Hoppa yfir valmynd
A. Samgöngur á landi

Lýsing

A.2 Ívilnanir fyrir virka ferðamáta - Aðgerðin felur í sér skattastyrki sem hvetja fólk til að nota virka ferðamáta, svo sem hjólreiðar og göngu.

Staða


Aðgerðin er í framkvæmd.

Gerðar hafa verið lagabreytingar sem styðja við virka ferðamáta, m.a. með niðurfellingu virðisaukaskatts af öllum reiðhjólum.

Framkvæmd

Skattastyrkjum verður beitt tímabundið til að styðja við virka ferðamáta og hafa áhrif á ferðavenjur fólks. Markmiðið er að auka vægi ferðamáta á borð við hjólreiðar og gera fleirum kleift að velja þann kost.

Þegar hafa verið gerðar lagabreytingar sem fela í sér að virðisaukaskattur hefur verið felldur niður af öllum reiðhjólum, rafmagnsreiðhjólum og rafmagnshlaupahjólum. Um er að ræða allt að 96 þúsund króna niðurfellingu virðisaukaskatts af rafmagnsreiðhjólum og allt að 48 þúsund króna niðurfellingu af reiðhjólum og rafmagnshlaupahjólum. Upphæðin var tvöfölduð eftir umsagnir sem bárust um málið í samráðsgátt stjórnvalda.

Breytingarnar tóku gildi þann 1. janúar 2020. Í lögunum er bent á að það nýmæli að veita hvers kyns hjólum ívilnun hafi þau hliðaráhrif að hvetja til aukinnar útiveru og hreyfingar, bæta lýðheilsu og létta umferðarþunga af akbrautum. Meginmarkmiðið er þó að efla hjólreiðar sem samgöngumáta í því skyni að draga úr losun frá samgöngum.

Auk þess má nefna að frá og með árinu 2014 hafa samgöngustyrkir launafólks verið skattfrjálsir upp að ákveðnu marki þegar notast er við almenningssamgöngur, gengið eða hjólað.

Ofangreindar ívilnanir hafa allar tekið gildi. Ívilnanir fyrir virka ferðamáta, sem og uppbygging innviða (sjá aðgerð A.1), verða endurskoðaðar reglulega með tilliti til árangurs og út frá ferðavenjukönnun á landsvísu.

Ábyrgð

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Árangursmælikvarði

Fjöldi innfluttra reiðhjóla, rafmagnsreiðhjóla og rafmagnshlaupahjóla.[1]

Mynd 8 Fjöldi innfluttra rafmagns- og reiðhjóla árin 2019-2022

Gerðar hafa verið lagabreytingar sem styðja við virka ferðamáta, m.a. með niðurfellingu virðisaukaskatts af öllum reiðhjólum og hlaupahjólum. Lögin tóku gildi árið 2020. Sala á rafhjólum, reiðhjólum og rafhlaupahjólum jókst umtalsvert það ár, eins og glöggt má sjá á Mynd 8.


[1] Fram til ársins 2020 voru rafmagnsvespur undir sama tollskrárnúmeri og rafmagnshjól og rafmagnshlaupahjól og eru tölurnar því ekki fyllilega samanburðarhæfar milli ára. Nokkur hundruð rafmagnsvespur og önnur minni rafknúin farartæki voru flutt inn árið 2020 og eru ekki taldar með hér að ofan fyrir það ár en eru taldar með í súlunni lengst til vinstri fyrir 2019.

Áhrif á ríkissjóð

Áætlað er að skattastyrkur vegna reiðhjóla, rafmagnsreiðhjóla og rafmagnshlaupahjóla nemi 325 milljónum króna árlega á árunum 2020-2023.

Áhrif á losun

Aðgerðin er metin sameiginlega með aðgerðum um innviði fyrir virka ferðamáta. Það er gert vegna samlegðaráhrifa þeirra. Áætlað er að með þessum samverkandi aðgerðum muni losun frá vegasamgöngum árið 2030 hafa dregist saman um 10 þúsund tonn CO2-ígilda miðað við spá um þróun samkvæmt grunnsviðsmynd.

 

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum