Hoppa yfir valmynd

Landbúnaður

Fimm aðgerðir eru lagðar fram til að draga úr losun frá landbúnaði

Þróun losunar gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði, þúsund tonn CO2-ígild

Fimm aðgerðir eru lagðar fram til að draga úr losun frá landbúnaði

Mynd. Losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði árin 2005 og 2018 og áætluð losun 2030 með aðgerðum.

Áburður og iðragerjun – leitað nýrra leiða

Losun frá landbúnaði

Losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði er annars eðlis en til að mynda frá bílum og skipum – hún kemur einkum frá búfé og notkun áburðar. Mest er hún í formi metans (CH4) og hláturgass (N2O) fremur en CO2.

Losunin hefur verið því sem næst óbreytt síðastliðna áratugi, var 605 þúsund tonn árið 2005 og 635 þúsund tonn árið 2018. Verkefnið fram undan er að hreyfa við þessari kyrrstöðu. Með aðgerðum í aðgerðaáætlun og þróun samkvæmt grunnsviðsmynd er áætlað að losunin verði árið 2030 komin niður í 575 þúsund tonn CO2-ígilda. Það er 5% samdráttur miðað við árið 2005 og 9% miðað við 2018.

Reiknað er með að árangur aðgerða hvað varðar samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði byrji fyrst að skila sér árið 2025 sjá mynd hér fyrir neðan.

Gert er ráð fyrir að samdráttur í losun frá landbúnaði byrji að skila sér árið 2025 – þrjár aðgerðir eru þó enn í mótun og ekki taldar með í mati á áhrifum aðgerða í áætluninni

Losun frá landbúnaði frá 2005 til 2030, þúsund tonn CO2-ígilda

Gert er ráð fyrir að samdráttur í losun frá landbúnaði byrji að skila sér árið 2025 – þrjár aðgerðir eru þó enn í mótun og ekki taldar með í mati á áhrifum aðgerða í áætluninni

Mynd. Söguleg losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði og þróun losunar með aðgerðum.

Samkvæmt losunarbókhaldi Íslands verður stærsti hluti losunarinnar við iðragerjun búfjár, og tengist þá sér í lagi sauðfjár- og nautgriparækt. Þetta sést á myndinni hér að neðan.

Iðragerjun á stærstan þátt í losun gróðurhúsaloftegunda frá landbúnaði

Losun frá landbúnaði, þúsund tonn CO2-ígilda

Iðragerjun á stærstan þátt í losun gróðurhúsaloftegunda frá landbúnaði

Mynd. Skipting losunar gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði á Íslandi árið 2018 eftir uppsprettu losunarinnar.

Aðgerðir

Aðgerð 
Staða
Losunaráhrif 2030 
E.1 Loftslagsvænni landbúnaður
Í framkvæmd
Aðgerð í mótun, ekki metin
E.2 Kolefnishlutleysi í nautgriparækt
Í undirbúningi (ný aðgerð)
Aðgerð í mótun, ekki metin
E.3 Aukin innlend grænmetisframleiðsla
Í framkvæmd (ný aðgerð)
Ekki metin að svo stöddu
E.4 Bætt nýting tilbúins áburðar og bætt meðhöndlun húsdýraáburðar
Í undirbúningi
-25 þúsund tonn CO2-ígilda
E.5 Bætt fóðrun búfjár til að draga úr iðragerjun
Í undirbúningi (ný aðgerð)
-23 þúsund tonn CO2-ígilda

Aðgerðir í þessum flokki eru í undirbúningi eða að komast til framkvæmda. Loftslagsvænni landbúnaður er tilraunaverkefni sem hleypt var af stokkunum í febrúar 2020. Bændum verður veitt heildstæð ráðgjöf og fræðsla með það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði og vegna landnýtingar. Starfshópur skilaði í maí 2020 tillögum til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að aðgerðum varðandi kolefnishlutleysi í nautgriparækt.

Aukin innlend grænmetisframleiðsla er sömuleiðis ný aðgerð sem miðar að því að auka framleiðslu á íslensku grænmeti um 25% á næstu þremur árum, styðja við lífræna grænmetisframleiðslu og stefna að því markmiði að íslensk garðyrkja verði kolefnishlutlaus eigi síðar en árið 2040.

Bætt nýting og meðhöndlun áburðar gengur út á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna áburðarnotkunar bænda með margvíslegum hætti og bætt fóðrun búfjár til að draga úr iðragerjun er ný aðgerð sem felur í sér að draga úr losun frá jórturdýrum með breyttri fóðrun. Til skamms tíma var talið að fátt væri til ráða til að draga úr losun metans vegna iðragerjunar í jórturdýrum annað en að fækka gripum en tilraunir erlendis með bætta fóðrun gefa góðar vonir.

Aðgerðirnar eru á málefnasviðum bæði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Til að tryggja samráð þeirra á milli og við Bændasamtök Íslands verður sett á fót verkefnastjórn um framgang loftslagsaðgerða í landbúnaði, með fulltrúum beggja ráðuneyta og fulltrúa Bændasamtaka Íslands. Hlutverk verkefnastjórnarinnar verður að framfylgja aðgerðunum fimm, tryggja samráð og skapa yfirsýn og aðhald.

Losun frá landbúnaði tengist einnig landnýtingu. Margir bændur tengjast auk þess verkefnum í skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis (sjá flokk I, Landnotkun).

Árangursmælikvarðar

Fjöldi býla sem taka þátt verkefninu loftslagsvænni landbúnaður.
Fjöldi nautgripabúa sem taka þátt í verkefninu loftslagsvænni landbúnaður.
 Grænmetisframleiðsla á Íslandi.
 Notkun tilbúins áburðar - magn niturs.
 Úttekt verkefnastjórnar í landbúnaði á möguleikum til samdráttar liggur fyrir.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum