Hoppa yfir valmynd

Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum

Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum 2018 - 2030 var kynnt í fyrstu útgáfu 10. september 2018. 

Markmiðið með áætluninni er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að aukinni kolefnisbindingu þannig að Ísland geti staðið við markmið Parísarsamningsins til 2030 og markmið ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040.

Þetta er heildstæð áætlun sem samanstendur af 34 aðgerðum á mörgum sviðum. Megináherslurnar eru tvær:

  • Orkuskipti í samgöngum, með sérstakri áherslu á rafvæðingu í vegasamgöngum.
  • Átak í kolefnisbindingu þar sem skógrækt og landgræðsla gegna lykilhlutverki og markvisst verður dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda með endurheimt votlendis.

Orkuskipti

Verulega verður aukið við fjárfestingar og innviði vegna rafvæðingar í samgöngum en áætlað er að verja 1,5 milljarði króna á næstu fimm árum til uppbyggingar innviða fyrir rafbíla, rafvæðingu hafna og fleiri nauðsynlegra aðgerða í orkuskiptum hér á landi. Hvatar til að fjárfesta í ökutækjum sem losa lítinn koltvísýring verða efldir. Ívilnunum fyrir rafbíla og aðra visthæfa bíla verður viðhaldið og nýjum ívilnunum komið á vegna almenningsvagna, dráttarvéla og fleiri þyngri ökutækja og vegna kaupa og útleigu á ökutækjum í atvinnurekstrarskyni. Kolefnisgjald verður áfram hækkað og almenningssamgöngur styrktar í samræmi við samgönguáætlun. Fylgt verður fordæmi nágrannaríkja líkt og Noregs, Frakklands og Bretlands og mörkuð sú stefna að nýskráning bíla sem eingöngu ganga fyrir jarðefnaeldsneyti verði ólögmæt. Miðað er við árið 2030. Gætt verður sérstaklega að hugsanlegum undanþágum, t.d. á stöðum þar sem erfitt kann að vera að nota aðra bíla en þá sem ganga fyrir bensíni og dísel.

Kolefnisbinding

Ráðist verður í umfangsmikið átak við endurheimt votlendis, birkiskóga og kjarrlendis, stöðvun jarðvegseyðingar og frekari landgræðslu og nýskógrækt til að vinna sérstaklega að markmiði um kolefnishlutleysi. Um 4 milljörðum króna verður varið til þessara aðgerða á næstu fimm árum. Áhersla er lögð á að fela félagasamtökum hlutverk, bændum og öðrum vörslumönnum lands.

Aðrar aðgerðir

Í aðgerðaáætluninni eru einnig aðgerðir tengdar úrgangsmálum, landbúnaði, sjávarútvegi, fræðslu og fleira. Um 500 milljónum króna verður varið til nýsköpunar vegna loftslagsmála og verður Loftslagssjóður stofnaður til að halda utan um slík verkefni. Um 800 milljónum króna verður varið í margvíslegar aðgerðir, svo sem rannsóknir á súrnun sjávar og aðlögun að loftslagsbreytingum, bætt kolefnisbókhald, alþjóðlegt starf og fræðslu.

Samráð

Áætlunin verður í samráðsgátt Stjórnarráðsins til umsagnar til 1. nóvember 2018 og uppfærð í ljósi ábendinga, auk þess sem boðið verður til samráðs um mótun einstakra aðgerða með fulltrúum atvinnulífs, félagasamtaka, sveitarfélaga og annarra. Þetta er því fyrsta útgáfa áætlunarinnar en gert er ráð fyrir að önnur útgáfa áætlunarinnar komi út á næsta ári.

 

Heimsmarkmið Sþ: 13 Verndun jarðarinnar Heimsmarkmið Sþ: 7 Sjálfbær orka Heimsmarkmið Sþ: 11 Sjálfbærar borgir og samfélög Heimsmarkmið Sþ: 17 Samvinna um markmiðin

Frekari upplýsingar

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira