Hoppa yfir valmynd
A. Samgöngur á landi

Lýsing

A.7 Nýskráning bensín- og dísilbíla óheimil árið 2030 - Aðgerðin felur í sér að nýskráningar fólksbíla sem eru knúnir af dísil og bensíni verða óheimilar hér á landi árið 2030.

Staða


Aðgerðin er í vinnslu.

Ýmis ríki hafa sett sér markmið um að nýskráningar bifreiða sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti verði á ákveðnum tímapunkti óheimilar. Má þar nefna Bretland, Frakkland og Noreg. Aðgerðin er ekki síst mikilvæg vegna þeirra skilaboða sem í henni felast fyrir bílaframleiðendur. Ákvörðun um framleiðslu einstakra bíltegunda er ekki tekin yfir nótt heldur er hún langtímaákvörðun. Mikilvægt er því að stjórnvöld um allan heim leggi bílaframleiðendum línur um hvenær markaðir þrengjast verulega eða lokast alveg fyrir bíla sem losa gróðurhúsalofttegundir.

Mikil fjölgun nýorkubifreiða styður við markmið aðgerðarinnar. Á árinu 2021 var mikill meirihluti nýskráðra bíla vistvænir, þ.e. hreinorkubílar, tengil- og/eða tvinnbílar eða metan. Í árslok voru 16% fólksbíla í umferð slíkir bílar. Á fyrsta ársfjórðungi 2022 voru tæplæga ¾ nýskráðra fólksbíla vistvænir.  Það miðar því vel að því markmiði að fólksbílar gangi að mestu eða öllu leyti fyrir vistvænum orkugjöfum. 

Næsta skerf er að skilgreina hvort ákvæðið muni aðeins eiga við um bíla sem ganga einvörðungu fyrir jarðefnaeldsneyti eða hvort það eigi einnig að taka til bifreiða sem nota blandaða orkugjafa. Hvort veita eigi undanþágur s.s. vegna fjórhjóladrifinna lágdrifsbíla til viðbragðsaðila o.fl. á meðan sambærilegir umhverfisvænir bílar eru ekki fáanlegir á markaði.

Markmiðið hefur ekki verið lögfest hér á landi.

Framkvæmd

Óheimilt verður að meginreglu að nýskrá bensín- og dísilbíla á Íslandi árið 2030.

Framboð hreinorkubíla sem og annarra vistvænni ökutækja hefur aukist verulega á stuttum tíma. Aðgerðin felur í sér meginreglu sem verður þó háð tækniþróun og því má búast við að til einhverra undaþága komi, t.d. á grundvelli byggðasjónarmiða eða vegna ökutækja viðbragðsaðila. Rétt er að árétta að aðgerðin hverfist eingöngu um nýskráningar. Eftir sem áður verður leyfilegt að keyra bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti og áfram verður hægt að kaupa þá notaða og selja notaða – það sem verður ekki hægt að gera er að kaupa nýja fólksbíla til landsins sem ganga eingöngu fyrir jarðefnaeldsneyti. Með þessu er dregin skýr lína í sandinn um að bílar sem eingöngu eru knúnir jarðefnaeldsneyti verða ekki hluti af framtíð fólksbílasamgangna hér á landi.

Ýmis önnur ríki hafa sett sér markmið um að nýskráningar bifreiða sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti verði á ákveðnum tímapunkti óheimilar. Má þar nefna Bretland, Frakkland og Noreg. Aðgerðin er ekki síst mikilvæg vegna þeirra skilaboða sem í henni felast fyrir bílaframleiðendur. Ákvörðun um framleiðslu einstakra bíltegunda er ekki tekin yfir nótt heldur er hún langtímaákvörðun. Mikilvægt er því að stjórnvöld um allan heim leggi bílaframleiðendum línur um hvenær markaðir þrengjast verulega eða lokast alveg fyrir bíla sem losa gróðurhúsalofttegundir.

Grænvangur, samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir, hefur hrint af stað verkefninu Hreinn, 2 og 3 sem miðar að því að fjölga hreinorkubifreiðum á meðal íslenskra fyrirtækja enda reka þau mörg hver stóra bílaflota. Þar er gert ráð fyrir að nýskráning fólksbíla, sem knúnir eru jarðefnaeldsneyti, verði lögð af fyrir árið 2023.

Ábyrgð

Innviðaráðuneytið

Árangursmælikvarði

  • Fjöldi nýskráninga bensín- og dísilbifreiða.[1]

 

 

 

Mynd 19 Fjöldi nýskráninga bensín- og dísilbifreiða árin 2014-2022

 

 

 

Mynd 20 Fjöldi nýskráninga fólksbifreiða eftir orkugjafa árin 2014-2022

 

Orkuskipti í samgöngum og fjölgun rafbíla í bílaflota landsins styðja við aðgerðina.

[1] Heimild: Samgöngustofa

Áhrif á ríkissjóð

Almennt má segja að breytingar á samsetningu bílaflota landsins munu hafa áhrif á skatttekjur ríkissjóðs. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur sett af stað vinnu til að meta á heildstæðan hátt skatta og gjöld á bifreiðar og eldsneyti þar sem meðal annars verður tekið tillit til breyttrar samsetningar flotans.

Áhrif á losun

Aðgerðir A.4-A.7 eru metnar saman – ívilnanir og innviðir fyrir vistvæn ökutæki, lög og reglur vegna orkuskipta og nýskráning bensín- og dísilbíla – auk áhrifa aðgerðar G.1 á vegasamgöngur. Það er gert vegna samlegðaráhrifa þeirra. Áætlað er að með þessum samverkandi aðgerðum muni losun frá vegasamgöngum árið 2030 hafa dregist saman um 51 þúsund tonn CO2-ígilda miðað við spá um þróun samkvæmt grunnsviðsmynd.

 

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum