Hoppa yfir valmynd
G. Hvatar til umskipta

Lýsing

G.11 Skipulagsgerð og loftslagsmál. Aðgerðin felur í sér að setja fram stefnu og leiðbeiningar fyrir sveitarfélög um hvernig beita megi skipulagsgerð í tengslum við loftslagsmál.

Staða


Aðgerðin er í vinnslu.

Árið 2018 fól umhverfis- og auðlindaráðherra Skipulagsstofnun að hefja vinnu við breytingar á landsskipulagsstefnu 2015–2026.Tillaga að viðauka við landsskipulagsstefnu var lögð fram á Alþingi á árinu 2021 af umhverfis- og auðlindaráðherra.

Í tillögunni var m.a. gert ráð fyrir gerð upplýsinga og leiðbeininga um loftslagsmiðað skipulag og að hvatt verði til verkefna sem stuðla að vitundarvakningu um loftslagsáhrif byggðar, samgangna og landnotkunar og aðlögun að loftslagsbreytingum.

Við breytingar á Stjórnarráðinu var málaflokkurinn fluttur til innviðaráðuneytisins. Innviðaráðherra hefur ákveðið að endurskoða Landsskipulagsstefnu 2015-2026 og tillögu að viðauka um loftslag, landslag og lýðheilsu. Landsskipulagsstefna verður unnin undir stjórn innviðaráðuneytisins til samræmis við aðra stefnumótun í málaflokkum ráðuneytisins.

Framkvæmd

Sveitarfélögum verður gert kleift að ná frekari árangri í loftslagsmálum í gegnum skipulagsgerð. Þetta verður gert með tillögu til Alþingis að þingsályktun í gegnum viðauka við Landsskipulagsstefnu 2015-2026.

Landsskipulagsstefna felur í sér stefnu ríkisins í skipulagsmálum og almenn sjónarmið til leiðbeiningar við skipulagsgerð sveitarfélaga. Umhverfis- og auðlindaráðherra fól Skipulagsstofnun sumarið 2018 að vinna tillögu að breytingu á landsskipulagsstefnunni þar sem mótuð yrði nánari stefna um loftslagsmál, landslag og lýðheilsu í tengslum við framkvæmd skipulagsmála. Tillaga Skipulagsstofnunar verður kynnt haustið 2020.

Í skipulagsáætlunum sveitarfélaga er mótuð stefna um þróun byggðar, nýtingu lands og uppbyggingu innviða. Þær eru mikilvægur vettvangur til að takast á við loftslagsbreytingar, bæði hvað varðar mótvægisaðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og aðlögun að loftslagsbreytingum. Í landsskipulagsstefnu verður sett fram stefna og leiðbeiningar um hvernig beita megi skipulagsgerð til að stuðla að og tryggja víðtækar og viðeigandi aðgerðir í loftslagsmálum í tengslum við landnýtingu og hið byggða umhverfi. Má þar nefna samþætt byggðar- og samgönguskipulag sem dregur úr ferðaþörf og tryggir innviði fyrir orkuskipti. Einnig má nefna aðgerðir til að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga með aðlögun, svo sem með grænum innviðum, varnarmannvirkjum og útfærslu byggðar með tilliti til hækkunar sjávarborðs.

Aðgerðin er unnin af Skipulagsstofnun í samvinnu við ráðuneyti, sveitarfélög og fleiri aðila. Umhverfis- og auðlindaráðherra leggur fram tillögu til þingsályktunar fyrir Alþingi. Aðgerðin tengist ýmsum öðrum aðgerðum í áætluninni, svo sem aðgerðum I.1-I.3 um eflingu skógræktar, landgræðslu og endurheimt votlendis, og aðgerðum A.1-A.3 um breyttar ferðavenjur, virka ferðamáta og eflingu almenningssamgangna.

Ábyrgð

Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Árangursmælikvarði

Viðauki að landsskipulagsstefnu sé samþykktur á Alþingi.

Viðaukinn hefur ekki verið samþykktur.

Áhrif á ríkissjóð

Kostnaður kemur ekki af fjármagni sem sérstaklega er eyrnamerkt loftslagsmálum. Árlegur kostnaður við vinnslu og framfylgd landsskipulagsstefnu, þar á meðal við gerð nýs viðauka um loftslag, landslag og lýðheilsu, er áætlaður 20-40 milljónir króna.

Áhrif á losun

Ekki er hægt að meta áhrif aðgerðarinnar þar sem um er að ræða stjórntæki sem styður með margvíslegum hætti við fjölmargar einstakar aðgerðir. Væntur árangur felst meðal annars í samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum og landnotkun og aukinni kolefnisbindingu með skógrækt og landgræðslu.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum