Hoppa yfir valmynd
G. Hvatar til umskipta

Lýsing

G.9 Loftslagsstefna Stjórnarráðsins, Aðgerðin felur í sér að gera Stjórnarráðið að fyrirmynd í loftslagsmálum og hafa þannig áhrif á stofnanir, fyrirtæki og almenning.

Staða


Aðgerðin er í framkvæmd.

Loftslagsstefna Stjórnarráðsins var samþykkt í ríkisstjórn í apríl 2019. Verkefnastjórn stefnunnar vinnur ásamt tengiliðum allra ráðuneyta að því að fylgja aðgerðaáætlun stefnunnar eftir.

Öll „eldri“ ráðuneyti hafa náð öllum fimm grænu skrefunum í ríkisrekstri og hafin er vinna við innleiðingu þeirra í nýrri ráðuneytum sem urðu til við síðustu ríkisstjórnarskipti. Þá hefur þátttaka ríkisstofnana í Grænum skrefum stóraukist og er þorri þeirra nú skráður til leiks í verkefninu. Samhliða hefur verið unnið að ýmsum verkefnum á vettvangi Loftslagsstefnu Stjórnarráðsins, s.s. greiningu á nýtingu fjarfunda í alþjóðastarfi með það að markmiði að draga úr losun vegna flugferða, kolefnisjöfnun starfsemi ráðuneytanna, innleiðingu fræðslukerfis um kolefnisspor matvæla í mötuneytum Stjórnarráðsins og könnun á ferðavenjum til og frá vinnu.

Samgöngusamningar sem hvetja til vistvænna ferðamáta starfsfólks hafa verið efldir og breytingar verið gerðar á viðverustefnu Stjórnarráðsins til að auðvelda heimavinnu sem dregur úr ferðaþörf starfsmanna.

Stærsti losunarþáttur Stjórnarráðsins er flug vegna alþjóðastarfs en vegna heimsfaraldurs Covid-19 minnkaði losun vegna flugs umtalsvert á árinu 2020 og 2021. Þótt flug hafi aftur aukist vegna funda er búist við að fjarfundir verði áfram hluti af alþjóðastarfi ráðuneytanna. Því má ætla að markmið um 2% samdrátt í losun vegna flugs náist varanlega fyrir árslok 2022.

Framkvæmd

Loftslagsstefna Stjórnarráðsins er áætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum í eigin ranni og aðgerðin tengist beint loftslagsstefnu annarra opinberra aðila (sjá aðgerð G.10).

Dregið verður markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda í allri starfsemi Stjórnarráðsins auk þess sem öll losun verður kolefnisjöfnuð og meira til. Unnið er samkvæmt aðgerðaáætlun sem gildir út árið 2022 og er undirbúningur vegna uppfærðrar aðgerðaáætlunar hafinn.

Stefnan hefur margfeldisáhrif því hún beinir kastljósinu að mikilvægi þess að stofnanir og fyrirtæki hugsi um kolefnisspor sitt og setji sér loftslagsstefnu. Auk þess eykur hún eftirspurn eftir loftslagsvænni lausnum í samfélaginu, svo sem visthæfum leigubílum og bílaleigubílum sem og öflugum samgöngusamningum.

Ábyrgð

Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Árangursmælikvarði

Losun gróðurhúsalofttegunda á hvert stöðugildi í Stjórnarráðinu.

 

Mynd 47 Losun gróðurhúsalofttegunda á hvert stöðugildi í Stjórnarráðinu árin 2018-2022

Á Mynd 47 má sjá að losun gróðurhúsalofttegunda á hvert stöðugildi var svipuð árin 2018 og 2019 en dróst verulega saman árin 2020 og 2021 vegna heimavinnu starfsmanna í Covid-19. Losunin eykst svo á ný árið 2022 þegar dró úr heimavinnu á nýjan leik.

Uppreiknuð heildarlosun Stjórnarráðsins fyrir viðmiðunarárið 2018 var 1437 tonn, eða um 2,18 tonn á stöðugildi. Sambærilegar tölur fyrir 2022 eru 933 tonn í heildina, eða um 1,16 tonn á stöðugildi. 

Áhrif á ríkissjóð

Kostnaður við vinnslu Loftslagsstefnu Stjórnarráðsins var 8,5 milljónir króna. Ákvörðun um frekari eftirfylgni er tekin eftir því sem verkefninu vindur fram.

Áhrif á losun

Væntur samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda er mestur í alþjóðaflugi. Alþjóðaflug heyrir ekki undir beina ábyrgð Íslands en samdráttur í losun þar er á hinn bóginn mikilvægur fyrir loftslagið. Sá samdráttur sem heyrir undir beina ábyrgð Íslands jafngildir 165 tonnum af CO2-ígildum árið 2030 miðað við spá um þróun samkvæmt grunnsviðsmynd. Samdráttur sem verður vegna mögulegra ruðningsáhrifa aðgerðarinnar er ekki metinn.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum