Hoppa yfir valmynd
G. Hvatar til umskipta

Lýsing

G.7 Sjálfbær fjármögnun ríkissjóðs . Aðgerðin felur í sér að kanna fýsileika þess að gefa út græn ríkisskuldabréf og opna leiðir að grænum fjárfestum fyrir hefðbundnar lántökur ríkissjóðs.

Staða


Aðgerðin er í framkvæmd.

Árið 2021 gaf fjármála- og efnahagsráðuneytið út fjármögnunarramma fyrir sjálfbæra fjármögnun ríkissjóðs og hlaut „dökkgræna“ einkunn hjá CICERO, alþjóðlega viðurkenndum og sjálfstæðum vottunaraðila. Útgáfa grænna skuldabréfa ríkissjóðs undir sjálfbæra fjármögnunarrammanum er til skoðunar.

Framkvæmd

Kannaðir verða möguleikar þess að fjármagna skýrt skilgreind græn og sjálfbær verkefni hér á landi með útgáfu svokallaðra grænna ríkisskuldabréfa. Útgáfunni yrði ekki síst ætlað að senda skýr skilaboð til fjárfesta um mikilvægi umhverfismála og hvernig fjármálamarkaðurinn getur beitt sér til að takast á við loftslagsvána.

Græn skuldabréfaútgáfa er að flestu leyti eins og útgáfa annarra skuldabréfa en fjármunirnir sem fást með henni renna á hinn bóginn til umhverfisvænna verkefna. Útgáfa grænna skuldabréfa á alþjóðamörkuðum hefur aukist á síðustu árum og aukinn þrýstingur hefur verið á fjárfesta að beina fjármagni í verkefni sem ætlað er að stuðla að langtímamarkmiðum í umhverfis- og loftslagsmálum.

Ríkissjóður Íslands hefur hingað til ekki gefið út græn ríkisskuldabréf en vinnuhópur á vegum fjármála- og efnahagsráðherra kannar nú slíka möguleika. Hópurinn var skipaður í júní 2020. Í honum eiga sæti fulltrúar fjármálaráðuneytisins, utanríkisráðuneytisins, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, forsætisráðuneytisins og Seðlabanka Íslands. Hópurinn mun auk þess koma að vinnu vegna óháðrar UFS*-vottunar fyrir ríkissjóð, verði sú leið farin. Um er að ræða alþjóðlegt mat sem snýst um áherslur á sviði umhverfis- og samfélagsmála auk góðra stjórnarhátta og getur mögulega opnað leið að grænum fjárfestum fyrir hefðbundnar lántökur ríkissjóðs.

* Umhverfis-, félagslegir þættir, góðir stjórnhættir

Ábyrgð

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Árangursmælikvarði

Úttekt vinnuhóps á möguleikum liggi fyrir.

Verkefnahópurinn skilaði áfangaskýrslu til ráðherra í byrjun árs 2021 og gert er ráð fyrir því að hann skili tillögu til ráðherra um næstu skref þegar vottaður útgáfurammi liggur fyrir.

Áhrif á ríkissjóð

Ekki er um sérstakan kostnað að ræða vegna vinnuhópsins. Verði ráðist í græna útgáfu ríkisskuldabréfa krefst það aukinnar sérfræðiþekkingar, aukins upphafskostnaðar og kostnaðar vegna vottunar. Heildarupphæð vegna þessa liggur ekki fyrir. Ávinningur fyrir útgefendur grænna skuldabréfa eru á hinn bóginn til að mynda jákvæð ímynd og fjölbreyttari fjárfestahópur samanborið við hefðbundin skuldabréf, auk þess sem slík útgáfa hvetur meðal annars til mælinga á umhverfisáhrifum og getur mögulega haft jákvæð áhrif á rekstrarkostnað til lengri tíma.

Áhrif á losun

Aðgerðin snýst ekki síst um að senda út skýr skilaboð til fjárfesta og hafa þannig óbein áhrif. Mögulegt er að fjármögnuð yrðu verkefni hér á landi sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hefðu ekki annars orðið að veruleika. Ekki er hægt að meta loftslagslegan ávinning af þeim að svo stöddu. Aðgerðin er í mótun og mat á samdrætti í losun verður því uppfært eftir því sem aðgerðinni vindur fram.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum