Hoppa yfir valmynd
F. Úrgangur og sóun

Lýsing

F.3 Minni matarsóun. Aðgerðin felur í sér að draga markvisst úr matarsóun og þar með úr losun gróðurhúsalofttegunda sem verður vegna hennar.

Staða


Aðgerðin er í vinnslu.

Umhverfisstofnun rekur verkefni gegn matarsóun, m.a. í formi vitundarvakningar um hve miklum matvælum er sóað og annarrar kynningar og fræðslu um matarsóun. Fræðslan fer að hluta fram í gegnum vefinn samangegnsoun.is, vef um úrgangsforvarnir sem Umhverfisstofnun rekur. Umhverfisstofnun hefur einnig látið gera kannanir um viðhorf landsmanna til matarsóunar og er með í undirbúningi mælingar á matarsóun á Íslandi sem byggja á samevrópskri aðferðafræði.

Heildstæð áætlun um markvissar aðgerðir gegn matarsóun til næstu ára kom út í september 2021, undir heitinu Minni matarsóun. Í áætluninni eru 24 aðgerðir, að hluta á ábyrgð íslenskra stjórnvalda og að hluta á ábyrgð atvinnulífsins. Auk þessa hafa verið sett markmið um 30% samdrátt í matarsóun í allri virðiskeðju matvæla hérlendis fyrir árið 2025 og um 50% samdrátt fyrir árið 2030, samanber viðauka við Saman gegn sóun, almenna stefnu um úrgangsforvarnir 2016–2027.


Framkvæmd

Ráðist verður í fjölda verkefna sem miða að því að minnka matarsóun hér á landi. Annars vegar er um að ræða verkefni til skemmri tíma og hins vegar aðgerðir til næstu ára. Talið er að um þriðjungi matvæla í heiminum sé sóað og gróðurhúsalofttegundir myndast við meðhöndlun þeirra.

Á síðustu árum hefur verið ráðist í tugi verkefna af hálfu stjórnvalda, félagasamtaka og fyrirtækja sem ætlað hefur verið að draga úr matarsóun hér á landi, svo sem gerð fræðslu- og kynningarefnis af margvíslegu tagi, haldnir viðburðir sem ætlað er að vekja fólk til umhugsunar um málefnið, ráðist í skólaverkefni og gerð námsefnis, sett upp afsláttarkerfi í verslunum fyrir matvæli sem eru á síðasta snúningi, ráðist í nýsköpun við nýtingu aukaafurða, mörkuð stefna stjórnvalda og haldin námskeið um betri nýtingu matvæla. Ætlun stjórnvalda er að bæta enn frekar í.

Á árinu 2020 mun Umhverfisstofnun halda áfram að vekja athygli á hve miklum matvælum er sóað, þar á meðal illseljanlegum og „útlitsgölluðum“ vörum og auknu fjármagni verður veitt í kynningu og fræðslu um matarsóun. Rekstur vefsins matarsoun.is verður tryggður áfram og ráðist í að kanna hvar mögulega eru gerðar kröfur við matvælaeftirlit sem ekki eru nauðsynlegar með tilliti til matvælaöryggis en gætu ýtt undir matarsóun. Þegar hefur verið gerð könnun á viðhorfi Íslendinga til matarsóunar til að fylgjast með mögulegum viðhorfsbreytingum.

Til að móta heildstæða áætlun um markvissar aðgerðir gegn matarsóun skipaði umhverfis- og auðlindaráðherra  starfshóp um málefnið sem skila mun af sér í júní 2020. Þar koma að borðinu fulltrúar neytenda, atvinnulífsins, félagasamtaka, ungs fólks og stjórnvalda og markmiðið er meðal annars að finna áhrifaríkar lausnir til að draga úr matarsóun og koma með tillögur að aðgerðum sem skynsamlegt væri að grípa til.


Ábyrgð

Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Árangursmælikvarði

Umfang matarsóunar heimila.

Fyrirliggjandi gögn ná aðeins til matarsóunar á heimilum, hjá heild- og smásölum, veitingasölum, spítölum og hjúkrunarheimilum en komið verður á árlegum rannsóknum hér á landi á umfangi matarsóunar sem nær til allrar virðiskeðjunnar með innleiðingu tilskipunar (ESB) 2018/851.[1]

 

Mynd 40 Umfang matarsóunar á heimilum, kg á mann á ári árið 2019

Mynd 40 sýnir samantekt niðurstaðna á umfangi matarsóunar heimila árið 2019, flokkað eftir tegund matvæla (sem sjá má í súlunum). Línan sýnir heildarkílóafjölda á mann á ári. Niðurstöðurnar gefa ákveðna vísbendingu um að matarsóun hafi minnkað en verður engu að síður að taka með fyrirvara þar sem svarhlutfall var lágt, eða um 10%.


[1] Sundurliðun virðiskeðju matvæla í fimm hlekki er í samræmi við ákvæði ákvörðunar (ESB) 2019/1597, sem kveður á um samræmda aðferðafræði við rannsóknir á umfangi matarsóunar. Umhverfisstofnun hefur í tvígang gert rannsóknir á umfangi matarsóunar í allri virðiskeðjunni, eða árin 2016 og 2019. Hingað til hefur ekki tekist að ná með fullnægjandi hætti utan um alla virðiskeðjuna en áreiðanlegustu upplýsingarnar koma frá heimilum. Niðurstöðunum verður engu að síður að taka með fyrirvara þar sem svarhlutfall var lágt, eða um 10%. Með innleiðingu tilskipunar (ESB) 2018/851 verður komið á árlegum rannsóknum hér á landi á umfangi matarsóunar í allri virðiskeðjunni, frumframleiðslu, matvælavinnslu og -framleiðslu, smásölu og veitingasölu og þjónustu.

Áhrif á ríkissjóð

Kostnaður við verkefni til að draga úr matarsóun kemur af fjármagni sem sérstaklega er eyrnamerkt loftslagsmálum. Á árinu 2019 var 8 milljónum króna veitt til slíkra verkefna og á árunum 2020-2023 er reiknað með 15 milljónum árlega. Samtals er því um að ræða 68 milljónir króna á fimm ára tímabili. Þörfin verður þó endurskoðuð miðað við niðurstöðu starfshópsins.

Áhrif á losun

Áætlað er að með þessari aðgerð muni losun frá úrgangi árið 2030 hafa dregist saman um 14 þúsund tonn af CO2-ígildum miðað við spá um þróun samkvæmt grunnsviðsmynd. Þar sem hluti aðgerðarinnar er enn í útfærslu verður mat á samdrætti í losun uppfært eftir því sem verkefninu vindur fram.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum