Hoppa yfir valmynd
C. Orkuframleiðsla og smærri iðnaður

Lýsing

C.3 Loftslagsáhrif byggingariðnaðarins - Aðgerðin felur í sér að leita leiða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá byggingariðnaði.

Staða


Aðgerðin er í framkvæmd.

Vegvísir byggingariðnaðarins var nýlega kynntur og er verkefnið „Byggjum grænni framtíð“ samstarfsverkefni hagaðila byggingariðnaðarins og stjórnvalda um vistvænni mannvirkjagerð. Verkefnið felst í því að meta árlega losun mannvirkjageirans með það að markmiði að draga úr losun hans.

Verkefnið er í þremur fösum (þrír vegvísar) sem felast í að meta losun, setja markmið til að draga úr þeirri losun og skilgreina aðgerðir til að ná þeim markmiðum. Losun gróðurhúsalofttegunda frá byggingariðnaði á Íslandi verður að stærstum hluta á byggingartíma og tengist efnisvali, innflutningi á byggingarefnum sem og notkun véla og tækja, meðal annars vegna flutninga á jarðefni. Steypa er áhrifaríkasti einstaki þátturinn í kolefnisspori íslenskrar mannvirkjagerðar.

Með breytingum á steypukafla byggingarreglugerðar sem fór í samráðsgátt í maí 2022 er miðað við að það náist 20-30% samdráttur á losun vegna steypu, sem getur numið allt að 6% samdrætti á losun frá íslenskum byggingum. Einungis lítill hluti losunarinnar, fellur undir beinar skuldbindingar Íslands og er þar stærsti losunarþátturinn notkun véla og tækja í byggingariðnaði, en mikilvægt er að draga úr losun, sama hvar hún er bókfærð.

Draga má úr umhverfisáhrifum byggingariðnaðarins með margvíslegum hætti. Meðal annars er má velja umhverfisvænni byggingarefni og byggja mannvirki sem standast kröfur um umhverfisvottun. Þá er mögulegt að bæta orkunýtingu við rekstur mannvirkja og auka flokkun og endurvinnslu byggingar- og niðurrifsúrgangs.

Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á heimasíðu þess, byggjumgraenniframtid.is.

Framkvæmd

Unnið verður markvisst að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá byggingariðnaðinum hér á landi.

Í bókhaldi Íslands um losun gróðurhúsalofttegunda er ekki auðvelt að rekja loftslagsáhrif byggingariðnaðarins en stærsti hluti hennar virðist eiga sér stað á byggingartíma og tengjast efnisvali, innflutningi byggingarefna og notkun véla og tækja, meðal annars vegna flutninga á jarðefni. Aðeins lítill hluti losunarinnar, þ.e.a.s. notkun véla og tækja, fellur undir beinar skuldbindingar Íslands. Mikilvægt er hins vegar að draga úr losun sama hvar hún er bókfærð.

Eftir að fyrsta útgáfa aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum kom út var að frumkvæði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins ráðist í fjölmargar rannsóknir sem tengjast loftslags- og umhverfismálum byggingariðnaðarins. Má þar nefna rannsóknarverkefni um loftslagsáhrif byggingariðnaðarins, lífsferilsgreiningar og meðhöndlun úrgangs en einnig rannsókn á frostheldinni umhverfisvænni steinsteypu. Niðurstöður þessara rannsókna munu liggja fyrir hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands á næstunni.

Til viðbótar hefur Grænni byggð unnið greiningu á hringrásarhagkerfinu og byggingariðnaðinum, byggingarúrgangur verið kortlagður, gefnar út leiðbeiningar um meðhöndlun byggingarúrgangs og til að mynda unnin upplýsingarit og úttektir á umhverfisvottunum, BREEAM og Svaninum ásamt fleiru.

Til að vinna áætlun um samdrátt í losun frá byggingariðnaðinum byggða á ofangreindum verkefnum og rannsóknum, auk þess að stuðla að minni umhverfisáhrifum frá byggingargeiranum, hefur samstarfsverkefni undir stjórn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar verið sett af stað. Verkefnið byggist á breiðum grundvelli fyrirtækja úr allri virðiskeðju byggingariðnaðarins, ásamt félagsmálaráðuneyti sem hefur umsjón með mannvirkjamálum á Íslandi og umhverfis- og auðlindaráðuneyti sem ber ábyrgð á loftslagsmálum. Samráð verður auk þess haft við önnur ráðuneyti og opinberar stofnanir eftir atvikum. Gert er ráð fyrir að tillögum að áætlun verði skilað til ráðuneytanna eigi síðar en 1. nóvember 2020. Meðal þess sem verður kannað er hvort gera skuli kröfu um að við allar opinberar byggingar skuli litið til umhverfisvottana, svo sem Svansvottunar.

Ábyrgð

Innviðaráðuneytið

Árangursmælikvarði

Notkun jarðefnaeldsneytis á þungavinnuvélar í byggingariðnaði.[1]

 

Mynd 31 Notkun jarðefnaeldsneytis á þungavinnuvélar í byggingariðnaði árin 2019 og 2020

 

[1] Notkunarskrá Orkustofnunar (gögn send á Umhverfisstofnun fyrir losunarbókhald). Gögnin eru einungis til fyrir árin 2019 og 2020 þar sem flokkunin var ekki svona ítarleg fyrir þann tíma.

Áhrif á ríkissjóð

Aðgerðin felur að svo stöddu ekki í sér kostnað fyrir ríkissjóð. Kostnaður við ofangreindar rannsóknir sem tengjast loftslags- og umhverfismálum byggingariðnaðarins var 57 milljónir króna árið 2018 og kom ekki af fjármunum sem eyrnamerktir eru sérstaklega til loftslagsmála.

Áhrif á losun

Aðgerðin er í mótun og áhrif á samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda eru því ekki reiknuð inn í aðgerðaáætlunina að svo stöddu.

 

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum