Hoppa yfir valmynd

E.3 Aukin innlend grænmetisframleiðsla

E. Landbúnaður

Lýsing

Aðgerðin felur í sér að auka framleiðslu á grænmeti hér á landi og stuðla að kolefnishlutleysi í garðyrkju.

Staða


Aðgerðin er í framkvæmd.

Framleiðsla á íslensku grænmeti verður aukin um 25% á árunum 2021 til 2023, aukið fjármagn lagt í lífræna framleiðslu og unnið að því markmiði að íslensk garðyrkja verði kolefnishlutlaus eigi síðar en árið 2040. Þetta var samþykkt við endurskoðun samnings um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða (garðyrkjusamnings) í maí 2020. Hluta af því fjármagni sem rennur til garðyrkjusamningsins verður sérstaklega ráðstafað til aðgerða í loftslagsmálum.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Samband garðyrkjubænda skrifuðu í árslok 2020 undir samkomulag um tvö verkefni sem byggð voru á tillögum frá Sambandi garðyrkjubænda. Heildarfjármagn sem verður ráðstafað til þessara verkefna á árinu 2020 er 15 m.kr. Sambandi garðyrkjubænda er falið að stýra verkefnunum. 

Annað verkefnið, „Gróður í borg og bæ“, er átaksverkefni sem miðar að því að auka þekkingu, áhuga og þátttöku almennings á ræktun í því skyni að auka kolefnisbindingu. Hitt verkefnið sem um ræðir kallast „Kolefnisbinding 2020“ og er hluti af stærra heildarverkefni sem ber nafnið Kolefnisbrúin. Verkefnið Kolefnisbrúin snýst um að ræktendur um land allt geti með plöntum og umhirðu skóga kolefnisjafnað starfsemi sína og selt þá þjónustu til annarra, jafnvel til stórra og meðalstórra fyrirtækja. Lögð er áhersla á að ferlið sé vottað og úttektaraðilar sannreyni að umsamin ræktun fari fram með tilheyrandi kolefnisbindingu.

Framkvæmd

Framleiðsla á íslensku grænmeti verður aukin um 25% á næstu þremur árum, aukið fjármagn lagt í lífræna framleiðslu og unnið að því markmiði að íslensk garðyrkja verði kolefnishlutlaus eigi síðar en árið 2040. Þetta var samþykkt við endurskoðun samnings um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða (garðyrkjusamnings) í maí 2020.

Til að stuðla að kolefnishlutleysi íslenskrar garðyrkju fyrir árið 2040 verður hluta af fjármagni sem rennur til garðyrkjusamningsins sérstaklega ráðstafað til aðgerða í loftslagsmálum. Byggð verður upp þekking á losun og bindingu kolefnis, unnið að bættri meðhöndlun og nýtingu aðfanga og áburðar, dregið úr sóun og unnið að markvissri jarðrækt, aukinni sjálfbærni og öðrum aðgerðum sem miða að því að kolefnisjafna búskap.

Horft verður til heildrænnar nálgunar þar sem stefnumörkun í loftslagsmálum, orkumálum, atvinnumálum, byggðamálum og fleiri veigamiklum þáttum, ásamt matvælastefnu, fer saman við þær aðgerðir sem ráðist verður í. Aukið verður enn frekar við þekkingu bænda á loftslagsmálum og leiðum til þess að auka bindingu kolefnis og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta verður meðal annars gert með því að auka aðgang bænda að beinni ráðgjöf og fræðslu. Lögð verður áhersla á að þekkja vel möguleika hvers garðyrkjubýlis og byggja upp gagnsæja og vottaða umgjörð um verkefnið. Framkvæmdanefnd búvörusamninga ráðstafar fjármunum vegna ársins 2020 að fengnum tillögum Sambands garðyrkjubænda. Tillögunum verður skilað fyrir lok sumars 2020. Ráðstöfun fjármuna fyrir árin 2021-2026 mun liggja fyrir í árslok 2020.

Ábyrgð

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Árangursmælikvarði

Grænmetisframleiðsla á Íslandi.

 

Mynd 35 Magn grænmetisframleiðslu á Íslandi árin 2015-2020

2021 er fyrsta heila árið þar sem aðgerðin er í gangi. Á Mynd 38 má sjá hver grænmetisframleiðslan var á Íslandi á árunum 2015-2020. Ekki er raunhæft að miða við að árangur aðgerðarinnar endurspeglist í árangursmælikvarðanum árið 2020 því að þegar aðgerðin kom fram í maí það ár var búið að skipuleggja framleiðslu ársins. Staðan verður metin undir lok árs 2021, bæði hvað varðar framleiðsluaukninguna og ofangreind verkefni þegar skýrslur um framgang þeirra hafa borist atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Áhrif á ríkissjóð

Til garðyrkjusamningsins renna auknir fjármunir, alls 200 milljónir króna á ári frá og með árinu 2020. Verkefni um kolefnishlutleysi í garðyrkju er fjármagnað í gegnum sama samning og munu 15 milljónir króna renna til þess árlega frá 2020-2026. Einnig koma fjármunir í verkefni tengd loftslagsmálum í gegnum aðra liði samningsins sem varið er til að styrkja jarðrækt og kynbótastarf auk þróunarfjár.

Áhrif á losun

Ekki er að svo stöddu hægt að meta þann samdrátt sem verður vegna aðgerðarinnar.

Þess má vænta að aðgerðin geti rutt leiðina fyrir aðra bændur og ýtt undir breytingar í búrekstri sem leiða til minni losunar. Væntur samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda vegna verkefnisins mun meðal annars birtast í aðgerð um bætta nýtingu og meðhöndlun áburðar. Væntur samdráttur gæti einnig birst í samdrætti í losun frá vélum og tækjum auk þess sem hann mun birtast í aðgerðum um kolefnisbindingu og bætta landnotkun.

Ábyrgð

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Til baka
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira