Hoppa yfir valmynd
I. Landnotkun

Lýsing

I.1 Efling skógræktar. Aðgerðin felur í sér að efla skógrækt til að auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landi.

Staða


Aðgerðin er í framkvæmd.

Skógrækt er efld til að auka kolefnisbindingu í samræmi við áform stjórnvalda.  

Framkvæmd

Skógrækt verður efld til að auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti og efla á sama tíma lífríki. Sérstök áhersla verður lögð á aðgerðir á landi sem losar kolefni úr jarðvegi.

Í fyrstu útgáfu af Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum kom fram að ráðist yrði í umfangsmikið átak hér á landi við endurheimt votlendis, birkiskóga og kjarrlendis, stöðvun jarðvegseyðingar og frekari landgræðslu og skógrækt.

Í framhaldinu var stofnunum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Landgræðslunni og Skógræktinni, falið að vinna saman að nánari útfærslu þess átaks í samvinnu við ráðuneytið. Viðamikil áætlun um bætta landnýtingu í þágu loftslagsmála var í framhaldinu kynnt í júní 2019. Áætlunin er til fjögurra ára og aðgerðir þegar hafnar samkvæmt henni. Auk kolefnisbindingar er aðgerðunum ætlað að vinna gegn landhnignun og efla líffræðilega fjölbreytni.

Mikill fjöldi bænda og annarra landeigenda vinnur að skógræktinni auk félagasamtaka, fyrirtækja, sveitarfélaga og annarra. Árlegt umfang verkefnisins Skógrækt á lögbýlum mun ríflega tvöfaldast á árabilinu og samstarfsverkefni Skógræktarinnar og Landgræðslunnar verða stórefld en þar er áhersla lögð á endurheimt birkiskóga, víðikjarrs og mólendis, svo sem í Hekluskógum. Þjóðskógar og Landgræðsluskógar verða efldir og stuðningur við frjáls félagasamtök aukinn.

Ábyrgð

Matvælaráðuneytið

Árangursmælikvarði

Hektarar nýs skóglendis á ári.

 

Mynd 49 Fjöldi hektara nýs skóglendis árin 2018-2020

Á Mynd 49 má sjá að fjöldi hektara nýs skóglendis jókst um 50% á milli 2018 og 2020.

Árlegum fjölda gróðursettra skógarplantna skipt á trjátegundir.

 

Mynd 50 Heildarfjöldi gróðursettra skógarplanta árin 2018-2020.

Tölurnar sýna að árlegur fjöldi gróðursettra skógarplantna hefur aukist verulega, eða um 43% frá árinu 2018 til ársins 2020.

 

Mynd 51 Árlegur fjöldi gróðursettra skógarplantna eftir trjátegundum árin 2018-2020

Hlutfall ilmbjarkar af heildarfjölda gróðursettra plantna jókst úr 27% í 36% eins og sést á Mynd 51.

Árangursmælikvarði sem settur var fram í aðgerðaætlun um hlutfall varanlegra viðarafurða af árlegri viðarframleiðslu er ekki talinn endurspegla árangur aðgerðarinnar og því er ekki horft til hans við mat á árangri.

Áhrif á ríkissjóð

Aukið fjármagn ríkisins til eflingar skógræktar nemur samtals ríflega 980 milljónum króna á þeim fjórum árum sem ofangreind áætlun nær til, 2019-2022.

Áhrif á losun

Áætlað er að auknar aðgerðir í skógrækt muni skila kolefnisbindingu sem samsvarar alls um 34 þúsund tonnum árið 2022. Þetta samsvarar árlega 134 þúsund tonnum árið 2030 og 258 þúsund tonnum árið 2040. Í þessum tölum er ávinningi vegna fjögurra ára áætlunarinnar hér að ofan og fjárfestingarátakinu vegna Covid-19 heimsfaraldursins slegið saman. Á Íslandi hefur síðustu ár og áratugi verið stunduð öflug landgræðsla og skógrækt en með aðgerðaáætluninni er gert ráð fyrir stóraukinni kolefnisbindingu hér á landi og að dregið verði verulega úr losun frá landi.

Átak í kolefnisbindingu og endurheimt votlendis er lykilatriði við að ná markmiði ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum