Hoppa yfir valmynd
G. Hvatar til umskipta

Lýsing

G.5 Menntun um loftslagsmál í skólum . Aðgerðin felur í sér menntun á sviði loftslagsmála í skólum.

Staða


Aðgerðin er í framkvæmd.

Sjálfbærnimenntun, umhverfisvitund, samfélagskennd og loftslagsmál eiga ríkt erindi inn í alla skóla og til fræðsluaðila í samræmi við sjálfbærnigrunnþátt aðalnámskráa. Ný menntastefna til ársins 2030 var samþykkt sem þingsályktun á Alþingi í mars 2021.[1] Einkunnarorð menntastefnunnar eru „framúrskarandi menntun alla ævi“ og gildi stefnunnar eru þrautseigja, hugrekki, þekking, hamingja og sjálfbærni.

Ýmis verkefni innan skólakerfisins tengjast sjálfbærni og loftslagsmálum. Má þar nefna Grænfánaverkefnið sem tekur til allra skólastiga, styrkt þróunarstarf í skólum, námsgagnagerð, starfsþróun kennara, rannsóknir, samstarfsverkefni, þátttöku og virkni barna og ungmenna og verkefni sem tengjast innleiðingu aðalnámskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, ekki síst heimsmarkmiði 4.7 um sjálfbærnimenntun.

Núverandi samningur mennta- og barnamálaráðuneytisins og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins við Landvernd um Grænfánaverkefnið er til fimm ára frá 2022 til 2026 með aukinni áherslu á menntun um loftslagsmál í skólum á öllum skólastigum. Áherslusvið Sprotasjóðs leik-, grunn- og framhaldsskóla eru heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sér í lagi markmið 3, 4, 11, 12 og 13.[2]

Í nýrri markáætlun um samfélagslegar áskoranir eru umhverfismál og sjálfbærni ein þriggja stoða, þar á meðal loftslagsmál.[3]

Fyrirhugað er að endurskoða greinasvið aðalnámskrár grunnskóla. Þar gefst tækifæri til að styrkja sjálfbærnistoðina til framtíðar og setja hæfniviðmið um loftslagsmál. Einnig gefst kostur á að nýta sjóðakerfi menntakerfisins með því að forgangsraða verkefnum í þágu menntunar um loftslagsmál í skólum en mikill áhugi er meðal skóla á öllum skólastigum um þessi mál. Þetta á einnig við um ungmennaráð, nemendasamtök og félagasamtök sem tengjast menntakerfinu með einhverjum hætti.


[1] www.althingi.is/altext/151/s/1111.html

[2] www.sprotasjodur.is/is/um-sprotasjod/uthlutanir/2020-2021

[3] www.rannis.is/sjodir/rannsoknir/markaaetlun-um-samfelagslegar-askoranir/

Framkvæmd

Menntun um loftslagsmál í skólum verður aukin á öllum skólastigum og hjá ýmsum fræðsluaðilum í samræmi við grunnþátt menntunar um sjálfbærni með það að markmiði að bjóða upp á fjölbreytta fræðslu um loftslagsbreytingar, afleiðingar þeirra og hvað hægt er að gera til að sporna við þeim.

Sjálfbærnimenntun, umhverfisvitund, samfélagskennd og loftslagsmál eiga ríkt erindi inn í alla skóla og til fræðsluaðila. Loftslagsmálin eru á margan hátt flókin viðfangs og snerta marga þætti samfélagsins. Mikilvægt er að tryggja að gott fræðsluefni sé til staðar sem tekur bæði á vísindaþættinum og áhrifum loftslagsbreytinga, en einnig samfélagslegum þáttum svo sem lýðræði, jafnrétti og mannréttindum. Tryggja verður að til séu námsgögn sem henta ólíkum skólastigum. Frá því að fyrsta útgáfa Aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum kom út hafa þau námsgögn sem til eru um loftslagsmál hér á landi verið kortlögð með það fyrir augum að sjá hvar efni vantar og hvar hægt er að gera betur. Menntamálastofnunar að nýtir greinagerðina við þróun námsgagna og endurskoðun námsefnis. Stofnunin hefur sett af stað verkefni sem gengur undir nafninu Umhverfisbankinn, þar sem fyrirhugað er að safna saman margskonar fræðsluefni sem nýst getur bæði skólum og almenningi.

Þess má vænta að margvísleg fræðsluverkefni líti á næstunni dagsins ljós (sjá aðgerð G.4 um fræðslu um loftslagsmál fyrir almenning) og að hluti þeirra nýtist í menntakerfinu öllu. Félagasamtök hafa auk þess unnið öflugt starf í umhverfismennt og fræðslu í skólum landsins og ungt fólk lætur loftslagsmál til sín taka með öflugum hætti.

Gerður hefur verið samningur við Landvernd um að vinna að fræðslu um loftslagsmál í skólum í ljósi reynslu og árangurs þeirra af slíkri fræðslu. Fræðslan tengist verkefninu Skólar á grænni grein, sem einnig er þekkt sem Grænfánaverkefnið og nær til rúmlega 200 skóla á öllum skólastigum – allt frá leikskóla til háskóla. Fræðsla Landverndar um loftslagsmál nær til allra skóla óháð þátttöku þeirra í Grænfánaverkefninu en jafnframt er stefnt að fjölgun skóla í verkefninu á komandi árum.

Loftslagsmálin verða sérstaklega skoðuð við næstu endurskoðun á aðalnámskrám fyrir skólakerfið og sett meðal forgangsatriða gagnvart úthlutun úr sjóðum á málefnasviðum mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Ábyrgð

Mennta- og barnamálaráðuneytið

Árangursmælikvarði

Hlutfall leik-, grunn-, framhalds- og háskóla sem eru í Grænfánaverkefninu.

 

Mynd 44 Hlutfall skóla á grænni grein af heildarfjölda skóla árin 2019-2022

 
 

Mynd 45 Hlutfall skóla á grænni grein eftir skólastigum árin 2019- 2022

Áhrif á ríkissjóð

Samningurinn vegna Skóla á grænni grein (Grænfánaverkefnisins) er til fimm ára (2022-2026) og nemur sameiginlegt framlag umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og mennta- og barnamálaráðuneytisins samtals 224 milljónum króna á tímabilinu. Þeir fjármunir koma að hluta af fjármunum sem eyrnamerktir eru sérstaklega til loftslagsmála. Mennta- og barnamálaráðuneytið nýtir einnig ýmsa sjóði og styrkjamöguleika til að efla sjálfbærnimenntun og þróa fræðslu á sviði loftslagsmála með áherslu á ungt fólk og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Áhrif á losun

Ljóst er að fræðsla um loftslagsmál er afar mikilvæg, stuðlar almennt að aukinni vitund um loftslagsbreytingar og er mörgum hvatning til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ekki er á hinn bóginn hægt að mæla árangur aðgerðarinnar með beinum hætti hvað varðar samdrátt í losun. Væntur samdráttur mun að auki birtast í öðrum geirum og bókfærast þar, svo sem með samdrætti í losun frá vegasamgöngum og úrgangi og aukinni kolefnisbindingu.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum