Hoppa yfir valmynd
A. Samgöngur á landi

Lýsing

A.3 Efling almenningssamgangna - Aðgerðin felur í sér að styrkja almenningssamgöngur.

Staða


Aðgerðin er í vinnslu.

Almenningssamgöngur eru mikilvæg leið til að skipuleggja ferðir fólks í þéttbýli og minnka þörf fyrir einkabílinn. Markmiðið með aðgerðinni er að fjölga þeim sem velja að nota almenningssamgöngur til daglegra ferða, sérstaklega í þéttbýli.

Unnið er að hönnun og skipulagi Borgarlínu sem mun verða hryggjarstykkið í almenningssamgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins.

Á landsbyggðinni er leitað leiða til að gera almenningssamgöngur að raunhæfum valkosti og fjölga farþegum.

Áfram er unnið að því að bæta almenningssamgöngukerfi með það fyrir augum að gera þau að góðum og samkeppnishæfum valkosti sem dragi úr losun frá samgöngum.

Strætó bs birtir árlega tölur um notkun almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Verulega dró úr notkun Strætó í Covid en notkun hefur aukist á ný það sem af er árinu 2022.

Heildstæð ferðavenjukönnun fyrir landið allt er aðeins framkvæmd á þriggja ára fresti, næst haustið 2022, því liggja ekki fyrir nýrri tölur til staðfestingar þróuninni en frá 2019. Strætisvagnar Austurlands er nú þátttakandi í heildstæðu samræmdu almenningssamgöngukerfi svo sá árangur hefur náðst að allar almenningssamgöngur á landi eru í einu kerfi.

Framkvæmd

Stutt verður við almenningssamgöngur í landinu með margvíslegum hætti.

Ríki og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu undirrituðu í september 2019 samkomulag um metnaðarfulla uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu til fimmtán ára. Umræddur samgöngusáttmáli felur í sér að á næstu 15 árum verður ráðist í einar umfangsmestu samgönguframkvæmdir sögunnar hér á landi. Markmiðið er að stórefla almenningssamgöngur, bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til að standa við loftslagsmarkmið ríkis og sveitarfélaga, minnka tafir og fleira.

Borgarlínan er hluti af verkefninu og undirbúningur framkvæmda stendur yfir. Borgarlínan verður nýtt samgöngukerfi á sérstökum akreinum með forgang á umferðarljósum og tíðar ferðir. Auk þess munu almenningsvagnarnir nýta innlenda endurnýjanlega orkugjafa, svo sem rafmagn, vetni eða metan. Samið hefur verið um uppbyggingu um 42 km af Borgarlínuleiðum sem munu ná um mestallt höfuðborgarsvæðið.

Almenningssamgöngur á landsbyggðinni verða auk þess skipulagðar með heildstæðum hætti og meðal annars leitað leiða til að styrkja samkeppnishæfni almenningsvagna í samanburði við það að ferðast einn í bíl.
Aðgerðin er unnin í nánu samstarfi við forsætisráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið og sveitarfélög.

Ábyrgð

Innviðaráðuneytið

Árangursmælikvarði

Hlutfall fólks sem notar almenningssamgöngur.

 

Mynd 9. Hlutfall fólks sem notaði almenningssamgöngur árið 2019, landið allt.

Nokkuð fleiri nota almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni.

 

Mynd 10 Hlutfall fólks á höfuðborgarsvæðinu sem notaði almenningssamgöngur

Samkvæmt ferðavenjukönnun samgönguráðs og SHH var hlutfall þeirra sem notuðu almenningssamgöngur árið 2019 5% en 4% árin 2014 og 2015.

Meðalbílafjöldi á heimili.

 

Mynd 11 Fjöldi bíla á heimili árið 2019

Árið 2019 voru tveir bílar á 41% heimila og einn á 38%. Aðeins 3% heimila voru bíllaus.

Áhrif á ríkissjóð

Framlag ríkisins til uppbyggingar Borgarlínu, stofnvega og hjóla- og göngustíga á höfuðborgarsvæðinu er að lágmarki 45 milljarðar króna frá 2020-2033. Þar af verður 39 milljörðum varið til verkefna tengdum Borgarlínu og fleira.

Þess utan styrkir ríkið strætó og nemur upphæðin ríflega 5 milljörðum króna á tímabilinu 2018-2024 til strætó á landsbyggðinni og tæplega 7 milljörðum króna til strætó á höfuðborgarsvæðinu. Samtals er því um 12 milljarða að ræða á tímabilinu 2018-2024 til almenningssamgangna með strætó.


Áhrif á losun

Áætlað er að með þessari aðgerð muni losun frá vegasamgöngum árið 2030 hafa dregist saman um tæp 16 þúsund tonn af CO2-ígildum miðað við spá um þróun samkvæmt grunnsviðsmynd.

 

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum