Hoppa yfir valmynd

B.1 Orkuskipti í sjávarútvegi

B. Skip og hafnir

Lýsing

Aðgerðin felur í sér að dregið verður úr losun gróðurhúsalofttegunda frá sjávarútvegi með blönduðum aðgerðum.

Staða


Aðgerðin er í vinnslu.

Starfshópur sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði skilaði skýrslu sinni í júní 2021. Þar er lagt til markmið um a.m.k. 50% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda vegna fiskiskipa sem kaupa eldsneyti á Íslandi til ársins 2030 miðað við árið 2005. Auk þess verði stefnt að því að losun frá fiskiskipum í íslenskum höfnum verði alfarið útrýmt frá árinu 2026. Árið 2030 verði komið skip í fiskiskipaflotann sem verði knúið endurnýjanlegum orkugjöfum og í flota smábáta verði a.m.k. 10% nýrra báta knúin rafmagni að hluta eða öllu leyti frá árinu 2026.

Samhliða útgáfu skýrslunnar var gefin út yfirlýsing íslenskra stjórnvalda og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um að stefna í sameiningu að a.m.k. 50% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda vegna olíunotkunar íslensks sjávarútvegs frá 2005 til 2030. Unnið verður sameiginlega að skilgreindum aðgerðum sem stuðla eiga að því að markmiðið náist. Í því skyni munu stjórnvöld og greinin í sameiningu ráðast í eftirtalin verkefni:

 1. Meta fýsileika og mögulegar útfærslur kvótakerfis fyrir losun gróðurhúsalofttegunda frá sjávarútvegi sem varðað getur leiðina að markmiðinu.
 2. Vinna drög að frumvarpi um skattalega ívilnun vegna fjárfestinga sem draga úr losun greinarinnar en falla utan nýsamþykkts frumvarps um grænar fjárfestingar.
 3. Móta áherslur fyrir stuðning opinberra sjóða við rannsóknir og þróun sem tengjast orkuskiptum í sjávarútvegi.
 4. Auka fræðslu í sjávarútvegi um leiðir til að draga úr losun við núverandi tæknistig.
 5. Endurbæta spálíkön um eldsneytisnotkun í sjávarútvegi.
 6. Kanna fýsileika íblöndunar endurnýjanlegs eldsneytis og kortleggja heimildir vélaframleiðenda á notkun slíks eldsneytis.
 7. Gera úttekt á áhrifum hækkandi kolefnisgjalds á losun og samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs.

Framkvæmd

Ráðist verður í markvissar aðgerðir til að ná orkuskiptum í sjávarútvegi. Íslenskur sjávarútvegur hefur náð markverðum árangri í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á undanförnum árum en mörg tækifæri eru enn til staðar og nauðsynlegt að nýta þau svo Ísland nái markmiðum sínum í loftslagsmálum.

Það er sameiginlegt verkefni stjórnvalda og sjávarútvegsins að skapa umgjörð svo greinin geti lagt sitt af mörkum til loftslagsmála. Til að vinna að því markmiði hefur verið skipaður starfshópur fimm ráðuneyta undir forystu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem mun setja fram tillögur um orkuskipti í sjávarútvegi eigi síðar en 1. desember 2020. Starfshópurinn skal hafa samráð við hagsmunaaðila í sjávarútvegi og aðra hagaðila eftir þörfum.

Vinna starfshópsins felst meðal annars í því að skoða hvernig innleiða megi fjárhagslega hvata til að flýta orkuskiptum í sjávarútvegi og ná meiri árangri á skemmri tíma. Hópurinn skal enn fremur skila tillögum um hvernig auka megi hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í sjávarútvegi, hvernig útfæra megi íblöndun endurnýjanlegs eldsneytis og hver áhrif söluskyldu verði í því samhengi. Til hliðsjónar verður meðal annars höfð greining Eflu, Orkuskipti skipa: Möguleikar á orkuskiptum á sjó, sem unnin var í tengslum við aðra útgáfu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum.

Hópnum er jafnframt ætlað að koma með tillögu að umfangi samdráttar í losun frá sjávarútvegi en ætla má að samdráttur í olíunotkun um 50-60% miðað við árið 2005 sé nauðsynlegur.

Aðgerðin hefur verið útfærð frá því í fyrstu útgáfu aðgerðaáætlunar. Þar bar hún heitið Aukin hlutdeild endurnýjanlegs eldsneytis í skipum.

Ábyrgð

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Árangursmælikvarði

 • Árleg notkun jarðefnaeldsneytis í sjávarútvegi.

   

  Myndirnar hér að neðan sýna árlega notkun jarðefnaeldsneytis í sjávarútvegi annars vegar og eldsneytisnotkun á aflaeiningu. Vert er að taka fram að báðir mælikvarðarnir, sérstaklega notkun jarðefnaeldsneytis á aflaeiningu, geta sveiflast mikið milli ára, m.a. vegna innbyrðis hlutdeildar aflategunda í heildarafla, stöðu fiskveiðistofna, aflabragða, sjólags og fleiri þátta sem eru utan áhrifasviðs loftslagsstefnu stjórnvalda. Aðgerðin er í vinnslu en ekki farin að skila mælanlegum árangri.

   

   

  Mynd 25 Árleg notkun jarðefnaeldsneytis í sjávarútvegi árin 2019 og 2020

 • Notkun jarðefnaeldsneytis á aflaeiningu.

 

 

Mynd 26 Árleg notkun jarðefnaeldsneytis á aflaeiningu árin 2019 og 2020

 

Áhrif á ríkissjóð

Áhrif aðgerðarinnar á ríkissjóð liggja ekki fyrir, til dæmis vegna hugsanlegra skattastyrkja. Almennt má segja að tækifærin sem liggja í því að afurðir íslensks sjávarútvegs verði í framtíðinni kolefnishlutlausar séu mikil og til þess fallin að hámarka virði þeirra verðmæta sem felast í auðlindum hafsins.

Áhrif á losun

Möguleg áhrif á losun liggja ekki fyrir. Til að gefa hugmynd um stærðir myndi markmið um að olíunotkun fiskiskipa væri orðin 50-60% minni árið 2030 en 2005 skila samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda um 69-144 þúsund tonn CO2-ígilda miðað við spá um þróun samkvæmt grunnsviðsmynd. Þar sem aðgerðin er í mótun eru áhrif á samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda ekki reiknuð inn í aðgerðaáætlunina að svo stöddu.

 

Ábyrgð

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Til baka
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira