Hoppa yfir valmynd
A. Samgöngur á landi

Lýsing

A.10 Skylda ríkisaðila til að kaupa vistvænar bifreiðar - Aðgerðin felur í sér að ríkisaðilar verði skyldaðir til að kaupa vistvænar bifreiðar við endurnýjun bílaflota síns.

Staða


Aðgerðin er í framkvæmd.

Ríkisaðilar hafa enn heimild til að kaupa bifreiðar sem ekki eru vistvænar krefjist öryggis- eða notkunarkröfur þess. Til að mynda er ekki að svo stöddu nægjanlegt úrval stórra, vistvænna jeppa á markaði en sumir þeirra ríkisaðila sem mest kaupa af bifreiðum þurfa slíka bíla starfseminnar vegna.

Fyrsta sameiginlega örútboð ríkisaðila á rafmagnsbifreiðum frá því að stefnan var samþykkt fór fram um um áramótin 2020-2021 og voru þá keyptar 15 rafmagnsbifreiðar. Stærra útboð var haustið 2021 og hlutfall vistvænna birfeiða á seinni árshelmingi var mun hærra eða 53%. Unnið er að því að styrkja innleiðingu stefnunnar, m.a. samhliða nýjum rammasamningi Ríkiskaupa um bifreiðakaup.

Framkvæmd

Allir bílar ríkisins verða vistvænir samkvæmt skyldu, nema öryggis- eða notkunarkröfur krefjist annars. Ríkisaðilar kaupa því að meginreglu ekki nýja bensín- og dísilbíla frá og með árinu 2020.

Ríkisstjórn Íslands samþykkti stefnu þessa efnis árið 2019. Ríkiskaup og svokölluð bílanefnd bera ábyrgð á nýju verklagi, og þeim stofnunum sem stefna að því að kaupa bifreið er skylt að taka þátt í sameiginlegum útboðum þar sem útboðslýsingar tryggja að keyptar verði vistvænar og hagkvæmar bifreiðar. Þetta geta verið bifreiðar knúnar rafmagni, vetni, metani eða öðrum orkugjöfum.

Ríkið rekur um 800 bifreiðar af öllum stærðum og gerðum. Aðgerðin snýst um að umbreyta flotanum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en einnig að varða veginn fyrir nýskráningarbann bensín- og dísilbíla hér á landi (sjá aðgerð A.7) og ná fram ruðningsáhrifum út í samfélagið. Áhersla er einnig lögð á að ríkisaðilar verði leiðandi vinnustaðir varðandi hleðslumöguleika fyrir rafbíla. Rafhleðslustöðvar eru nú til dæmis við öll ráðuneyti og hleðslumöguleikum þar hefur markvisst verið fjölgað.

Ríkisstjórnin samþykkti í nóvember 2018 að allar ráðherrabifreiðar yrðu rafvæddar og er það verkefni þegar hafið. Um helmingur ráðherrabílanna gengur nú að fullu eða að hluta fyrir rafmagni og áætlanir gera ráð fyrir að í árslok 2022 muni allir ráðherrabílarnir ganga að fullu fyrir rafmagni.

Aðgerðin tengist aðgerðum í ríkisrekstri (sjá aðgerðir G.6-G.11).

Ábyrgð

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Árangursmælikvarði

Hlutfall vistvænna bifreiða í nýskráningum ríkisbifreiða.

Tölurnar í töflu 5 sýna fjölda fólks- og sendibifreiða í eigu ríkisaðila í A-, B- og C-hluta ríkisins eftir nýskráningarári í ökutækjaskrá.[1]

Tafla 5 Nýskráðar ríkisbifreiðar (notaðar og nýjar bifreiðar)


2019

2020

2021

Heildarfjöldi skráninga

81

97

82

- þar af vistvæn ökutæki

23

32

32

- hlutfall vistvænna ökutækja

28%

33%

 39%

Mynd 24 Hlutfall vistvænna bifreiða í nýskráningum ríkisbifreiða árin 2019- 2022

Hlutfall vistvænna bifreiða af nýskráningum ríkisins hækkaði úr 29% árið 2019 í 34% árið 2020.


[1] Viðskiptabankar í C-hluta ríkisins eru ekki taldir með. Í töflunni eru notaðar bifreiðar taldar með því ári sem þær eru nýskráðar. Bifreið sem er skráð árið 2019 en keypt árið 2020 telst því til ársins 2019 í töflunni, svo dæmi sé tekið.

Áhrif á ríkissjóð

Samkvæmt eignakerfi ríkisins er skráð bókfært virði bifreiða 1,84 milljarðar króna. Ætla má að árleg endurnýjunarþörf nemi tæplega 300 milljónum króna, sem eru rúmlega 60 bifreiðar sé litið til meðalkaupverðs. Þótt stofnkostnaður bifreiðakaupa hækki hjá stofnunum vegna aðgerðarinnar má gera ráð fyrir lægri rekstrarkostnaði við hverja bifreið.

Áhrif á losun

Áætlað er að með þessari aðgerð muni losun frá vegasamgöngum árið 2030 hafa dregist saman um tæplega 900 tonn af CO2-ígildum miðað við spá um þróun samkvæmt grunnsviðsmynd. Gera má ráð fyrir að aðgerðin hafi í för með sér ruðningsáhrif, þ.e. að fleiri fylgi í kjölfarið með tilheyrandi samdrætti í losun. Ekki er þó hægt að meta þann samdrátt.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum