Hoppa yfir valmynd
A. Samgöngur á landi

Lýsing

A.8 Orkuskipti í þungaflutningum - Aðgerðin felur í sér að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá þungaflutningum með því að hraða orkuskiptum í þeim geira.

Staða


Aðgerðin er í vinnslu.

Um 15% af losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum koma frá flutningabifreiðum. Það skiptir því miklu að auka hlutfall vistvænna flutningabifreiða á vegum landsins. Starfshópur ráðuneyta um orkuskipti hefur ráðist í greiningar á möguleikum í samvinnu við haghafa og m.a. lagt til styrktarverkefni til að styðja við orkuskipti í þungaflutningum í gegnum Orkusjóð.

Orkusjóður auglýsti styrki í maí 2021 sem eru opnir fyrir þungaflutningaverkefni. Um er að ræða styrki til kaupa á flutningabílum sem nota vistvænt eldsneyti eða til uppbyggingar innviða sem stuðla að notkun endurnýjanlegs eldsneytis fyrir slík farartæki.

Orkusjóður auglýsti styrki í maí 2022 sem eru verkefnastyrkir sem nýst geta í þungaflutningum. Flokkurinn heitir „Raf- og lífeldsneyti og metan“ og felur í sér bæði innviði og framleiðslu. Eftir er að úthluta styrkjunum (staðan í júní 2022).

Íslenskt sýniverkefni fyrir þungaflutninga hefur hlotið styrk frá Norrænu embættismannanefndinni um orkumál. Það felur í sér færanlegar vetnisstöðvar fyrir þungaflutningabifreiðar.

Í aðgerðaáætlun Orkustefnunnar[1] er kveðið á um stuðning við rannsóknir og uppbyggingu vetnis- og rafeldsneytisframleiðslu. Einnig að kanna skuli uppbyggingu innviða í tengslum við framleiðslu og flutning á vetni sem og að kanna möguleika til útflutnings á grænu vetni til lengri tíma í alþjóðlegu samstarfi. Unnið er að gerð Vegvísis fyrir vetni og rafeldsneyti[2] fyrir Ísland sem mun nýtast einna helst á þeim sviðum sem rafvæðingin nær síður til, þ.e. í þungaflutningum á landi, í skipaumferð og í flugi.

Ólíkt hefðbundnum rafbílum hefur afsláttur frá virðisaukaskatti minni áhrif á rekstraraðila þungaflutninga og því þarf annað að koma til. Í því samhengi hafa verið viðraðar hugmyndir þess efnis að kanna þyrfti möguleika þess að veita afslátt eða afnema þungaskatt til að liðka fyrir orkuskiptum í þungaflutningum.



Framkvæmd

Unnið verður markvisst að því að hraða orkuskiptum í þungaflutningum hér á landi. Losun á hverja þungabifreið er margfalt meiri en frá hverri fólksbifreið, auk þess sem þær aka hlutfallslega meira. Til þungaflutninga teljast samkvæmt losunarbókhaldinu vöruflutningabifreiðar yfir 3,5 tonn í þyngd.

Árið 2018 var um 15% af þeirri losun gróðurhúsalofttegunda sem kom frá vegasamgöngum frá flutningabifreiðum. Hvert vistvænt tæki sem bætist við flotann hefur því mikið vægi. Helstu hindranir í vegi fyrir orkuskiptum í þungaflutningum eru skortur á framboði eldsneytis og tækja fyrir lengri vegalengdir, skortur á innviðum og þar af leiðandi skortur á eftirspurn eftir vistvænum ökutækjum.

Það verður hlutverk verkefnisstjórnar um orkuskipti að hafa samráð við haghafa til að fá fram tillögur um það á hvaða verkefni beri helst að leggja áherslu til að greiða sem best og hraðast fyrir orkuskiptum í þungaflutningum. Verkefnisstjórnin mun vinna áfram með tillögur Grænu orkunnar frá því í febrúar 2020 en mun jafnframt láta vinna dýpri greiningu á þeim tillögum sem fram koma í skýrslunni. Verkefnisstjórn leggur síðan fram tillögur fyrir 1. desember 2020 um forgangsverkefni og kostnaðarskiptingu fyrir árin 2021-2023, þar á meðal fyrir þungaflutninga.

Ýmsar leiðir eru til að stuðla að framþróun varðandi þungaflutninga, svo sem með stuðningi í gegnum skattalegar ívilnanir, stuðningi við sprotaverkefni eða fyrirtæki (pilot-verkefni), styrkjum til rannsóknarverkefna, framlagi til eldsneytisframleiðslu, innviða eða beinna tækjakaupa. Verkefnisstjórn um orkuskipti mun á grundvelli greiningar leggja til verkefni sem ráðist skal í.

Ábyrgð

Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Árangursmælikvarði

Fjöldi nýskráninga vistvænna þungaflutningabifreiða.

 

 

 

Mynd 21 Fjöldi nýskráninga vistvænna flutningabifreiða árin 2014-2022[1]

 

 

Mynd 22 Heildarfjöldi nýskráninga þungaflutningabifreiða eftir orkugjafa árin 2014-2022

 

Orkuskipti í þungaflutningum eru komin skemmra á veg en varðandi fólksbíla og framboð slíkra bíla hefur verið takmarkað þótt sterkar vísbendingar séu um að það sé að breytast. Orkusjóður hefur auglýst styrki til að hvetja til orkuskipta í þungaflutningum. Vegvísir fyrir vetni og rafeldsneyti mun einnig hafa áhrif á framgang þessarar aðgerðar.



[1] Til þungaflutninga teljast flutningabifreiðar yfir 3,5 tonn að þyngd. Þær þungaflutningabifreiðar sem hafa verið fluttar inn hingað til og teljast vistvænar eru allar metanbílar.

 

Áhrif á ríkissjóð

Áhrif á ríkissjóð liggja ekki fyrir en felast að svo stöddu einungis í kostnaði vegna greiningar.

Áhrif á losun

Möguleg áhrif á losun liggja ekki fyrir. Til að gefa hugmynd um stærðir myndi markmið um 15%-25% þungaflutningabifreiða á Íslandi sem hreinorkubíla árið 2030 skila samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda um allt að 14 þúsund tonn CO2-ígilda miðað við spá um þróun samkvæmt grunnsviðsmynd. Þar sem aðgerðin er í mótun eru áhrif á samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda ekki reiknuð inn í aðgerðaáætlunina að svo stöddu.

 

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum