Hoppa yfir valmynd
A. Samgöngur á landi

Lýsing

A.6 Lög og reglur vegna orkuskipta - Aðgerðin felur í sér að tryggja að lög og reglugerðir styðji við orkuskipti.

Staða


Aðgerðin er í framkvæmd.

Lögum um fjöleignarhús hefur verið breytt til að liðka fyrir rafbílavæðingu. Tvær reglugerðir hafa verið uppfærðar með tilliti til hleðslubúnaðar og viðskipta í tengslum við hleðslustöðvar: reglugerð um raforkuvirki (nr. 1679/2009, með áorðnum breytingum) og reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar (nr. 1150/2019). Þessar breytingar eru liður í innleiðingu Evróputilskipunar um innviði fyrir óhefðbundið eldsneyti nr. 2014/94/EU. Þá hafa reglur Neytendastofu um verðmerkingar og verðsamanburð á orkugjöfum fyrir bifreiðar verið uppfærðar. Stefnurammi fyrir óhefðbundið eldsneyti og innviði tengda því birtist í ýmsum stefnuskjölum og áætlunum sem unnið hefur verið eftir. Hér má m.a. nefna þingsályktun um orkuskipti[1] og langtímaorkustefnu og aðgerðaáætlanir tengdar þeim. Einnig hafa verið unnar matsskýrslur á vegum Grænu orkunnar. Skýrsla um innlent eldsneyti[2] hefur verið lögð fram á Alþingi. Á þessum grunni hafa verið lagðar fram tillögur að áherslum fyrir styrkveitingar Orkusjóðs.[3] Þessu til viðbótar voru nýverið gefnar út skýrslur um mat á landtengingu hafna[4] og könnun gerð á fýsileika rafeldsneytisframleiðslu.[5] Þau verkefni sem eru í gangi varðandi óhefðbundið eldsneyti og tengda innviði eru gerð vetnisvegvísis og könnun á þjónustustigi rafhleðsluinnviða um land allt.


[1] www.althingi.is/altext/146/s/1002.html

[2] www.althingi.is/altext/pdf/149/s/2043.pdf

[3] www.si.is/frettasafn/orkusjodur-opnar-fyrir-umsoknir-um-styrki-til-orkuskipta

[4] www.stjornarradid.is/library/01--Frettatengt---myndir-og-skrar/ANR/Orkustefna/Rafv%C3%A6%C3%B0ing%20hafna%20%C3%A1%20%C3%8Dslandi.pdf

[5] www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2021/06/23/Skyrsla-um-fysileika-thess-ad-framleida-rafeldsneyti-a-Islandi/

Framkvæmd

Tryggt verður að viðeigandi lög og reglur liðki fyrir orkuskiptum hvort sem þau eiga sér stað á landi, í höfnum eða við flughafnir. Hluta aðgerðarinnar er þegar lokið og hluti hennar stendur enn yfir.

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur gert tvær breytingar á regluverki um nýbyggingar sem fela í sér að skylt er að gera ráð fyrir hleðslustöðvum fyrir rafbíla við allt nýbyggt húsnæði á landinu. Reglugerð fyrir íbúðarhúsnæði var sett í júní 2018 og reglugerð um atvinnuhúsnæði í desember sama ár. Með þessu hefur verið tryggt að gert sé ráð fyrir hleðslu rafbíla í öllu nýju húsnæði í framtíðinni – hvort sem er við heimili, verslanir, stofnanir, fyrirtæki eða annað.

Í félagsmálaráðuneytinu hefur staðið yfir vinna sem miðar að því að auðvelda hleðslu rafbíla í fjöleignarhúsum sem þegar hafa verið byggð. Frumvarp um breytingar á lögum um fjöleignarhús sem lýtur að hleðslubúnaði fyrir rafbíla var samþykkt á Alþingi í júní 2020. Í lögunum er meðal annars fjallað um samþykki íbúa fyrir því að hleðslubúnaði verði komið upp fyrir rafbíla við eða á stæði á lóð fjöleignarhúss og hvernig kostnaður vegna hleðslubúnaðar fyrir rafbíla skiptist á eigendur þess.

Í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu stendur yfir vinna við innleiðingu Evróputilskipunar um innviði fyrir orkuskipti. Hún felur í sér skyldur ríkja til að móta sér stefnu varðandi uppbyggingu innviða vegna vistvænna orkugjafa, þar með talið hleðslustöðva fyrir rafbíla og stöðva fyrir bifreiðar sem nota jarðgas eða vetni. Unnin verður áætlun um uppbyggingu slíkra innviða hér á landi með það að markmiði að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í vegasamgöngum og minnka umhverfisáhrif. Hluti af tilskipuninni er setning tæknilegra krafna þannig að til að mynda hleðslustaurar uppfylli samræmda staðla. Í ráðuneytinu er unnið að innleiðingu fleiri tilskipana sem tengjast loftslagsmálum og orkuskiptum.

Fylgst verður vandlega með hvort breyta þurfi lögum og reglugerðum enn frekar til að liðka fyrir orkuskiptum hér á landi.

Ábyrgð

Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Árangursmælikvarði

Áætlun um uppbyggingu innviða til orkuskipta hefur verið gefin út.

Stefnurammi fyrir óhefðbundið eldsneyti og innviði tengda því birtist í ýmsum stefnuskjölum og áætlunum sem unnið hefur verið eftir, sbr. framangreint. Innleiðingu tilskipunar nr. 2014/94/EU er lokið og hafa reglugerðir og lög tengd henni og annað innlent regluverk tekið gildi.

Málaflokkurinn er í stöðugri þróun og er frekara regluverk í vinnslu, bæði að frumkvæði Íslands og sem innleitt verður vegna EES-samningsins. Vel er fylgst með því að lög og reglur styðji við orkuskipti.

Áhrif á ríkissjóð

Aðgerðin hefur ekki í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð annan en sem nemur áætlanagerð um uppbyggingu innviða vegna vistvænna orkugjafa.

Áhrif á losun

Aðgerðir A.4-A.7 eru metnar saman – ívilnanir og innviðir fyrir vistvæn ökutæki, lög og reglur vegna orkuskipta og nýskráning bensín- og dísilbíla – auk áhrifa aðgerðar G.1 á vegasamgöngur. Það er gert vegna samlegðaráhrifa þeirra. Áætlað er að með þessum samverkandi aðgerðum muni losun frá vegasamgöngum árið 2030 hafa dregist saman um 51 þúsund tonn CO2-ígilda miðað við spá um þróun samkvæmt grunnsviðsmynd.

 

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum