Efling stafrænnar þjónustu er eitt af forgangsmálum stjórnvalda og stefnt að því að Ísland verði á meðal fremstu þjóða heims þegar kemur að stafrænni opinberri þjónustu. Hröð þróun hefur orðið í væntingum fólks til þjónustu á sama tíma og stór tækifæri hafa skapast til að bæta þjónustuupplifun notenda með aukinni stafrænni þjónustu. Síðustu misseri hefur stafræn þjónusta þróast hratt á Íslandi á grunni stefnu stjórnvalda og þeim sterku innviðum sem byggðir hafa verið upp hér á landi. Stefna um stafræna þjónustu verður gefin út á fyrri hluta árs 2021.
Verkefnastofa um stafrænt Ísland vinnur að framangi markmiða stjórnvalda í þessum málaflokki með það að markmiði að veita framúrskarandi þjónustu með öruggum hætti. Stafrænt Ísland vinnur að því að aðstoða opinberar stofnanir við að bæta stafræna þjónustu við almenning með því að gera þjónustuna skýrari, einfaldari og hraðvirkari. Þá er stafrænni þjónustu jafnframt ætlað að miða að styrkri samkeppnisstöðu Íslands, um störf í þekkingariðnaði og auka hagsæld með nýsköpun og skilvirkara samfélagi. Þá mun efling stafrænnar þjónustu skila aukinni hagræðingu í ríkisfjármálum og minnka áhrif opinberrar starfsemi á umhverfið.
Helstu áherslusvið Stafræns Íslands eru:
- Stafræn samskipti meginsamskiptaleið hins opinbera við almenning og fyrirtæki í gegnum Ísland.is
- Hagkvæmur rekstur vefkerfa og stafrænnar þjónustu sem uppfyllir alþjóðleg öryggis- og aðgengisskilyrði.
- Vefþjónustur og gagnaflutningslag hins opinbera er samræmt út frá tæknistefnu Ísland.is.
- Samhæfing og hagkvæmni hugbúnaðarlausna tryggð.
Unnið er að ýmsum verkefnum á grunni aðgerðaáætlunar ríkisstjórnarinnar um eflingu stafrænnar þjónustu, sem samþykkt var í maí 2019, og yfirlýstum markmiðum um að stafræn samskipti verði megin samskiptaleið hins opinbera við almenning. Þá hefur Ísland gengist undir sameiginlega yfirlýsingu Norðurlandanna, Digital North, og vinnur í nánu samstarfi við hin Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin að markmiðum um vistvæna og sjálfbæra þróun, auk hagnýtingar á gögnum og gervigreind.
Ábyrgð þeirra verkefna sem unnið er að liggur hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, málaflokki 5.3 og 6.1 í fjármálaáætlun. Framkvæmd stefnu stjórnvalda og aðgerða er hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu sem er í samræmi við forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna þar sem fram kemur að málefni upplýsingasamfélagsins falli undir ráðuneytið. ásamt Verkefnastofu um stafrænt Ísland í náinni samvinnu við stofnanir ríkisins, önnur ráðuneyti, sveitarfélög, almenning og fyrirtæki.