Hoppa yfir valmynd

ETS: Flug og iðnaður

Losun sem tengist viðskiptakerfi með losunarheimildir (ETS) 

Tækniþróun og hertar reglur í viðskiptakerfi með losunarheimildir

Í flokkunum hér á undan hefur verið fjallað um losun gróðurhúsalofttegunda sem fellur undir beina ábyrgð Íslands. Í þessum flokki er á hinn bóginn fjallað um losun innan evrópska viðskiptakerfisins með losunarheimildir (e. EU Emission Trading System, EU ETS). Um að ræða losun frá iðnaðarferlum í stóriðju og losun vegna flugs. 

Umrætt viðskiptakerfi með losunarheimildir, ETS-kerfið, gegnir lykilhlutverki í aðgerðum Evrópusambandsins gegn loftslagsbreytingum. Kerfið er helsta stjórntæki sambandsins til að ná fram samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og á að skila 43% samdrætti í losun á Evrópuvísu til 2030 miðað við 2005. Innan kerfisins er ábyrgðin á samdrættinum færð á um 11.000 fyrirtæki og um 4.000 flugrekstaraðila sem þurfa að eiga heimildir fyrir allri sinni losun. Hluta þeirra er úthlutað endurgjaldslaust en ef fyrirtækin losa meira af gróðurhúsalofttegundum en sem því nemur þurfa þau að kaupa heimildir vegna þess.

Tækniþróun og hertar reglurÁlverin þrjú sem starfa á Íslandi falla undir ETS-kerfið, sömuleiðis járnblendiverksmiðja Elkem á Grundartanga og kísilmálmverksmiðja PCC á Bakka.

Auk þess eru minni fyrirtæki í kerfinu þar sem losun er þó margfalt minni. Fyrst og fremst er því um að ræða losun frá iðnaðarferlum í stóriðju og var hún um 39% af heildarlosun Íslands árið 2018 (án landnotkunar). Þegar talað er um heildarlosun án landnotkunar er átt við beina ábyrgð Íslands að viðbættri losuninni sem heyrir undir ETS-kerfið.

Losun frá alþjóðaflugi er um 2% af heimslosun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum og fer vaxandi. Þessi losun er utan bókhalds einstakra ríkja í Kýótó-bókuninni og Parísarsamningnum og fellur því ekki undir beina ábyrgð Íslands. Ríki heims eiga þó að koma sameiginlega böndum á hana innan ramma Alþjóðaflugmálastofnunarinnar. Unnið er að því að koma upp nýju kerfi til að draga úr losun frá alþjóðaflugi og ber það heitið CORSIA (Carbon Offsetting and Reduction Scheme for International Aviation). Það verður innleitt í Evrópu með breytingum á regluverki ETS-kerfisins.

Tekið er á millilandasiglingum á vettvangi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. Frá árinu 2018 hafa stór skip sem leggja við hafnir innan ESB þó verið hluti af ETS-kerfinu. Eins og staðan er í dag munu þó engin skip vera í umsjá Íslands, þar sem þau íslensku skip sem ná þessari þyngd og myndu falla undir kerfið eru skráð með heimahöfn í öðrum ríkjum.

Aðgerðir

Aðgerð 
Staða
Losunaráhrif 2030 
H.1 Föngun kolefnis frá stóriðju
Í undirbúningi (ný aðgerð)
Ekki metin að svo stödu*
H.2 Hertar reglur í viðskiptakerfi með losunarheimildir (ETS)
Í undirbúningi
Mat á ekki við * 
H.3 Þátttaka í alþjóðlegu kerfi um samdrátt í losun frá flugi
Í framkvæmd
Mat á ekki við* 

* Um tilraunaverkefni er að ræða og ekki hægt að segja að svo stöddu hver mögulegur samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda gæti orðið.
 ** Væntur samdráttur í losun frá rekstraraðilum sem falla undir evrópska viðskiptakerfið með losunarheimildir (ETS) á Íslandi, Noregi og í ESB er 43% miðað við árið 2005. Ekki er tilgreint einstakt markmið fyrir hvert ríki heldur er í heildina stefnt að 43% samdrætti í losun innan
kerfisins miðað við árið 2005..

Aðgerðir í þessum flokki hafa verið útfærðar og ný aðgerð um föngun kolefnis frá stóriðju bæst við frá því að fyrsta útgáfa aðgerðaáætlunar leit dagsins ljós. Aðgerðin felur í sér að kanna hvort stóriðjufyrirtæki á Íslandi geti dregið úr losun CO2 frá starfsemi sinni með því að dæla því niður í berg eða nýta það til dæmis til eldsneytisframleiðslu. Þar sem niðurdælingin er tilraunaverkefni er ekki hægt að segja til um hver mögulegur samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda gæti orðið. Þó er ljóst að gangi verkefnið vel mun það marka vatnaskil við að draga úr losun frá stóriðju hér á landi. Starfshópur hefur verið skipaður á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins til að vinna drög að frumvarpi sem er ætlað að tryggja að niðurdælingin falli að Evrópureglum um kolefnisföngun og geymslu.

Hertar reglur í viðskiptakerfi með losunarheimildir (ETS) er önnur meginaðgerð stjórnvalda svo draga megi úr losun frá stóriðju, flugrekstri og öðrum aðilum innan viðskiptakerfisins. Um er að ræða auknar kröfur alþjóðlega um samdrátt í losun á fjórða tímabili kerfisins (2021-2030). Uppfæra þarf lög og reglur um framkvæmd ETS-kerfisins hér á landi miðað við nýtt viðskiptatímabil og er nú unnið að því.

Undirbúningur fyrir þátttöku í alþjóðlegu kerfi um samdrátt í losun frá flugi  (CORSIA-kerfinu) stendur yfir. Í upphafi er um að ræða sjálfviljuga þátttöku ríkja og tekur Ísland þátt í kerfinu frá byrjun. Flugrekendur á Íslandi eru þegar farnir að safna gögnum þessu tengt. Kerfið verður innleitt í Evrópu með breytingum á regluverki ETS-kerfisins sem skýrir af hverju umrædd aðgerð tilheyrir þessum flokki aðgerðaáætlunarinnar.

Auk þess að taka þátt í ETS og CORSIA-kerfunum er Ísland hluti af samnorrænu verkefni þar sem unnið er að því að kortleggja hvernig draga megi úr losun frá flugi með orkuskiptum. Markmiðið er að þróa endurnýjanlega orkugjafa fyrir flug til að draga úr loftslagsáhrifum.

Árangursmælikvarðar

Fjöldi fyrirtækja sem fanga CO2 eða eru með tilraunir á slíkri tækni.
Innleiðing á EES gerðum lokið.
Innleiðing á gerðum tengdum CORSIA lokið.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum