Hoppa yfir valmynd
A. Samgöngur á landi

Lýsing

A.9 Vistvænir bílaleigubílar - Aðgerðin felur í sér að hraða innleiðingu vistvænna bílaleigubíla hér á landi.

Staða


Aðgerðin er í vinnslu.

Greining[1] hefur verið gerð á uppbyggingarþörf vegna bílaleigubíla þar sem m.a. var sérstaklega horft til þess hvaða innviði þurfi við Keflavíkurflugvöll. Stuðningur verður veittur til uppsetningar hleðslustöðva við gististaði og fjölsótta ferðamannastaði í gegnum Orkusjóð sem mun styðja við vistvænan bílaflota hjá bílaleigum, sbr. aðgerð A.5.

Auk þeirra ívilnana sem tilgreindar eru í aðgerðaáætluninni eru nú í gildi auknar tímabundnar ívilnanir til að stuðla að orkuskiptum í bílaleigubílum. Á árunum 2021 og 2022 er sú losun (CO2) ökutækja sem vörugjald reiknast af lækkað um 30% í tilfelli ökutækja sem ætluð eru til útleigu. Lækkunin getur þó aldrei numið hærri fjárhæð en 400.000 kr. á hvert ökutæki. Ökutækjaleigan skuldbindur sig á móti til að haga innkaupum sínum þannig að rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbílar verði 15% árið 2021 og 25% árið 2022 af heildarinnkaupum bifreiða.

Þá var gerð breyting á lögum um virðisaukaskatt sem samþykkt voru á Alþingi í desember 2020 og tók gildi 1. janúar 2021. Með breytingunni var ákveðið að sala notaðra vistvænna bifreiða á eftirmarkaði væri undanþegin virðisaukaskatti að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Ívilnunin gildir til ársloka 2023 og kemur m.a. ökutækjaleigum til góða. Með breytingum á lögum um virðisaukaskatt sem samþykktar voru í júní 2022 var heimildin rýmkuð. Sjá einnig aðgerð A.4.


[1] https://www.stjornarradid.is/library/02-Rit--skyrslur-og-skrar/Rafv%c3%a6%c3%b0ing%20b%c3%adlaleigub%c3%adla%20%c3%a1%20%c3%8dslandi%20-febr%c3%baar%202021.pdf

Framkvæmd

Innleiðingu vistvænna bílaleigubíla verður markvisst hraðað í samvinnu við bílaleigur. Bílaleigur eru kaupendur að um 40% af nýseldum bílum á Íslandi og hvergi í heiminum er hlutfallið svo hátt. Árið 2018 nýttu um 60% ferðamanna bílaleigubíla í heimsókn sinni til Íslands.

Samkvæmt greiningu Íslenskrar NýOrku, sem unnin var í formennskutíð Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2019, hafa flest bílaleigufyrirtæki hér á landi mikinn áhuga á að innleiða hreinorkubifreiðar í starfsemi sína. Ýmsar hindranir eru þó álitnar vera í veginum.

Aðgerðin miðar í fyrstu að því að greina helstu hindranir og tækifæri til að hraða orkuskiptum í bílaflotum bílaleiga og verður það gert með ítarlegri þarfa- og kostnaðargreiningu. Meðal þess sem farið verður í saumana á eru innviðir og skipulag við Keflavíkurflugvöll, möguleikar varðandi aðra vistvæna bíla en rafbíla og hver eigi að eiga innviðina. Verkefnisstjórn um orkuskipti tekur síðan á móti greiningunni og vinnur tillögur um næstu skref.

Aðgerðin tengist aðgerð A.4 um ívilnanir fyrir vistvæn ökutæki en með breytingum sem tóku gildi í byrjun árs 2020 til að hraða orkuskiptum í vegasamgöngum varð útleiga bílaleiga á vistvænum bifreiðum undanþegin VSK-skyldri veltu.

Aðgerðin tengist einnig aðgerð A.5 um innviði fyrir vistvæn ökutæki en þegar hefur verið ráðist í sérstakt innviðaverkefni til að koma upp hleðslustöðvum við gististaði hringinn í kringum landið. Þannig er unnið eftir margvíslegum leiðum að því að hraða innleiðingu vistvænna bílaleigubíla hér á landi.

Ábyrgð

Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Árangursmælikvarði

  • Hlutfall vistvænna bifreiða af nýskráðum bifreiðum bílaleigufyrirtækja.

Mynd 23 Hlutfall vistvænna bifreiða af nýskráðum bifreiðum bílaleigufyrirtækja frá 2019

Eins og sést á Mynd 23 hækkaði hlutfall vistvænna bifreiða af nýskráningum bifreiða hjá bílaleigufyrirtækjum úr 4% árið 2019 í 14% árið 2020. Með nýjum ívilnunum sem gilda fyrir árin 2021 og 2022 er reiknað með að þetta hlutfall hækki enn frekar.

Áhrif á ríkissjóð

Áhrif á ríkissjóð liggja ekki fyrir en felast að svo stöddu einungis í kostnaði vegna greiningar.

Áhrif á losun

Möguleg áhrif á losun liggja ekki fyrir. Til að gefa hugmynd um stærðir myndi markmið um að 30-50% bílaleigubíla væru orðnir vistvænir árið 2030 skila samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda um 28-46 þúsund tonn CO2-ígilda miðað við spá um þróun samkvæmt grunnsviðsmynd. Þar sem aðgerðin er í mótun eru áhrif á samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda ekki reiknuð inn í aðgerðaáætlunina.

 

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum