Hoppa yfir valmynd

B.2 Rafvæðing hafna

B. Skip og hafnir

Lýsing

Aðgerðin felur í sér að stuðla að enn frekari rafvæðingu við hafnir landsins.

Staða


Aðgerðin er í framkvæmd.


Meginniðurstaða skýrslu um landtengingar hafna[1] sem kynnt var í júní 2021 er að staða hafnartenginga er almennt góð og að skip eru í flestum tilfellum tengd ef hægt er. Landtengingar duga þó ekki fyrir alla starfsemi fiskiskipa, s.s. við löndun. Einnig eru víða áform uppi hjá höfnunum um að bæta tengingar.

Rafmagnsnotkun í þeim höfnum sem tóku þátt í könnuninni hljóðar upp á 20 GWst sem svarar til 6.000 tonna af koldíoxíði væri notuð olía í stað rafmagns.

Skýrsluhöfundar leggja til eftirfarandi aðgerðir:

 1. Þróað verði samræmt stöðlunarskjal um tengisnið, hlutverk aðila og tenglagerðir.
 2. Miðlægur kortagrunnur sem sýnir tengimöguleika í höfnum verði settur á laggirnar.
 3. Næstu skref varðandi styrkveitingar ættu að miða við þarfir eftirfarandi skipaflokka í höfnum:
  • Uppsjávarskip við löndun
  • Farmflutningaskip Samskips og Eimskips
  • Erlend fiskiskip sem þurfa 60 rið
  • Minni skemmtiferðaskip (Explorer-skip)

Starfshópur um orkuskipti er með ofangreind verkefni til skoðunar. Þess má geta að vinna er hafin hjá Staðlaráði Íslands um landtengingar. Þá mun Orkusjóður/Orkustofnun í samvinnu við Vegagerðina taka að sér að gera kort yfir landtengingar og aðra innviði fyrir endurnýjanlegt eldsneyti. Horft verður til niðurstöðu skýrslunnar um notkunarflokka þegar og ef kemur til frekari stuðnings til hafna.


[1] https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2021/06/09/Vefvidburdur-i-dag-Rafvaeding-hafna-og-notkun-a-umhverfisvaenni-orkugjofum-fyrir-skip/

Framkvæmd

Markvisst verður unnið að enn frekari rafvæðingu við hafnir vítt og breitt um landið.

Á árinu 2020 verða auglýstir styrkir til innviðaverkefna vegna raftengingar og hitaveitna fyrir skip í höfn í því skyni að draga úr bruna jarðefnaeldsneytis skipa sem liggja við bryggju. Þetta mun nýtast millistórum skipum, stórum togurum, ferjum og þjónustuskipum.

Ferðaþjónustuaðilar munu einnig geta sótt um styrki en í haftengdri ferðaþjónustu eru margvísleg tækifæri til rafvæðingar og má þar nefna hvalaskoðunarbáta og minni báta sem sigla með ferðamenn styttri vegalengdir til og frá sömu höfn. Ólíkt stærri fiskiskipum, þurfa ferðaþjónustubátar sem fara margar ferðir á dag aðgengi að hraðhleðslustöðvum, en þær eru enn sem komið er fátíðar við hafnir landsins.

Lagt er upp með að ofangreind verkefni sem verði styrkt lúti samtímis að breytingum á skipakosti og innviðauppbyggingu á landi. Styrkir munu geta numið allt að 33% af útlögðum stofnkostnaði. Markmiðið er að raftengingar sem fullnægja raforkuþörf til allrar almennrar starfsemi skipa í höfnum verði aðgengilegar fyrir árið 2025.

Fram til þessa hefur við rafvæðingu hafna verið lögð áhersla á uppsetningu lágspennuinnviða, sem flest fiskiskip og önnur smærri skip geta nýtt sér þegar þau eru í höfn. Óvíða eru hins vegar til staðar tengingar fyrir skip sem hafa aflþörf yfir 500 kW, svo sem skemmtiferðaskip. Greina þarf möguleika á uppsetningu háspennuvirkja í höfnum út frá mögulegum árangri og kostnaði, en þar er meiri óvissa um hagkvæmni og ávinning miðað við tilkostnað. Jafnframt þarf að gera athugun á hagkvæmni varaafls í höfnum til að koma til móts við sveiflukennda notkun og væri mögulega hægt að mæta henni með vetni.

Aðgerðin er unnin af verkefnastjórn um orkuskipti, í samstarfi við sveitarfélög og hafnaryfirvöld.

Ábyrgð

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Árangursmælikvarði

Í mótun, sbr. ofangreint.

Styrkir hafa verið veittir til rafvæðingar hafna. Unnið verður kort yfir landtengingar og innviði fyrir endurnýjanlegt eldsneyti.

Áhrif á ríkissjóð

Kostnaður vegna orkuskipta kemur af fjármagni sem sérstaklega er eyrnamerkt loftslagsmálum. Um er að ræða 1,75 milljarða króna á fimm ára tímabili (2019-2023) til uppbyggingar innviða fyrir rafbíla, rafvæðingar hafna og fleiri nauðsynlegra aðgerða í orkuskiptum. Fjármunir hafa auk þess verið tryggðir fyrir árið 2024. Af þessu fjármagni verður á árinu 2020 varið allt að 70 milljónum króna til að styrkja innviðauppbyggingu vegna raftengingar og hitaveitna vegna skipa í höfn.

Í sérstöku fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar árið 2020 vegna efnahagsáhrifa Covid-19 heimsfaraldursins er auk þess gert ráð fyrir 300 milljónum króna aukalega til orkuskipta – þar af 210 milljónum króna til að stuðla að enn frekari rafvæðingu hafna. Styrkir hafa þegar verið veittir til þeirra hafna sem lögðu fram verkefni sem féllu að skilyrðum átaksins, alls 10 talsins.

Áhrif á losun

Áætlað er að með þessari aðgerð muni losun vegna skipa í höfn árið 2030 hafa dregist saman um tæp 11 þúsund tonn af CO2-ígildum miðað við spá um þróun samkvæmt grunnsviðsmynd.

 

Ábyrgð

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Til baka
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira