Hoppa yfir valmynd
G. Hvatar til umskipta

Lýsing

G.8 Sjálfbær opinber innkaup. Aðgerðin felur í sér að tekið verði tillit til umhverfissjónarmiða við öll innkaup ríkisins.

Staða


Aðgerðin er í framkvæmd.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið gaf út nýja innkaupastefnu í apríl 2021. Þar er kveðið á um að innkaup ríkisins séu framsækin og sjálfbær og taki mið af umhverfis- og loftslagssjónarmiðum.

Framkvæmd

Vistvæn innkaup verða gerð að almennri reglu við innkaup ríkisaðila. Umhverfis- og loftslagssjónarmið verða hluti af stefnu um sjálfbær opinber innkaup og hægt að fylgjast með stöðu aðgerða á sérstakri vefsíðu.

Ríkið kaupir á hverju ári vörur og þjónustu fyrir 117 milljarða króna og mikil tækifæri eru fólgin í að marka skýra umhverfisstefnu varðandi innkaupin. Þannig má bæði hafa viðamikil bein áhrif en sömuleiðis gríðarleg óbein áhrif í samfélaginu með því að varða veginn fyrir aðra og skapa eftirspurn eftir umhverfisvænni vörum. Tækifæri eru til að gera margvíslega innkaupaflokka mun vistvænni, svo sem rammasamninga um málningar- og múrvörur, hreinlætisvörur, pappírsvörur, ritföng og prentun, og rafmagnsvörur og tæki. Einnig má minnka kolefnisspor verulega með breytingum á hönnun mannvirkja, notkun á umhverfisvænni steypu og öðrum breytingum varðandi vistvænni aðföng byggingavara.

Viðamikil vinna er nú í gangi við stefnumótun þessa efnis á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Stöðumat og valkostir vegna opinberra innkaupa var sett í Samráðsgátt stjórnvalda í janúar 2020. Meðal þess sem lagt er til er að ríkisaðilar velji ávallt umhverfismerktar vörur og nýti sér greiningu á vistferilskostnaði við innkaup þar sem því verður við komið. Útgangspunkturinn er að ekki þurfi sérstaka stefnu um vistvæn innkaup heldur að umhverfis- og loftslagssjónarmið verði hluti af stefnu ríkisins um sjálfbær opinber innkaup.

Íslenska ríkið kaupir auk þess matvæli fyrir um þrjá milljarða króna á ári og getur sem stórkaupandi fyrir mötuneyti sín haft víðtæk áhrif á eftirspurn eftir matvælum, stuðlað að umhverfisvænum innkaupum, dregið úr kolefnisspori og eflt nýsköpun. Í innkaupastefnu matvæla fyrir ríkisaðila, sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið gaf út í maí 2019, er meðal annars lögð áhersla á að innkaupaferlar breytist þannig að mötuneyti fái aðgang að umbúðalausum matvælum og að hannað verði opinbert reiknilíkan fyrir kolefnisspor matvæla. Bent er á að stefna ætti að því að halda neyslu á rauðu kjöti í hófi. Tryggt verður að innkaupastefna matvæla og stefna um sjálfbær opinber innkaup vinni saman.

Ábyrgð

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Árangursmælikvarði

Hlutfall útboða með vistvænum skilyrðum.

Mynd 46 Hlutfall útboða ríkisins með vistvænum skilyrðum árin 2018-2022

Mynd 46 sýnir að hlutfall útboða ríkisins með vistvænum skilyrðum jókst úr 31% árið 2018 í 55% árið 2021. [1]


[1] Heimild: Ríkiskaup. Útboð skráð í málaskrá/innkaupakerfi ríkisins.

Áhrif á ríkissjóð

Markmið stefnu um sjálfbær opinber innkaup er að ná fram enn markvissari innkaupum ríkisins en ella og því má búast við sparnaði vegna aðgerðarinnar. Gera má ráð fyrir auknum kostnaði til að byrja með en sparnaði til lengri tíma.

Áhrif á losun

Aðgerðin er í mótun og áhrif á samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda eru ekki reiknuð inn í aðgerðaáætlunina að svo stöddu. Stefna um sjálfbær opinber innkaup er enn í vinnslu. Ljóst er að aðgerðin mun hafa ruðningsáhrif þar sem ríkið er stór kaupandi vöru og þjónustu. Mat á samdrætti í losun verður uppfært eftir því sem aðgerðinni vindur fram.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum