Hoppa yfir valmynd
Táknmál

Opinber þjónusta er byggð upp með lýðræði, skilvirkni og þarfir almennings og atvinnulífs að leiðarljósi. Góð þekking á upplýsingatækni og aðgangur að opinberum gögnum stuðlar að nýsköpun og vexti atvinnulífsins. Stefnt er að því að almenningur og atvinnulíf geti í vaxandi mæli haft áhrif á ákvarðanir opinberra aðila með því að taka þátt í undirbúningi þeirra í opnu og gegnsæju samráði á netinu.

Unnið er samkvæmt stefnu ríkis og sveitarfélaga um upplýsingasamfélagið, Vöxtur í krafti netsins - byggjum, tengjum og tökum þátt. Í henni er horft til tækifæra sem fylgja ýmsum tækninýjungum svo sem notkunar netsins til að auka lýðræðislega þátttöku almennings og tilkomu nýrra samfélagsmiðla. Einnig er lögð áhersla á aukin tækifæri varðandi skilvirkni, rafræna þjónustu og samvirkni og öryggi kerfa.

Ríkið rekur eitt stærsta tækniumhverfi landsins og gegnir upplýsingatækni fjölþættu hlutverki í rekstri ríkisins. Upplýsingatækni er einn helsti drifkrafturinn í endurmótun á opinberri starfsemi þar sem stefnt er að því að auka þjónustu, stuðla að nýsköpun og bæta samhæfingu til hagsbóta fyrir notendur. Með framþróun í upplýsingatækni og tilkomu svokallaðra tölvuskýja gefast tækifæri til frekari samreksturs og bættrar nýtingar þeirra fjármuna sem varið er í rekstur upplýsingatæknikerfa.

Verkefni á sviði upplýsingasamfélagsins heyra meðal annars undir eftirfarandi málefnasvið í gildandi fjármálaáætlun: Hagskýrslugerð, grunnskrár og upplýsingamál

Stafrænt Ísland

Á sama tíma og væntingar fólks til þjónustu hafa aukist skapast stór tækifæri til að bæta þjónustuupplifun notenda með stafrænni þjónustu. Síðustu misseri hefur stafræn þjónusta þróast hratt á Íslandi á grunni stefnu stjórnvalda og þeirra sterku innviða sem byggðir hafa verið upp. Efling stafrænnar þjónustu er eitt af forgangsmálum stjórnvalda og mun stefna hins opinbera um stafræna þjónustu sem kom út í júlí 2021 leggja grunn að því að Ísland verði á meðal fremstu þjóða heims þegar kemur að stafrænni opinberri þjónustu.

Eftirfarandi sýn er sett fram í stefnu hins opinbera um stafræna þjónustu:

Ísland er meðal allra fremstu þjóða heims á sviði stafrænnar þjónustu. Stafræn þjónusta er notuð til þess að skapa öflugt samfélag með aukinni samkeppnishæfni sem leiðir til verðmætasköpunar og myndar grundvöll hagsældar. Stafræn þjónusta er skýr, örugg, einföld og hraðvirk. Upplifun notenda af þjónustunni stenst samanburð við þjónustu eins og hún gerist best. Almenningur og fyrirtæki í landinu komast beint að efninu, hvar og hvenær sem er, sem sparar dýrmætan tíma fólks. Jafnframt minnka áhrif þjónustunnar á náttúruauðlindir.

Markmið og áherslur stefnunnar:

  • Aukin samkeppnishæfni
  • Betri opinber þjónusta
  • Öruggari innviðir
  • Nútímalegra starfsumhverfi

Verkefnastofa um stafrænt Ísland vinnur að framangi markmiða stjórnvalda í þessum málaflokki með það að markmiði að gera opinbera þjónustu skilvirkari og notendavænni í samvinnu við ráðuneyti og opinbera aðila. Nánar um verkefnastofuna má lesa á Ísland.is

Stafræn þjónusta á að ná til alls samfélagsins sem og bæta þjónustu við íbúa utan þéttbýlis og styðja við alla þá sem eiga erfitt með að nálgast þjónustu. Með því að hafa helstu þjónustu hins opinbera aðgengilega á Ísland.is er verið að koma almenningi og fyrirtækjum beint í þá þjónustu sem leitað er að. Markmiðið er að einstaklingar og fyrirtæki geti leyst úr sínum málum með sjálfsafgreiðslu, að stafræn ferli spari ferðalög fólks milli staða og tryggi öruggan flutning gagna milli stofnana. Slíkt kemur þó ekki í veg fyrir að þjónustan sé veitt með öðrum hætti samhliða og þannig komið til móts við þarfir mismunandi hópa samfélagsins.

Stafræn þjónusta auðveldar opinberum aðilum að veita nútímalega og skilvirka opinbera þjónustu. Með því að sameina þjónustu opinberra aðila á Ísland.is geta opinberir aðilar nýtt sér lausnir sem eru hannaðar með þarfir þeirra að leiðarljósi sem flýtir fyrir innleiðingu stafrænna lausna og kemur í veg fyrir tvíverknað. Stafrænar lausnir auka skilvirkni vinnustaða og gera það að verkum að hægt er að sinna verðmætari verkefnum í meira mæli og bæta þannig þjónustuna eða auka hagkvæmni hennar.

Viðfangsefnið er í örri þróun og því verður stefnan í stöðugri endurskoðun. Samhliða stefnunni munu á næstunni birtast yfirlit yfir aðgerðir ásamt árangursmælikvörðum. Framkvæmd stefnunnar og aðgerða er hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu ásamt verkefnastofu um Stafrænt Ísland í náinni samvinnu við stofnanir ríkisins, önnur ráðuneyti, sveitarfélög, almenning, félagasamtök og fyrirtæki. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gerst aðili að stefnunni fyrir hönd sveitarfélaga og vinnur að framgangi hennar meðal sveitarfélaga landsins.

 

Síðast uppfært: 7.3.2022 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira