Hoppa yfir valmynd
H. ETS: Flug og iðnaður

Lýsing

H.1 Föngun kolefnis frá stóriðju. Aðgerðin felur í sér að kanna hvort stóriðjufyrirtæki á Íslandi geti markvisst fangað CO2 frá starfsemi sinni.

Staða


Aðgerðin er í vinnslu.

Vorið 2021 voru samþykkt ný lög á Alþingi[1] sem heimila varanlega geymslu koldíoxíðs í jarðlögum og skapa þar með tækifæri fyrir rekstraraðila með losunarheimildir, sem standa innan viðskiptakerfis Evrópusambandsins, til að fá niðurdælingu á koldíoxíði dregna frá í losunarbókhaldi sínu.

Drög að reglugerð voru kynnt í Samráðsgátt í ágúst 2021.[2]

Í júní 2021 skrifuðu Carbfix og Elkem undir viljayfirlýsingu þar sem fram kemur að föngun og förgun CO2 verði hluti af aðgerðaáætlun Elkem í loftslagsmálum auk hugsanlegrar hagnýtingar á CO2 til rafeldsneytisframleiðslu. Nákvæmar tímasetningar liggja ekki fyrir en reiknað er með að það muni skýrast á síðari hluta árs 2021. 

Á vormánuðum 2021 kynnti Carbfix áform um að byggja móttöku- og förgunarmiðstöð fyrir CO2 í Straumsvík sem mun hefja starfsemi 2025 ef áætlanir ganga eftir. Þar með verða komnir upp innviðir til niðurdælingar sem geta bæði nýst innlendum stóriðjufyrirtækjum þegar og ef föngun á CO2 hefst, auk þess sem gert er ráð fyrir að hægt verði að farga CO2 sem flutt verði hingað með skipum frá Evrópu.

Samkvæmt viljayfirlýsingu frá árinu 2019 hafa öll stóriðjufyrirtækin áform um að leita leiða til að fanga kolefni frá sínum verum.

Vegna áhrifa Covid hafa tafir orðið á verkefninu en áform eru óbreytt hvað það varðar að gera tilraunir með föngun CO2 frá stóriðjunni.


[1] https://www.althingi.is/altext/151/s/1015.html

[2] https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=3035

Framkvæmd

Kannað verður til hlítar hvort aðferð sem kölluð er „CarbFix“ eða „gas í grjót“ geti orðið raunhæfur kostur til að draga úr losun CO2 frá stóriðju á Íslandi. Orkuveita Reykjavíkur hefur þróað aðferðina í samstarfi við Háskóla Íslands og erlenda aðila og hefur hún vakið athygli víða um heim.

Aðferðin felst í því að CO2 er fangað úr jarðhitagufu, gasið leyst upp í vatni undir þrýstingi og vatninu dælt niður á 500-800 m dýpi í basaltjarðlög, þar sem CO2 binst varanlega í berggrunninum í formi steinda. Gasinu er þannig breytt í grjót. Orka náttúrunnar, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, hefur beitt aðferðinni til að draga úr losun frá Hellisheiðarvirkjun síðastliðin ár með góðum árangri.

Samkvæmt viljayfirlýsingu sem undirrituð var árið 2019 að forgöngu stjórnvalda, milli Orkuveitu Reykjavíkur, Elkem, Fjarðaáls, Rio Tinto á Íslandi, Norðuráls, PCC á Bakka og stjórnvalda verður nú kannað hvort sömu aðferð megi beita hjá stóriðjufyrirtækjum á Íslandi og hvort þau geti einnig fangað CO2 frá starfsemi sinni og dælt því niður í berg.

Verkefnið er viðamikið og mun spanna fimm til tíu ár. Fram undan er að þróa aðferðir sem aðgreina styrk CO2 í útblæstri stóriðju þannig að beita megi svipuðum hreinsunaraðferðum og við Hellisheiðarvirkjun. Einnig þarf að hanna og smíða tilraunabúnað til hreinsunar og niðurdælingar á CO2 frá stóriðju og síðan hanna og smíða stærri búnað til verksins. Stjórnvöld vinna nú að því að aðferðin verði gjaldgeng innan evrópska viðskiptakerfisins með losunarheimildir (ETS). Starfshópur á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins er að störfum til að vinna drög að frumvarpi sem er ætlað að tryggja að aðferðin falli að Evrópureglum um kolefnisföngun og geymslu.

Auk þess að draga úr losun frá stóriðju með niðurdælingu gætu aðrir möguleikar falist í að fanga CO2 og nýta til eldsneytisframleiðslu eða annars konar iðnaðarframleiðslu. Í því sambandi mætti meðal annars horfa til nýtingar glatvarma.

Ábyrgð

Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Árangursmælikvarði

Ekki er tímabært að setja fram mælikvarða.

Áhrif á ríkissjóð

Ofangreind viljayfirlýsing hefur ekki áhrif á ríkissjóð. Um er að ræða verkefni sem sótt verður um fjármagn fyrir í alþjóðlega samkeppnissjóði.

Áhrif á losun

Þar sem um tilraunaverkefni er að ræða er ekki hægt að segja til um hver mögulegur samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda gæti orðið. Ljóst er þó að gangi verkefnið vel mun það marka vatnaskil við að draga úr losun frá stóriðju hér á landi. Losun af völdum stóriðju heyrir ekki undir beina ábyrgð Íslands heldur viðskiptakerfi með losunarheimildir (ETS) – en að draga úr henni er á hinn bóginn afar mikilvægt fyrir loftslagið.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum