Hoppa yfir valmynd
G. Hvatar til umskipta

Lýsing

Aðgerðin felur í sér fræðslu um loftslagsmál til almennings.

Staða


Aðgerðin er í framkvæmd.

Stutt hefur verið við fjölda verkefna sem miða að fræðslu til almennings um loftslagsmál.

Loftslagsjóður hefur verið starfræktur síðan 2019 en úthlutað var úr sjóðunum í fyrsta skipti árið 2020. En sjóðurinn styrkir bæði nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála og verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu um loftslagsbreytingar. Sjá nánar um Loftslagssjóð undir aðgerð G.2.

Háskólasamfélagið og Vísinda- og tækniráð hafa lagt áherslu á loftslagsmál og einnig upplýsingamiðlun til almennings.[1]

Í Vísinda- og tæknistefnu fyrir árin 2020-2022 er aðgerð[2] sem snýr að því að skapa umgjörð og áætlun um hvernig aðgangur almennings að gagnreyndum upplýsingum og miðlun vísindalegra aðferða og vísinda sé tryggð á Íslandi til lengri tíma. Unnið verður sérstaklega að miðlun þekkingar á sviði loftslagsmála með það fyrir augum að þróa aðferðir sem síðar geti nýst öðrum sviðum. 

Stjórnvöld hafa einnig styrkt með beinum hætti fjölda fræðsluverkefna um loftslagsmál og munu halda því áfram. Má þar nefna sjónvarpsþættina „Hvað getum við gert?“ sem sýndir hafa verið á RÚV árið 2021. Í þáttunum er lögð áhersla á til hvaða ráða einstaklingar, atvinnulíf og stjórnvöld geta gripið í baráttunni gegn loftslagsvánni. Þættirnir eru framhald þáttanna „Hvað höfum við gert?“ sem sýndir voru á RÚV árið 2019, en þeir þættir voru einnig gerðir með styrk frá stjórnvöldum

Framhald verður á styrk til verkefnisins „Hörfandi jöklar“ en það miðar að fræðslu til almennings á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs byggðri á jöklavöktun Veðurstofu Íslands og jöklavöktun Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands sem unnin er í samvinnu við Landsvirkjun.

Í verkefnastyrkjum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins hefur einnig verið lögð áhersla á samstarfsverkefni félagasamtaka, almennings og annarra um fræðslu og eflingu hringrásarhagkerfisins og loftslagsmála.

Eitt af verkefnum Loftslagsráðs eins og það er skilgreint í lögum um loftslagsmál nr. 70/2021 er að hafa yfirsýn yfir miðlun fræðslu og upplýsinga. Ráðið fylgist með nýjum fræðsluverkefnum, þar á meðal þeim sem hlotið hafa styrk úr Loftslagssjóði, og miðlar upplýsingum um þau á vef sínum og samfélagsmiðlum. Í miðlun Loftslagsráðs hefur verið lögð sérstök áhersla á að vísindaleg þekking og skuldbindingar á alþjóðavettvangi komist inn í umræðu og umfjöllun um stefnu og aðgerðir í loftslagsmálum á Íslandi. Á vef Loftslagsráðs eru tenglar yfir á opinbera vefi, s.s. þá sem birta upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda og skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.


[1] www.stjornarradid.is/verkefni/visindi-nyskopun-og-rannsoknir/visinda-og-taeknirad/

[2] www.stjornarradid.is/verkefni/visindi-nyskopun-og-rannsoknir/visinda-og-taeknirad/visinda-og-taeknistefna-2020-2022/

[3] www.loftslagsrad.is

Framkvæmd

Fræðsla um loftslagsmál verður styrkt með margvíslegum hætti. Frá því að fyrsta útgáfa Aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum leit dagsins ljós hefur verið ráðist í fjölda nýrra verkefna, auk þess sem kortlagning hefur farið fram á því fræðsluefni sem nú þegar er til staðar.

Loftslagssjóður var settur á laggirnar haustið 2019 (sjá aðgerð G.2). Loftslagssjóður styður meðal annars við verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga en á fimm ára tímabili verður ríflega hálfum milljarði króna ráðstafað úr sjóðnum. Sjóðurinn styrkir líka nýsköpunarverkefni.

Stjórnvöld hafa einnig styrkt með beinum hætti fjölda fræðsluverkefna um loftslagsmál og munu halda því áfram. Má þar nefna þættina „Hvað höfum við gert?“ sem sýndir voru á RÚV og framhaldsþættina „Hvað getum við gert?“ sem nú eru í vinnslu. Þar verður lögð áhersla á til hvaða ráða einstaklingar, atvinnulíf og stjórnvöld geta gripið í baráttunni gegn loftslagsvánni. Einnig hefur verkefnið Hörfandi jöklar verið styrkt en það miðar að fræðslu til almennings á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs byggðri á jöklavöktun Veðurstofu Íslands og jöklavöktun Jarðvísindastofnunar Háskólans sem unnin er í samvinnu við Landsvirkjun.

Í verkefnastyrkjum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem úthlutað var í febrúar 2020 var einnig í takt við Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum lögð áhersla á samstarfsverkefni félagasamtaka, almennings og annarra um eflingu hringrásarhagkerfisins og loftslagsmál.

Margvísleg önnur fræðsluverkefni eru auk þess í gangi af hálfu stjórnvalda, stofnana, félagasamtaka, ungmennasamtaka, fjölmiðla og annarra. Umhverfisstofnun sinnir sem dæmi viðamikilli umhverfisfræðslu sem tengist loftslagsmálum beint, til að mynda fyrir almenning, stofnanir og fyrirtæki. Loftslagsráð hefur það hlutverk að hafa yfirsýn yfir miðlun fræðslu og upplýsinga. Menntakerfið er einnig mikilvægur hluti vitundarvakningar meðal barna og ungmenna og samstarf við menntayfirvöld nauðsynlegt.

Áfram verður leitað leiða til að efla fræðslu um loftslagsmál, áhrif neyslu og sóunar. Til grundvallar verður kortlagning sem unnin var á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og mennta- og menningarmálaráðuneytisins á því námsefni sem er til staðar og því fræðsluefni sem er aðgengilegt almenningi.

Ábyrgð

Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Árangursmælikvarði

Hlutfall fólks sem samkvæmt könnun hefur breytt hegðun sinni sl. 12 mánuði til þess að lágmarka áhrif sín á umhverfi og loftslagsbreytingar.[1]

 

Mynd 43 Hlutfall fólks sem breytt hefur hegðun sinni síðastliðna 12 mánuði

Mynd 43 sýnir að mikill meirihluti almennings hefur breytt hegðun sinni að einhverju leyti til að lágmarka áhrif sín á umhverfi og loftslagsbreytingar. Hlutfall fólks sem breytt hefur hegðun sinni síðastliðna 12 mánuði jókst milli áranna 2020 og 2021 en hefur aftur lækkað. Fylgjast þarf vel með þessari þróun.


[1] Heimild: Umhverfiskönnun Gallup 2021.

Áhrif á ríkissjóð

Framlög til fræðslu koma víða að og listinn hér er ekki tæmandi. Þættirnir „Hvað höfum við gert?“ og „Hvað getum við gert?“ fengu samtals 23 milljónir króna af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar. Í febrúar 2020 var tilkynnt um úthlutun verkefnastyrkja á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem auglýstir voru í lok árs 2019. Tæplega 35 milljónir króna fóru til verkefna sem varða loftslagsmál og eru að stórum hluta fræðsluverkefni. Um 6 milljónir króna fóru á árinu 2019 til Vatnajökulsþjóðgarðs vegna fræðsluhluta verkefnisins Hörfandi jöklar.

Á fimm ára tímabili (2019-2023) verður 500 milljónum króna veitt til Loftslagssjóðs og er það af sérstöku fjármagni til loftslagsmála (sjá aðgerð G.2). Hluti þess fer til fræðsluverkefna um loftslagsmál.

Áhrif á losun

Ljóst er að fræðsla og vitundarvakning um loftslagsmál er afar mikilvæg, stuðlar almennt að aukinni þekkingu um loftslagsbreytingar og ástæður þeirra og er mörgum hvatning til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með breyttri hegðun. Ekki er á hinn bóginn hægt að mæla árangur aðgerðarinnar með beinum hætti hvað varðar samdrátt í losun. Væntur samdráttur mun að auki birtast í öðrum geirum og bókfærast þar, svo sem með samdrætti í losun frá vegasamgöngum og úrgangi og aukinni kolefnisbindingu.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum