Hoppa yfir valmynd
F. Úrgangur og sóun

Lýsing

F.1 Urðunarskattur. Aðgerðin felur í sér að leggja á urðunarskatt til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá urðun úrgangs hér á landi.

Staða


Aðgerðin er í undirbúningi.

Árið 2019 var fjármála– og efnahagsráðuneytið í samstarfi við þáverandi umhverfis- og auðlindaráðuneyti með í undirbúningi að leggja skatt á urðun hér á landi. Að kröfu rekstraraðila urðunarstaða, þ.e. sveitarfélaganna, hefur þessari aðgerð verið frestað, þar sem ekki voru fyrir hendi innviðir til að tryggja að skatturinn skilaði þeim árangri sem að var stefnt, þ.e. að auka flokkun, endurnotkun og endurnýtingu, þ.m.t. endurvinnslu, og endurvinnslu úrgangs.

Unnið hefur verið að því að styrkja fyrrnefnda innviði meðal annars með beinum styrkjum úr ríkissjóði, skattaívilnunum, verkefnum í gegnum byggðaáætlun og fleiri aðgerðum. Jafnframt hafa verið gerða lagabreytingar sem eiga að stuðla að því að urðunarskattur raungerist ekki sem nefskattur heldur sem raunverulegur hagrænn hvati fyrir íbúa og fyrirtæki til að draga úr úrgangsmagni sínu og auka flokkun úrgangs.


Framkvæmd

Lagður verður skattur á urðun úrgangs í þeim tilgangi að beina meðhöndlun hans í aðra farvegi. Skattinum er ætlað að virka sem hvati til að draga úr því mikla magni af úrgangi sem daglega er urðað hér á landi. Þannig virkar hann meðal annars sem hvati til að flokka lífrænan úrgang, sem veldur losun gróðurhúsalofttegunda þegar hann er urðaður, frá öðrum úrgangi og beina honum í aðra farvegi sem hafa í för með sér minni losun. Vonir standa til að skatturinn leiði jafnframt til þess að samdráttur verði í myndun úrgangs.

Að urða úrgang er versti kosturinn í úrgangsmálum fyrir loftslagið. Við urðunina myndast gróðurhúsalofttegundir, þar á meðal metan, sem losnar út í andrúmsloftið. Bein losun gróðurhúsalofttegunda frá meðhöndlun úrgangs stafar fyrst og fremst frá urðun hans.

Í fyrstu útgáfu Aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum var boðað að urðunarskatti yrði komið á. Unnið hefur verið að útfærslu skattsins og lagt til að upphæð hans verði 15 krónur á hvert kílógramm af urðuðum almennum úrgangi, að undanskildum óvirkum úrgangi, og 0,5 krónur á hvert kílógramm af urðuðum óvirkum úrgangi. Óvirkur úrgangur er til dæmis jarðefni, steypa, flísar, keramik og gler.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið vinnur nú í samvinnu við umhverfis- og auðlindaráðuneytið að frumvarpi til breytingar á lögum um umhverfis- og auðlindaskatta þar sem innheimta urðunarskatts verður lögfest. Haft verður samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Aðgerðin hefur verið útfærð nánar frá fyrstu útgáfu aðgerðaáætlunar og gerð að sérstakri aðgerð.

Ábyrgð

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Árangursmælikvarði

Magn urðaðs úrgangs.

 

Mynd 37 Magn urðaðs úrgangs á Íslandi árin 1995-2020

Samdráttur hefur orðið í magni urðaðs úrgangs frá árum áður eins og sést á Mynd 37. Einkum vegna aukinnar endurvinnslu en efnahagsveiflur hafa einnig áhrif á úrgangsmagn.

Áhrif á ríkissjóð

Aðgerðin hefur ekki í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð. Að teknu tilliti til þess magns sem hefur verið urðað undanfarin ár er áætlað að tekjur ríkissjóðs af urðunarskatti gætu numið um 2.000 milljónum króna á ári fyrst í stað. Þess er vænst að tekjur af skattinum dragist síðan saman, enda er honum ætlað að leiða til minni urðunar.

Áhrif á losun

Áætlað er að með þessari aðgerð muni losun frá úrgangi árið 2030 hafa dregist saman um 28 þúsund tonn af CO2-ígildum miðað við spá um þróun samkvæmt grunnsviðsmynd.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum