengd netöryggi) undir stjórn ungra íslenskra kvenna. Á þessari nýju vefráðstefnu verður farið yfir hvað hefur áunnist við að rétta hlut kvenna í netöryggi og áherslur í framtíðinni, enda er vaxandi áhersla alþjóðlega á þetta mál.
  - Upplýsingar og skráning
 • 29. október
  Netöryggiskeppni (e. Capture The Flag – CTF) í samvinnu SecureIT og SANS
  Keppnin hefst kl. 8, sjá nánari upplýsingar.

 

Netöryggismánuðurinn 2020

 • 2. október
  Netöryggi okkar allra. Veffundur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins kl. 13:00-15:00. - Upptaka af fundi
 • 6. október
  Empowering Women In Cybersecurity. Fyrirlestur á vegum Alþjóðafjarskiptasambandsins (ITU) kl. 12:00-13:30.
    Tækifæri kvenna tengd netöryggi. 
  Umræður á fjarfundi í umsjón Ástu Láru Magnúsdóttur og Kristjönu Björk Barðdal kl. 14:30-15:30

  - Nánari upplýsingar
 • 8. október
    How To Reduce Cyber Risk And Increase National Cyber Resilience (ísl: Netöryggi. Hvernig er best að minnka áhættu og auka áfallaþol)
  Fyrirlestur á vegum Alþjóðafjarskiptasambandsins (ITU) kl. 12:00-13:30.
  Netöryggi: Áhættumat og áfallaþol. Umræður á fjarfundi kl. 13:30-14:30.
 • 12. október
    Öryggisátak Advania: Qualys - 
  Gott að vita af veikleikum, enn mikilvægara að laga þá. Fjarfundur kl. 10-11.
 • 13. október
  How to conduct effective Open Source Investigations Online (ísl: Hvernig er unnt að nota opnar heimildir á Netinu við rannsóknir). Námskeið á vegum Alþjóðafjarskiptasambandsins (ITU) kl. 12:30-15:00.
 • 14. október
    Öryggisátak Advania: BitSight – Hvað ef samstarfsaðili er ekki traustsins verður? Fjarfundur kl. 10-11.
 • 15. október
  Incident Response with TheHive and Cortex. Námskeið á vegum Alþjóðafjarskiptasambandsins (ITU) kl. 12:30-15:00.
 • 19. október
    Öryggisátak Advania: Forcepoint – Gagnaöryggi í nýjum heimi. Fjarfundur kl. 10-11.
 • 19. október 
    Októberráðstefna CERT-IS 2020 – fyrri dagur kl. 13-16: Áskoranir CERT sveita.  Meðal efnis verða kynningar frá Netöryggissveitinni, KraftCERT í Noregi og dönsku þjóðarnetöryggissveitinni. Upplýsingar og skráning
 • 20. október
  Communication in Crisis Management (ísl: Samskipti og miðlun upplýsinga á neyðarstundu). Námskeið á vegum Alþjóðafjarskiptasambandsins (ITU) kl. 12:30-15:00. Hérlendis er mikil reynsla af miðlun upplýsinga þegar um náttúruvá er að ræða. Þegar um netógnir er að ræða getur þurft að standa öðruvísi að verki, sérstaklega ef ætla má að ógnvaldurinn reyni að vakta öll viðbrögð og aðlaga ógnina að þeim. Um þetta verður m.a. fjallað á fjarfundi eftir námskeiðið. 
 • 21. október
    Öryggisátak Advania: Trend Micro – Yfirgripsmikið öryggi þarf ekki að vera dýrt. Fjarfundur kl. 10-11.
 • 21. október 
    Októberráðstefna CERT-IS 2020) – síðari dagur kl. 13-16: Netöryggi - Tæki, tól og þjónusta. Meðal efnis verða kynningar frá Storedsafe, SANS, Mnemonic og BitSight. Upplýsingar og skráning
 • 22. október
  Industrial cybersecurity and incident response (ísl: Netöryggi iðnstýrikerfa mikilvægra innviða og viðbrögð við netatvikum tengdum þeim). Námskeið á vegum Alþjóðafjarskiptasambandsins (ITU) kl. 12:30-15:00. Leiðbeinandi í þessu námskeiði er frá Úkraínu, þar sem reynsla er af alvarlegri netárás á orkukerfi landsins og viðbrögðum sem beitt var til varnar. Á fjarfundi á eftir verður fjallað um varnir mikilvægra innviða hérlendis og þá sérstaklega á grunni nýju netöryggislaganna, nr. 78/2019 um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða.

 • 23.-25. október 
    Netöryggiskeppni PFS. Keppnin hefst kl. 16 á föstudegi og lýkur kl. 16 á sunnudegi. 
  Lesa nánar um netöryggiskeppnina
 • 27.-29. október og 3.-5. nóvember
    Netöryggisæfing ITU með þjóðarnetöryggissveitum ríkja og samstarfsaðilum hverrar. Þátttaka af hálfu Íslands er skipulögð af Netöryggissveitinni.
 • 28. október
    Hádegisfundur öryggishóps Ský: Netöryggi er á ábyrgð okkar allra.
 • 17. nóvember
  Cyberthreats and Social Media (ísl: Netógnir og samfélagsmiðlar).

    Námskeið á vegum Alþjóðafjarskiptasambandsins (ITU) kl. 12:30-15:00
 • 19. nóvember 
  Practical Cyberthreats Intelligence and Information Sharing using MISP (ísl: Mat netógna og að deila upplýsingum með MISP)
  Námskeið á vegum Alþjóðafjarskiptasambandsins (ITU) kl. 13:30-16:00.

  Almennar upplýsingar um skráningu á viðburði ITU
 • Ráðstefnur, fundir og fræðsluerindi ITU um netöryggi sem sækja má án endurgjalds:
 • Skráning sem notandi (og inn í notendakerfi ITU). Byrjað er á að fara á notendasíður ITU, annað hvort sem þekktur notandi eða sem nýr notandi.
           - Skrá sig á vefráðstefnu (Webinar)
           - Skrá sig á fræðslufund (Training)

     Sé maður nýr notandi á að smella á „Click here to create a new user account, reset your password or modify your profile“ fyrir neðan [Sign In]. Á þeirri síðu þarf í fyrsta sinn að merkja við „I am a new user“. Almennir þátttakendur (sem vinna ekki hjá stjórnvöldum eða þeim flokkun sem eru tilgreindir sérstaklega) haka einfaldlega við neðsta kostinn: "(X) Non Member or I don‘t know". Eftir það er einfalt að fá notendaskilríki sem unnt er að nota á aðra fundi og ráðstefnur hjá ITU.

         Að lokinni skráningu kemur sjálfvirkur staðfestingarpóstur eftir stutta stund.

Netöryggismánuðurinn 2019

 • 3. október: Netógnir í nýjum heimi. Sjá upplýsingar og upptöku hér.
 • 3. október: Fræðslufundur Landsbankans um netöryggismál fyrir starfsfólk fyrirtækja og stofnana.
 • 9. október: Öryggisráðstefna Reiknistofu bankanna og Syndis.
 • 18. október: Undirbúningur framkvæmdar nýrra laga um netöryggi sem taka gildi haustið 2020.
  Fundur á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins með þeim eftirlitsstofnunum sem skilgreindar eru samkvæmt lögunum.
 • 23. október: Öryggi skýjalausna, hádegisfundur öryggishóps Ský.
 • 25. október: Verkfræðingafélag Íslands: Tölvu- og netglæpir – reynslusögur úr íslenskum veruleika
 • 30. október: Evrópska netöryggiskeppnin 2020 – kynning á fyrirhugaðri þátttöku Íslands.
  Keppnin er haldin árlega og verður næst haldin haustið 2020. Samkvæmt reglum keppninnar er lið hvers lands tvískipt, annars vegar í yngri flokki (14-20 ára) og hins vegar í eldri flokki (21-25 ára). Öryggisfyrirtækið Syndis hafði umsjón með skipulagningu forkeppni og þjálfun fyrir aðalkeppnina, en Syndis hefur áður staðið fyrir ýmsum netöryggiskeppnum.
  - Sjá frétt um netöryggiskeppni íslenskra umgmenna (1.11. 2019)
 • 30. október: Kynningarfundur fyrir framhaldsskólanema á forkeppni vegna þátttöku Íslands í Evrópsku netöryggiskeppninni.
  Form forkeppninnar verður kynnt og sýnt með dæmum hvernig hún fer fram. Jafnframt verður fjallað um hvernig aðalkeppnin hefur farið fram til þessa og hvernig verði staðið að þjálfun þeirra sem valin verða til þátttöku.
 • 31. október: Geta netárásir fellt fyrirtæki? Morgunfundur um netöryggismál. Einn af æðstu yfirmönnum norska orkurisans Norsk Hydro mun segja frá alvarlegri netárás á fyrirtækið og lærdómi sem draga megi af henni. Fyrirlesari frá Norska tækniháskólanum mun fjalla um miðstöð sem sett hefur verið upp til að æfa varnir gegn árásum á stofnanir og fyrirtæki. Loks munu tveir öryggissérfræðingar frá Landsbankanum fjalla um leiðir til að halda vöku sinni varðandi netógnir framtíðar. Morgunfundurinn er samstarfsverkefni samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og Samtaka atvinnulífsins.
  - Sjá frétt með dagskrá og skráningu
  - Frétt frá fundinum
 • 31. október: Fundir með fyrirlesara frá Norsk Hydro og fulltrúum stjórnvalda og atvinnulífs þar sem farið verður nánar yfir æskileg viðbrögð þessara aðila við mjög alvarlegum netárásum. 

Öryggi Hlutanetsins (IoT):

Leiðbeiningar um örugga notkun snjalltækja á heimilum

 

 

Dæmi um einföld snjalltæki á heimilum sem þessar leiðbeiningar ná til eru ljósaperur, reykskynjarar, hitastillar, öryggiskerfi, eftirlitsmyndavélar og læsingar.

Val

Öryggissjónarmið við val á snjalltæki fyrir heimilið

 • Er þörf á eiginleikum snjalltækis eða myndi venjulegt tæki duga?
 • Sýnið varkárni við kaup á notuðum snjalltækjum, það er erfitt að tryggja að ekki hafi verið átt við þau.
 • Kannið öryggisráðstafanir sem sölu- eða þjónustuaðili býður upp á varðandi snjalltæki.
 • Ef snjalltæki er knúið rafhlöðu, er rétt að velja tæki sem einnig er hægt að knýja eða hlaða með öðrum hætti í neyð.

Notkun

Örugg notkun snjalltækis á heimili

 • Breytið upphaflegu lykilorði Wi-Fi neta og notið trausta dulritun (t.d. WPA2, leitið leiðbeininga hjá þjónustuaðila)
 • Breytið upphaflegu lykilorði snjalltækis.
 • Þegar ekki er þörf á fjaraðgangi að snjalltæki er rétt að aftengja eða loka fyrir aðgang. 
 • Notið víratengingar í stað þráðlausra þegar unnt er.
 • Breytið persónuverndar- og öryggisstillingum tækis miðað við þarfir ykkar (e. privacy and security settings).
 • Gerið þá eiginleika óvirka sem ekki á að nota.
 • Setjið inn uppfærslur um leið og þær eru fáanlegar.
 • Hafið snjalltæki á sérneti ef unnt er.
 • Tryggið að ekki komi upp alvarlegt ástand þótt snjalltæki hætti að virka (t.d. vegna bilunar á nettengingu).

Netþjónusta

Örugg notkun netþjónustu vegna snjalltækja á heimili

 • Notið lykilorðaforrit (e. password manager).
 • Notið ólík lykilorð fyrir mismunandi þjónustu (þ.e. ekki sama lykilorð).
 • Athugið vel hvaða gagnaskipti farið er fram á (eru þau í samræmi við þá þjónustu sem á að veita?)

 

*Ath. Leiðbeiningarnar eru byggðar á bæklingi Evrópsku netöryggisstofnunarinnar, ENISA: 
Securing the IoT / IoT Security: User awareness (ekki er um beina þýðingu að ræða).

Á komandi árum er fyrirsjáanleg brýn þörf á ýmiss konar leiðbeiningum fyrir söluaðila og framleiðendur snjalltækja og annars búnaðar tengdum Hlutanetinu.
Hér er tilvísun í tvær heimildir sem geta nýst:

- Evrópska netöryggisstofnunin, ENISA, hefur sett upp vefsetur þar sem unnt er að nálgast með einföldum hætti margs konar gögn, jafnt leiðbeiningar sem staðla, sem hafa ber hliðsjón af þegar þjónusta byggð á hlutanetinu er þróuð.

- Leiðbeiningarit breskra stjórnvalda, Code of Practice for Consumer IoT Security (október 2018, 24 bls.) þar sem ráð eru gefin til seljenda og framleiðenda margs konar snjalltækja til að geta veitt neytendum sem besta þjónustu.

Evrópska netöryggisstofnunin (ENISA) hefur framleitt nokkur myndbönd til að vekja fólk til vitundar um netöryggi okkar allra í tilefni af evrópska netöryggismánuðinum, sem haldinn er í október ár hvert. Efni þeirra var þýtt yfir á íslensku í samvinnu við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 24.8.2022
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira