Hoppa yfir valmynd
E. Landbúnaður

Lýsing

E.2 Kolefnishlutleysi í nautgriparækt. Aðgerðin felur í sér að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda frá nautgriparækt og auka kolefnisbindingu.

Staða


Aðgerðin er í framkvæmd.

Unnið er að því markmiði að nautgriparækt verði kolefnishlutlaus eigi síðar en árið 2040. Lögð er áhersla á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og að auka kolefnisbindingu.

Voru alls 15 nautgripabú þátttakendur árið 2021 og er stefnt að frekari fjölgun.

Framkvæmd

Unnið er að því markmiði að nautgriparækt verði kolefnishlutlaus eigi síðar en árið 2040. Lögð verður áhersla á að draga úr kolefnislosun og einnig að auka kolefnisbindingu. Þetta var samþykkt við endurskoðun nautgripasamninga í október 2019.

Til að ná markmiðinu verða rannsóknir, ráðgjöf og fræðsla aukin fyrir bændur til að auka bindingu kolefnis og draga úr losun. Byrjað er að byggja upp þekkingu hjá nautgripabændum á losun og bindingu kolefnis, bættri fóðrun og meðhöndlun og nýtingu búfjáráburðar. Lagt verður til grundvallar að þekkja möguleika hverrar jarðar og bús og byggja upp gagnsæja og vottaða umgjörð um verkefnið.

Starfshópur um loftslagsmál í nautgriparækt skipaður af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skilaði vorið 2020 tillögum að sjö aðgerðum og átta ábendingum varðandi kolefnishlutleysi í nautgriparækt sem unnar voru í samráði við Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, Landbúnaðarháskóla Íslands, Matís og fleiri aðila. Í skýrslunni leggur starfshópurinn megináherslu á að þeir fjármunir sem til ráðstöfunar verða fram að næstu endurskoðun búvörusamninga árið 2023 verði nýttir annars vegar til að bæta þau gögn sem liggja til grundvallar losunarbókhaldinu í nautgriparækt og hins vegar til að efla þekkingu og fræðslu. Þessi aðgerð tengist aðgerðum E.1, E.4 og E.5.

 


Ábyrgð

Matvælaráðuneytið

Árangursmælikvarði

Fjöldi nautgripabúa sem taka þátt í verkefninu Loftslagsvænn landbúnaður.

15 nautgripabú voru skráð til þáttöku árið 2021.

Áhrif á ríkissjóð

Verkefnið er fjármagnað í gegnum búvörusamninga (nautgripasamning). Framkvæmdanefnd búvörusamninga verður falið að ráðstafa fjármagninu sem áætlað er um 30 milljónir króna á ári. Endanleg upphæð fer eftir umfangi þeirra verkefna sem ráðist verður í.

Áhrif á losun

Ekki er að svo stöddu hægt að meta þann samdrátt sem verður vegna aðgerðarinnar þar sem hún er enn í mótun.

Þess má vænta að aðgerðin geti rutt leiðina fyrir aðra bændur og ýtt undir breytingar í búrekstri sem leiða til minni losunar. Væntur samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda vegna verkefnisins mun meðal annars birtast í aðgerðum um bætta nýtingu og meðhöndlun áburðar og bætta fóðrun búfjár til að draga úr iðragerjun. Væntur samdráttur gæti einnig birst í samdrætti í losun frá vélum og tækjum auk þess sem hann mun birtast í aðgerðum um kolefnisbindingu og bætta landnotkun.
Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum