Hoppa yfir valmynd
A. Samgöngur á landi

Lýsing

A.5 Innviðir fyrir vistvæn ökutæki - Aðgerðin felur í sér uppbyggingu innviða fyrir vistvæn ökutæki.

Staða


Aðgerðin er í framkvæmd.

Starfshópur ráðuneyta um orkuskipti hefur lagt til styrktarverkefni til uppbyggingar innviða sem auglýst hafa verið í gegnum Orkusjóð undanfarin ár. Síðustu ár hafa styrkir verið veittir til uppbyggingar hraðhleðslustöðva sem og til uppsetningar hleðslustöðva við gististaði og við opinberar byggingar, s.s. skóla og sundlaugar.

Orkusjóður auglýsti styrki til orkuskipta í maí 2022. Heildarfjárhæð til úthlutunar er 900 m.kr. fyrir fimm áherslusvið, þar af er einn flokkurinn„Hleðslustöðvar fyrir samgöngur“ með skýringunni „Uppsetning hleðslu- eða áfyllingastöðva til þéttingar nets hleðslustöðva við vegakerfið sem og gististaði, frístundasvæði (t.d. íþróttahús, sundlaugar), verslanir og fjölsótta ferðamannastaði. Ef um hraðhleðsluststöðvar er að ræða (150 kW og stærri) getur kostnaður við sérlausnir verið innifalinn (t.d. rafhlöður, sólarsellur, vindrellur). Eftir er að úthluta þessum styrkjum (staðan í júní 2022.

Í ágúst 2021 var Íslenskri nýorku, í samstarfi við Orkusetur, falið að gera óformlega netkönnun meðal rafbílaeigenda á stöðu og notkun hleðsluinnviða fyrir rafbíla. Tilgangur könnunarinnar er að leggja mat á það hvort og þá hvar í hleðslukerfi landsins eru flöskuhálsar. Þessi könnun verður endurtekin sumarið 2022. 

Nýlega birti Orkustofnun upplýsingar um hleðslustöðvar á kortavefsjá sinni. Orkusjóður mun sjá til þess að stöðvar sem sjóðurinn styrkir verði skráðar í upplýsingagrunna sem gefa almenningi yfirsýn yfir staðsetningu þeirra. Á kortinu má finna staðsetningar og aflgetu hleðslustöðva en auk þess má finna upplýsingar um rekstraraðila og lykilþjónustu, t.d. hvort salernis- eða veitingaaðstaða er á staðnum. 


[1] https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2021/09/10/Halfur-milljardur-til-orkuskipta-staersta-uthlutun-sogunnar-til-orkuskipta/

Framkvæmd

Stuðningur við innviði fyrir orkuskipti í vegasamgöngum verður stóraukinn. Þegar hafa margvísleg verkefni verið sett af stað og tryggt verður að uppbyggingin haldi áfram.

Verkefnisstjórn um orkuskipti mun gæta að samhæfingu aðgerða og áætlana er varða orkuskipti. Græna orkan var fengin til að gera tillögur að forgangsröðun verkefna sem varða innviði til orkuskipta. Markmiðið var að meta þarfir og móta og leggja til aðgerðir með opnu samtali við atvinnulíf og hagsmunaaðila. Tillögurnar sem bárust í febrúar 2020 eru yfirgripsmiklar og munu nýtast í áframhaldandi vinnu við orkuskipti sem nú er í gangi.

Í nóvember 2019 var fjárfestingarstyrkjum úthlutað til uppsetningar hraðhleðslustöðva vítt og breitt um landið. Nýju stöðvarnar eru þrisvar sinnum aflmeiri en öflugustu stöðvarnar sem fyrir eru hérlendis og eiga að stuðla að hindrunarlausum ferðum rafbíla milli landshluta. Hraðhleðslustöðvum styrktum af ríkinu fjölgar við þetta um 40% á landsvísu. Ráðist hefur verið í verkefni til að fjölga hleðslustöðvum við gististaði um land allt og fleiri slíkir styrkir verða auglýstir árið 2020. Einnig má nefna fjárfestingarstyrki sem samhliða verða auglýstir og miða að því að hraða orkuskiptum hjá fyrirtækjum sem reka bílaflota, ýmist með fólks- eða hópbifreiðum. Í öllum tilfellum er gert ráð fyrir mótframlagi styrkumsækjenda og verður Orkusjóði falin umsýsla með styrkjum.

Markviss uppbygging innviða mun halda áfram og verður einnig horft til annarra orkugjafa en rafmagns. Haft verður samráð við Grænu orkuna og aðra hagsmunaaðila eftir atvikum.

Ábyrgð

Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Árangursmælikvarði

Hlutdeild endurnýjanlegrar orku í samgöngum á landi og fjöldi raf- og tengitvinnbíla á hleðslustöð. 

Hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum á landi hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár. Markmið um a.m.k. 10% hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum á landi náðist fyrir árið 2020 eða rúmlega það (11,4%).

Mynd 16 Hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum á Íslandi árin 2008-2022

Fjöldi hleðslu-, metan- og vetnisstöðva á landinu.

Mælikvarðinn hefur verið brotinn upp, annars vegar er birtur fjöldi hleðslustöðva og hins vegar upplýsingar um metan- og vetnisstöðvar.

Mynd 17 Heildarfjöldi hleðslustöðva á landinu árin 2013-2022

Fjöldi metan- og vetnisstöðva á landinu.[1]

Á landinu eru nú fimm metanstöðvar og tvær vetnisstöðvar.

Fjöldi bifreiða á hverja hraðhleðslustöð.

Mynd 18 Fjöldi raf- og tengiltvinnbíla á hverja hraðhleðslustöð árin 2014-2022

Heimild: EAFO[2]

Fjöldi bifreiða á hverja hraðhleðslustöð er ákveðið viðmið um innviðaframboð. Þrátt fyrir hraða fjölgun rafbíla hefur verið mikil áhersla á að styðja við innviðauppbyggingu sem leitt hefur til þess að fjöldi raf- og tengiltvinnbíla á hverja hleðslustöð fór úr 82 bílum árið 2018 í 28 bíla árið 2021.

Þá benda notkunarrannsóknir til þess að flestir rafbílanotendur hlaði bíla sína heima við og kemur sú notkun ekki fram í þessu línuriti.


[1 og 2] www.eafo.eu/countries/iceland/1737/summary

Áhrif á ríkissjóð

Kostnaður vegna orkuskipta kemur af fjármagni sem sérstaklega er eyrnamerkt loftslagsmálum. Um er að ræða 1,75 milljarða króna á fimm ára tímabili (2019-2023) til uppbyggingar innviða fyrir rafbíla, rafvæðingu hafna og fleiri nauðsynlegra aðgerða í orkuskiptum. Fjármunir hafa einnig verið tryggðir fyrir árið 2024.

Fjármagn á árunum 2019 og 2020 skiptist á eftirfarandi hátt: Styrkir til uppsetningar 43 hraðhleðslustöðva hringinn í kringum landið, samtals 227 milljónir króna. Styrkir vegna orkuskipta hjá fyrirtækjum með bílaflota, samtals 100 milljónir króna. Styrkir til uppsetningar hleðslustöðva við gististaði, samtals 60 milljónir króna (30 milljónir á árinu 2019 og 30 milljónir árið 2020). Fjármunir ætlaðir til orkuskipta fara einnig í rafvæðingu hafna (sjá aðgerð B.2). Í öllum tilfellum er gert ráð fyrir mótframlögum styrkumsækjenda.

Í sérstöku fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar árið 2020 vegna efnahagsáhrifa Covid-19 heimsfaraldursins er auk þess gert ráð fyrir 300 milljónum króna aukalega til orkuskipta og stendur útfærsla þeirra verkefna yfir.


Áhrif á losun

Aðgerðir A.4-A.7 eru metnar saman – ívilnanir og innviðir fyrir vistvæn ökutæki, lög og reglur vegna orkuskipta og nýskráning bensín- og dísilbíla – auk áhrifa aðgerðar G.1 á vegasamgöngur. Það er gert vegna samlegðaráhrifa þeirra. Áætlað er að með þessum samverkandi aðgerðum muni losun frá vegasamgöngum árið 2030 hafa dregist saman um 51 þúsund tonn CO2-ígilda miðað við spá um þróun samkvæmt grunnsviðsmynd.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum