Hoppa yfir valmynd
B. Skip og hafnir

Lýsing

B.4 Orkuskipti í ferjum - Aðgerðin felur í sér að ná fram orkuskiptum í ferjum sem eru í reglubundnum rekstri á leiðum sem flokkast sem hluti af þjóðvegakerfi.

Staða


Aðgerðin er í framkvæmd.

Það er stefna samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að við endurnýjun ferja verði horft til endurnýjanlegra orkugjafa og hefur Vegagerðinni verið falið að vinna ferjuáætlun til 15 ára 2022-2036.

Ferjur á landinu eru fimm talsins, þar af eru þrjár í eigu opinberra aðila.

Vestmannaeyjaferjan Herjólfur gengur nú nánast alfarið fyrir rafmagni. Gert er ráð fyrir að Hríseyjarferjan verði í framtíðinni rafknúin en aðrar ferjur í ríkiseigu knúnar öðru vistvænu eldsneyti sem taki mið af möguleikum miðað við siglingaleið.

Framkvæmd

Skipt verður um orkugjafa í þeim ferjum sem eru í reglubundnum rekstri eins og kostur er með tilliti til tækniþróunar. Í stað þess að nota jarðefnaeldsneyti munu þær nýta orkugjafa án jarðefnaeldsneytis.

Ferjur á landinu er fimm talsins. Þar af eru þrjár í eigu opinberra aðila:

Vestmannaeyjaferjan Herjólfur. Nýr Herjólfur er tvinnskip (hybrid) og gert er ráð fyrir að skipið muni sigla alfarið á rafmagni milli lands og eyja. Fyrsta ferðin á hreinu rafmagni var farin í janúar 2020.

Hríseyjarferjan Sævar. Ferjan verður endurnýjuð með nýsmíði sem rafmagnsferja. Stefnt er að því að hönnun hennar geti hafist síðla árs 2024.

Grímseyjarferjan Sæfari. Þegar kemur að endurnýjun skipsins verður horft til annarra orkugjafa en jarðefnaeldsneytis. 

Tvær ferjur á landinu eru í einkaeigu:

Mjóafjarðarferja. Um er að ræða litla ferju með litla losun sem eigandinn hefur áhuga á að rafvæða. 

Breiðafjarðarferjan Baldur. Um er að ræða ferju í eigu Eimskips/Sæferða. Ferjusiglingarnar um Breiðafjörð eru styrktar af ríkinu níu mánuði á ári en yfir sumartímann siglir Baldur á markaðsforsendum. Í næstu kröfulýsingu fyrir útboð vegna ferjusiglinganna verður hvatt til orkuskipta.

Ábyrgð

Innviðaráðuneytið

Árangursmælikvarði

Fjöldi og hlutfall ferja sem ganga fyrir vistvænu eldsneyti:

 

Mynd 28 Fjöldi og hlutfall ferja sem ganga fyrir vistvænu eldsneyti árið 2022

Orkuskipti í ferjum eru hafin með rafvæðingu Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs. Hugað verður að frekari orkuskiptum í ferjum við endurnýjun þeirra á komandi árum.

Áhrif á ríkissjóð

Kostnaður kemur ekki af fjármagni sem sérstaklega er eyrnamerkt loftslagsmálum. Kostnaður við nýjan Herjólf var um 5.300 milljónir króna, þar af 800 milljónir króna vegna rafvæðingar, og er nú þegar greiddur. Áætlað er að kostnaður við nýjan Sævar verði svipaður og við endurnýjun með hefðbundinni vél en kostnaður liggur ekki fyrir. Mögulegur kostnaður vegna endurnýjunar Sæfara liggur ekki fyrir.

Áhrif á losun

Áætlað er að með þessari aðgerð muni losun frá ferjum árið 2030 hafa dregist saman um tæp 4 þúsund tonn af CO2-ígildum miðað við spá um þróun samkvæmt grunnsviðsmynd.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum