Hoppa yfir valmynd
C. Orkuframleiðsla og smærri iðnaður

Lýsing

C.1 Föngun kolefnis frá jarðvarmavirkjunum - Aðgerðin felur í sér markvissan samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda frá jarðvarmavirkjunum.

Staða


Aðgerðin er í vinnslu.

Orkufyrirtækin vinna öll að markmiði aðgerðarinnar en eru komin mismunandi langt á veg við að greina þær tæknilausnir sem henta þeirra vinnslu. Fyrirtækin vinna að aðgerðum að eigin frumkvæði.

Landsvirkjun: Markmið óbreytt frá því sem sett var fram í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

Fyrirtækið vinnur að því að greina þá möguleika og tæknilegu lausnir sem koma til greina til að draga úr losun koldíoxíðs frá jarðvarmavirkjunum en ekki liggur fyrir ákvörðun um hvaða aðferðum verði beitt til að ná markmiðinu. Ekki er að vænta frekari upplýsinga fyrr en 2022-2023. Samdráttur í losun frá jarðvarmavirkjunum Landsvirkjunar hefur dregist saman um 39% frá árinu 2005.

HS-Orka: Markmið óbreytt.

Fyrirtækið vinnur að því að meta möguleika tæknilausnar við föngun kolefnis frá virkjun fyrirtækisins í Svartsengi og hvaða leiðir hægt er að fara til að binda það eða hagnýta. Viðræður hafa farið fram við mögulega kaupendur vegna hagnýtingar en engar ákvarðanir teknar enn sem komið er.

Orka náttúrunnar (ON): Markmið óbreytt.

Opinber stefna er að fyrirtækið verði kolefnishlutlaust árið 2030.

Hellisheiðarvirkjun: Undirbúningur er hafinn að byggingu lofthreinsistöðvar í fullri stærð til að hreinsa jarðhitalofttegundir frá virkjuninni. Áætlað er að stöðin muni afkasta um 95% hreinsun og niðurdælingu með Carbfix-aðferðinni. Markmiðið er að virkjunin verði því sem næst sporlaus með tilliti til losunar á jarðhitalofttegundum á árinu 2025. Leitað er leiða til að fjármagna verkefnið.

Nesjavallavirkjun: Unnið er að uppbyggingu tilraunastöðvar til hreinsunar á jarðhitalofttegundum frá virkjuninni. Verkefnið er hluti af evrópsku rannsóknarverkefni sem leitt er af Carbfix. Í kjölfar tilraunaverkefnisins er á áætlun að undirbúa, hanna og reisa fullbúna lofthreinsistöð við virkjunina á árunum 2025-2030 sem muni alla jafna afkasta um 95% af jarðhitalofttegundum sem frá virkjuninni koma.

Aðgerðin tengist aðgerð H.1: Föngun kolefnis frá stóriðju.

Framkvæmd

Leitað verður leiða til að draga enn frekar úr losun gróðurhúsalofttegunda frá jarðvarmavirkjunum. Þótt jarðefnaeldsneyti sé ekki orkugjafi í jarðvarmavirkjunum á sér stað útstreymi CO2 frá þeim. Losun frá jarðvarmavirkjunum var árið 2018 alls 5,3% af losun á beinni ábyrgð Íslands.

Undanfarin ár hefur talsvert dregið úr þessari losun og er það vegna aðgerða Orku náttúrunnar við Hellisheiðarvirkjun. Orkuveita Reykjavíkur þróaði aðferðina „CarbFix“ eða „gas í grjót“ í samstarfi við Háskóla Íslands og erlenda aðila (sjá aðgerð H.1) og hefur hún vakið athygli víða um heim. Aðferðinni hefur verið beitt til að draga úr losun frá Hellisheiðarvirkjun með góðum árangri.

Orka náttúrunnar og Landsvirkjun hafa sýnt eftirtektarvert frumkvæði í áætlunum sínum um samdrátt í losun frá jarðvarmavirkjunum á þeirra vegum. Auk þess að draga úr losun með niðurdælingu gætu aðrir möguleikar falist í að fanga CO2 og nýta til eldsneytisframleiðslu eða annars konar iðnaðarframleiðslu og hefur HS Orka horft til margvíslegra lausna í því samhengi.

Fyrirtækin gera þetta að eigin frumkvæði en stjórnvöld munu fylgjast með áframhaldandi þróun og eiga samráð við fyrirtækin þar um. Markmiðið er að samdráttur í losun vegna jarðvarmavirkjana verði að minnsta kosti 47% árið 2030 miðað við 2005.

Aðgerðin tengist aðgerð H.1 um kolefnisföngun frá stóriðju.

Ábyrgð

Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Árangursmælikvarði

Losun CO2-ígilda frá jarðvarmavirkjunum,g/kWh.[1]

 

Mynd 29 Losun CO2-ígilda frá jarðvarmavirkjunum, g/kWh, árin 1990-2021


[1] Orkustofnun (2020). OS-2021-T002-01: Gaslosun jarðvarmavirkjana og hitaveitna 1969-2020.

Áhrif á ríkissjóð

Aðgerðin hefur að svo stöddu ekki í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð en felst í samvinnu og samkomulagi orkufyrirtækja og ríkisins.

Áhrif á losun

Áætlað er að losun vegna orkuvinnslu frá jarðvarma muni árið 2030 hafa dregist saman um 108 þúsund tonn af CO2-ígildum með þessari aðgerð og þeirri þróun sem þegar hefur átt sér stað við vinnslu jarðvarma. Matið byggist á áætlunum fyrirtækjanna sjálfra og aðferðirnar eru í útfærslu.

 

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum