Hoppa yfir valmynd
G. Hvatar til umskipta

Lýsing

G.2 Loftslagssjóður. Aðgerðin felur í sér að styðja fræðslu og nýsköpun í loftslagsmálum í gegnum Loftslagssjóð.

Staða


Aðgerðin er í framkvæmd.

Loftslagssjóður hefur verið starfræktur frá árinu 2019 og hefur verið úthlutað þrisvar sinnum úr sjóðnum. Samkvæmt lögum um loftslagsmál nr. 70/2012 er hlutverk sjóðsins að styðja við nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála og verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga. Styrkir til nýsköpunarverkefna eru ætlaðir m.a. til þess að styrkja rannsóknir og þróunarstarf í tengslum við aðlögun og innleiðingu á nýjum loftslagsvænum tæknilausnum og hönnun.

Árið 2021 var úthlutað 170 m.kr. Sjóðnum bárust alls 158 gildar umsóknir að upphæð 1,1 milljarður kr. Veittir voru 24 styrkir sem tóku til 15% umsókna. Þar af voru 12 nýsköpunarverkefni og 12 kynningar- og fræðsluverkefni.

Árið 2021 var úthlutað 170 m.kr. úr sjóðnum til 24 verkefna, þar af voru 12 nýsköpunarverkefni og 12 kynningar- og fræðsluverkefni. Nokkuð minna fjármagn var til úthlutunar árið 2022 en árið áður, eða 88 m.kr. og hlutu 12 verkefni styrk það ár. Þar af voru 6 nýsköpunarverkefni og 6 kynningar- og fræðsluverkefni.

Ljóst er að sjóður sem ekki hefur hærri fjárhæðir til ráðstöfunar getur ekki styrkt stór verkefni, en nokkuð hefur verið kallað eftir stuðningi við stærri nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála.

Sjóðurinn er vistaður hjá Rannís og sérsök fagráð leggja mat á umsóknir með hliðsjón af reglum sjóðsins.

Nánari upplýsingar um sjóðinn sem og einstök verkefni sem hlotið hafa styrk frá sjóðnum má finna á heimasíðu Rannís.[1]


[1] www.rannis.is/sjodir/rannsoknir/l1oftslagssjodur/

Framkvæmd

Stutt verður við fræðslu og nýsköpun í loftslagsmálum í gegnum sérstakan samkeppnissjóð, Loftslagssjóð, sem öll þau sem vilja geta sótt um styrki í.
Annars vegar er um að ræða styrki til kynningar og fræðslu um loftslagsmál og hins vegar styrki til nýsköpunarverkefna. Þeim síðarnefndu er meðal annars ætlað að styrkja rannsóknir og þróunarstarf í tengslum við innleiðingu á nýjum loftslagsvænum tæknilausnum og hönnun.

Í fyrstu útgáfu Aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum kom fram að Loftslagssjóður skyldi settur á laggirnar í samræmi við ákvæði laga þar um. Sjóðurinn hefur nú tekið formlega til starfa og gerðar hafa verið breytingar á loftslagslögum til að skerpa enn frekar á hlutverki hans. Rannís hefur verið falin umsýsla sjóðsins, stjórn verið skipuð og úthlutunarreglur settar.

Opnað var fyrir umsóknir í Loftslagssjóð í nóvember 2019 og fyrsta úthlutun úr sjóðnum fór fram í júní 2020 þegar 10 nýsköpunarverkefni fengu styrk og 22 kynningar- og fræðsluverkefni. Mjög mikil eftirspurn var eftir styrkjum úr sjóðnum. Meðal þess sem haft var til hliðsjónar við mat á umsóknum voru jákvæð áhrif verkefnanna á loftslag, hvort þau hefðu jákvæð samfélagsleg áhrif, nýnæmi þeirra og hvort þau muni nýtast víða í samfélaginu. Við fyrstu úthlutun voru styrkir veittir fyrir 165 milljónir króna.

Aðgerðin tengist aðgerðum G.4 og G.5 um fræðslu um loftslagsmál fyrir almenning og menntun um loftslagsmál í skólum. 

Ábyrgð

Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Árangursmælikvarði

Fjármagni úthlutað úr Loftslagssjóði á hverju ári.

 

Mynd 42 Fjármagni úthlutað úr Loftslagssjóði árin 2020-2022

 

 

Áhrif á ríkissjóð

Á fimm ára tímabili (2019-2023) verður 500 milljónum króna veitt til Loftslagssjóðs. Til viðbótar við þetta er í sérstöku fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar árið 2020 vegna efnahagsáhrifa Covid-19 heimsfaraldursins gert ráð fyrir 50 milljónum króna aukalega til Loftslagssjóðs.

Áhrif á losun

Fræðsla og nýsköpun stuðla almennt að aukinni vitund um loftslagsbreytingar og eiga að hafa áhrif á samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Eðli málsins samkvæmt er ógerlegt að meta áhrif þeirra verkefna sem fá stuðning í framtíðinni þar sem ekki liggur fyrir hver verkefnin verða.

 

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum