Hoppa yfir valmynd
D. Flúorgös og efnanotkun

Lýsing

D.1 Reglugerð um F-gös - Aðgerðin felur í sér að draga úr losun tiltekinna flúoraðra gróðurhúsalofttegunda (F-gasa) með setningu reglugerðar um innflutningsheimildir.

Staða


Aðgerðin er í framkvæmd.

Reglugerð um flúoraðar gróðurhúsalofttegundir (F-gös) tók gildi 2010. Breyting sem gerð var á reglugerðinni í lok árs 2018 hefur í för með sér að dregið verður í þrepum úr því magni F-gasa sem heimilt verður að flytja til landsins. Aðgerðin felur í sér að setja nýja reglugerð um F-gös með frekari samdrætti.

Breyting á reglugerð nr. 1066/2019[1] um flúoraðar gróðurhúsalofttegundir (kvóti) tók gildi 1. janúar 2021. Breytingin hraðar útfösuninni á vetnisflúorkolefnum (HFC-efnum), en hámarksmagn sem heimilt er að flytja inn til landsins ár hvert er ákveðið út frá ákveðinni grunnlínu sem byggð er á meðalinnflutningsmagni árin 2011-2013 lagt saman við 15% af grunnlínu fengna frá Ósonskrifstofu umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna sem byggist á tölum frá árinu 1989. Breytingin hefur þá þýðingu að það hámarksmagn vetnisflúorkolefna sem heimilt er að flytja inn á árinu 2021 er ekki nema 38% af því magni sem flytja mátti inn á árinu 2020. Magnið fer því úr því sem nemur tæplega 250 þús. tonnum koldíoxíðjafngilda í tæp 95 þús. tonn. Meginmarkmið þeirrar breytingar sem felst í þessum nýja viðauka við reglugerð um flúoraðar gróðurhúsalofttegundir er að minnka losun gróðurhúsalofttegunda með því að draga hraðar úr notkun umræddra miðla en áður hafði verið ákveðið. Þannig er gert ráð fyrir að árið 2036 verði einungis heimilt að flytja inn rúmlega 30 þús. tonn koldíoxíðjafngilda af vetnisflúorkolefnum, sem eru um 12% af heimiluðum innflutningi 2020.

Með ofangreindri breytingu á reglugerðinni er verið að hraða enn frekar útfösun HFC-efna og er útfösunin hraðari en sú sem Kigali-breytingin á Montréal-bókuninni segir til um. Ísland fékk afhent staðfestingarskjal vegna Kigali í febrúar 2021.

Setningu reglugerðar um innflutningsheimildir er lokið og hefur dregið mikið úr innflutningi tiltekinna F-gasa.


[1] www.reglugerd.is/reglugerdir/eftir-raduneytum/umhverfis--og-audlindaraduneyti/nr/21708

Framkvæmd

Heimildir til að flytja inn flúoraðar gróðurhúsalofttegundir munu minnka í þrepum fram til ársins 2036 samkvæmt ákvæðum reglugerðar sem sett var í desember 2018. Með þessu var innleidd reglugerð (ESB) nr. 517/2014 um flúoraðar gróðurhúsalofttegundir.

Reglugerðin hefur í för með sér að dregið verður í þrepum úr því magni F-gasa sem heimilt verður að flytja til landsins. Á tímabilinu 2019-2023 verður til að mynda heimilt að flytja inn árlega 90% af meðaltalsmagni F-gasa sem flutt var inn á ákveðnu árabili þar á undan. Á tímabilinu 2029-2033 verður árlegt magn komið niður í 30% og síðasta þrepið verður 15% árið 2036.

Ýmis önnur ákvæði eru í reglugerðinni sem miða að því að draga enn frekar úr losun F-gasa, svo sem frekari takmarkanir á markaðssetningu þeirra og notkun. Má þar nefna bann við áfyllingu stórra kerfa með F-gösum sem hafa afar háan hnatthlýnunarmátt, að lágmarki 2500 sinnum meiri en koltvíoxíðs (CO2).

Setning reglugerðarinnar markar mikilvæg skref við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá notkun F-gasa hér á landi. Umhverfisstofnun hefur eftirlit með reglugerðinni í samræmi við ákvæði efnalaga. Kröfur verða hertar enn ef þurfa þykir.

Aðgerðin hefur verið útfærð frá fyrstu útgáfu og gerð að sérstakri aðgerð.

Ábyrgð

Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Árangursmælikvarði

Hlutfall F-gasa með lágum, miðlungs- og háum hnatthlýnunarmætti.

GWP (Global Warming Potential) eða hnatthlýnunarmáttur er mælieining á getu efnasambanda til að valda loftslagshlýnun samanborið við mátt koldíoxíðs. Mælieiningin er reiknuð sem hlýnunarmáttur tiltekins massa af gróðurhúsalofttegund í 100 ár sem hlutfall af hlýnunarmætti sama massa af koldíoxíði.[1] Þannig eru koldíoxíðjafngildi, stundum kölluð koldíoxíðígildi, margfeldi hnatthlýnunarmáttar efnis og magns efnisins í viðeigandi massaeiningu. Eitt tonn koldíoxíðjafngilda er eitt tonn af koldíoxíði eða magn annarra gróðurhúsalofttegunda sem hefur sama hnatthlýnunarmátt.

F-gösum er skipt í þrjá flokka eftir hnatthlýnunarmætti: Lágur er minni en 750, miðlungs er frá 750 til 2500 og hár er hærri en 2500. Sjá frekari útskýringar á F-gösum á heimasíðu Umhverfisstofnunar.[2]

 

Mynd 33 Magn innfluttra F-gasa eftir hlýnunarmætti árin 2017-2021

Mynd 33 sýnir góðan árangur við að draga úr innflutningi tiltekinna F-gasa. Innflutt magn F-gasa flokkað eftir hlýnunarmætti hefur þróast þannig að magn F-gasa með háan hlýnunarmátt fer minnkandi og er þróunin því í rétta átt.

 

Mynd 34 Heildarhnatthlýnunarmáttur innfluttra F-gasa árin 2017-2021

 

[1] Sjá nánar um F-gös á heimasíðu Umhverfisstofnunar https://ust.is/atvinnulif/efni/fluoradar-grodurhusalofttegundir/hnatthlynunarmattur-hfc-efna/

[2] https://ust.is/atvinnulif/efni/fluoradar-grodurhusalofttegundir/

Áhrif á ríkissjóð

Aðgerðin hefur ekki í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð.

Áhrif á losun

Áætlað er að losun frá F-gösum muni árið 2030 hafa dregist saman um 55 þúsund tonn af CO2-ígildum miðað við spá um þróun samkvæmt grunnsviðsmynd.

 

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum